Álandseyjar
Álandseyjar eða Áland (sænska: Åland; finnska: Ahvenanmaa) eru sjálfstjórnarsvæði undir finnskum yfirráðum á Eystrasalti undan strönd Finnlands.[1] Álandseyjar telja í heildina um 6.500 eyjar og sker en hinir sænskumælandi íbúar búa langflestir á stærstu eyjunni, Fasta Åland.[2] Það var samkvæmt ákvörðun Þjóðabandalagsins árið 1921 sem Álandseyjar fengu sjálfsstjórn en áður höfðu íbúar eyjanna sóst eftir því að segja skilið við Finnland og verða hluti af Svíþjóð. Opinbert tungumál á eyjunum er sænska og höfuðborgin er Maríuhöfn.
Åland Ahvenanmaa | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Ålänningens sång | |
Höfuðborg | Maríuhöfn |
Opinbert tungumál | sænska |
Stjórnarfar | Sjálfstjórnarhérað
|
Forsætisráðherra | Veronica Thörnroos |
Landstjóri | Peter Lindbäck |
Sjálfstjórnarhérað | innan Finnlands |
• Heimastjórn | 7. maí 1920 |
• Álandseyjasamningurinn | 20. október 1921 |
• Héraðsþing | 9. júní 1922 |
Evrópusambandsaðild | 1. janúar 1995 |
Flatarmál • Samtals |
1.580 km² |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
30.129 19,07/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2007 |
• Samtals | 1,563 millj. dala |
• Á mann | 55.829 dalir |
VÞL (2017) | 0.900 |
Gjaldmiðill | evra € |
Tímabelti | UTC+2 (UTC+3 á sumrin) |
Þjóðarlén | .ax |
Landsnúmer | +358 18 |
Álandseyjar eru eyjaklasi við mynni Helsingjabotns í Eystrasalti, við strönd Finnlands. Stærsta eyjan er Fasta Åland þar sem 90% íbúanna búa.[3] Auk hennar eru um 6.500 eyjar og sker austan við stærstu eyjuna.[4] Aðeins 60-80 eyjar eru byggðar. Roslagen í Svíþjóð liggur 38 km vestan við Fasta Åland, en í austri nær eyjaklasinn alveg að strönd Finnlands í Skerjagarðshafi. Vestan við Álandseyjar er óbyggða skerið Märket sem skiptist í tvennt milli Finnlands og Svíþjóðar. Ferjur ganga frá Maríuhöfn til Turku í Finnlandi og Stokkhólms í Svíþjóð.
Álandseyjar eru sjálfstjórnarsvæði og hafa því eigin stjórn sem fer með hluta þess valds sem finnska ríkisstjórnin fer með annars staðar. Eyjarnar eru herlaust og hlutlaust svæði eftir friðarsamninga í kjölfar Álandseyjastríðsins um miðja 19. öld.[5] Árið 2022 var haldið upp á 100 ára afmæli sjálfstjórnar á eyjunum.[6] Sumir Álendingar vilja kljúfa sig frá Finnlandi og gerast sjálfstætt land. Stjórnmálaflokkurinn Ålands Framtid eða Framtíð Álandseyja berst hart fyrir því, en fékk aðeins einn þingmann af 30 í kosningum árið 2019.
Heiti
breytaUppruni heitis eyjanna er frumnorræna orðið *Ahvaland dregið af orðinu yfir vatn eða á. Frumgermanska orðið ahwō er skylt latneska orðinu aqua sem merkir „vatn“. Í norrænu varð þetta Áland og síðan Åland í sænsku, þótt ár séu ekki áberandi í landslagi Álandseyja. Finnska og eistneska heitið yfir eyjarnar, Ahvenanmaa og Ahvenamaa, hafa verið tengd við aborra (ahvenet).[7] Til er tilgáta sem gengur út frá því að finnska heitið sé það upprunalega, og norræna heitið dregið af því.[8]
Hugsanlega vísaði Pliníus eldri til eyjanna þegar hann minntist árið 77 á eyjar þar sem íbúarnir lifðu af höfrum,[9] þar sem latneska orðið yfir hafra er avena.
Opinbert heiti eyjanna er Landskapet Åland sem merkir „landshlutinn“ eða „héraðið Áland“.
Saga
breytaForsaga
breytaFyrir um 18.000 árum gekk Weichsel-skeiðið yfir Skandinavíu þar sem þykkur ís lagðist yfir löndin. Þessi ís hopaði frá því fyrir um 9000 árum. Fyrir um 8000 árum risu hæstu hæðir eyjanna úr Eystrasalti. Yfirborð sjávar hækkaði og lækkaði næstu aldirnar, en landbrú myndaðist aldrei til Álandseyja, þannig að fyrstu mennirnir komu þangað með bátum. Land Álandseyja heldur áfram að rísa um nokkra millimetra á ári.
Elstu ummerki um mannabyggð á eyjunum eru frá nýsteinöld, um 4000 f.Kr. Gatamenningin og síðan Kambamenningin barst þangað á 3. árþúsundinu f.o.t. Helsta veiðidýr íbúa var vöðuselur. Kvikfjárrækt hófst á bronsöld og sex hæðavirki frá járnöld hafa fundist á eyjunum. Fjölmörg kuml frá víkingaöld hafa fundist á Fasta Åland sem gefa þétta búsetu til kynna. Arabísk mynt hefur fundist þar sem bendir til þátttöku íbúa í víkingaferðum í Austurveg.[10][11]
Miðaldir
breytaÁlendingar tóku kristni snemma á 11. öld og fyrstu timburkirkjurnar voru reistar á þeim tíma. Hugsanlega lagði Eiríkur helgi Svíakonungur eyjarnar undir Svíþjóð, en samkvæmt öðrum heimildum voru eyjarnar þegar orðnar hluti af Svíþjóð í valdatíð hans. Fyrstu steinkirkjurnar voru svo reistar á 14. og 15. öld. Álandseyjar urðu hluti af Ábæjarbiskupsdæmi, en Ragnvaldur 2. biskup frá 1309 til 1321 var álenskur. Eyjunum var skipt í þriðjunga með eigin dómþing og landsþing er nefnt í Saltvik frá 1322. Bygging Kastelholmshallar hófst á 9. áratug 14. aldar. Kastalinn er fyrst nefndur í heimildum frá 1388.[12] Í kastalanum bjó hallarfógeti sem heyrði formlega undir höfuðsmanninn í Ábæjarhöll. Lögmaður Austurlands (stærstur hluti Finnlands) hafði lögsögu á eyjunum, en frá 1435 lögmaður Norður-Finna.
Um miðja 15. öld var Fransiskanaklaustur stofnað á eyjunum. Átök innan Kalmarsambandsins í kringum yfirráð yfir Svíþjóð leiddu til þess að Danir lögðu Kastelholmshöll og eyjarnar undir sig 1507 með flota undir stjórn Søren Norby. Gústaf Vasa frelsaði svo eyjarnar undan hernámi Dana árið 1523, sem markar endalok miðalda og upphaf nýaldar í sögu eyjanna.
Nýöld
breytaÁ 16. og 17. öld voru Álandseyjar ýmist sjálfstætt lén eða hluti af stærra léni sem tilheyrði ýmist krúnunni eða lénsmönnum Svíakonungs. Haustið 1571 hélt Jóhann hertogi bróður sínum, Eiríki 14., og konu hans, Karin Månsdotter, föngnum í Kastelholmshöll. Árið 1634 var stjórnsýslu Finnlands breytt og Álandseyjar urðu hluti af Suðvestur-Finnlandi. Árið 1638 var póstleiðin frá Stokkhólmi til Åbo lögð um Álandseyjar í valdatíð Kristínar Svíadrottningar. Frá 1666 til 1670 voru níu konur dæmdar á bálið í nornaréttarhöldum á Álandseyjum.
Rússar lögðu Álandseyjar undir sig í norðurlandaófriðnum mikla 1713 til 1721 og notuðu eyjarnar sem bækistöð fyrir herfarir gegn Svíþjóð. Flestir íbúar flúðu til Svíþjóðar. Álandseyjaráðstefnan var árangurslaus friðarráðstefna á Álandseyjum 1718-1719. Orrustan í Föglöfjärd var minni háttar sjóorrusta sem fór fram við eyjarnar 1720. Eftir friðarsamninga í Nystad, þar sem Rússar fengu hluta Kirjálaeiðisins, sneru Álendingar aftur heim. Þegar Hattastríðið braust út 1741 lögðu Rússar eyjarnar aftur undir sig 1742 með þeim afleiðingum að íbúar þurftu aftur að flýja. Í mars árið eftir lagði sænski skerjagarðsflotinn eyjarnar aftur undir sig. Átökunum lauk með friðarsamningnum í Åbo í ágúst 1743.
Rússnesk yfirráð
breytaÞegar finnska stríðið braust út milli Svíþjóðar og Rússlands árið 1808 lagði rússneskur floti eyjarnar undir sig án mótspyrnu. Þann 19. mars 1808 gerðu bændur á eyjunum uppreisn gegn hernámsliðinu og Svíar sendu liðsauka. Þann 9. maí fór orrustan um Kumlinge fram þar sem Svíar unnu sigur. Um vorið gaf konungur skipun um að rýma austari eyjarnar og rífa þar byggingar sem gætu nýst hernámsliði Rússa. Georg Carl von Döbeln var settur yfir varnir eyjanna og sagt að verja þær hvað sem það kostaði. Þegar Karl 13. komst til valda með stjórnarbyltingu var von Döbeln kallaður aftur og Rússar hröktu sænska varnarliðið burt vorið 1809. Þegar stríðinu lauk árið eftir urðu eyjarnar hluti af Stórhertogadæminu Finnlandi innan Rússaveldis.
Árið 1836 hófu Rússar að reisa Bomarsundsvirki á Álandseyjum. Þegar Krímstríðið braust út kom bresk-franskur floti til Álandseyja 21. júní 1854 og hóf skothríð á virkið sem enn var óklárað. Rússneska setuliðið gafst upp í ágúst. Bretar buðu Svíum að taka við stjórn eyjanna, en Svíar höfnuðu því þar sem stríðið stóð enn yfir. Virkið var því eyðilagt með sprengiefni í september.
Í friðarsamningnum í París 1856 var kveðið á um að eyjarnar væru herlaust svæði. Virkið var því aldrei endurreist og árið 1861 var Maríuhöfn stofnuð af Alexander 2. Rússakeisara sem höfuðborg eyjanna. Þar var stofnaður stýrimannaskóli 1861 og útgerðarfélög komu sér þar fyrir. Maríuhöfn varð líka vinsæll baðstaður á seinni hluta 19. aldar. Ritstjórinn Julius Sundblom stofnaði fyrsta dagblað Álandseyja, Tidningen Åland. Hann leiddi síðar baráttu fyrir sameiningu við Svíþjóð.
Í fyrri heimsstyrjöld hófu Rússar að reisa hernaðarmannvirki á Álandseyjum árið 1916. Þegar Finnland lýsti yfir sjálfstæði í desember 1917 lýsti Sundblom því yfir að Finnland ætti að vera frjálst og Álandseyjar sænskar.[13] 95% myndugra Álendinga undirrituðu undirskriftalista sem afhentur var Gústaf 5. um að Svíar tækju við stjórn eyjanna. Á móti var Álandseyjanefndin stofnuð af nokkrum Álendingum í Helsinki og setti fram kröfu um aukið sjálfsforræði eyjanna innan Finnlands. Í finnsku borgarastyrjöldinni sendu Svíar her til að verja íbúa eyjanna, en skömmu síðar kom þýskur her til eyjanna. Sænska liðið hörfaði þá aftur til Svíþjóðar.
Álandseyjamálið og seinna stríð
breytaÁrið 1919 var annar undirskriftalisti sendur sem leiddi til spennu milli Finnlands og Svíþjóðar. Julius Sundblom og Carl Björkman, leiðtogar Álandseyjahreyfingarinnar, voru dæmdir í fangelsi fyrir landráð. Álandseyjamálið var tekið fyrir á fundi Þjóðabandalagsins í júní 1920. Árið eftir kvað bandalagið upp þann úrskurð að eyjarnar ættu að heyra undir Finnland, en fengju að halda tungumáli sínu, yrðu herlaust svæði og fengju aukna sjálfstjórn. Það tók þannig undir málstað Álandseyjanefndarinnar fremur en Álandseyjahreyfingarinnar. Í október 1921 var Álandseyjasamningurinn undirritaður af fulltrúum Finnlands og Svíþjóðar og átta annarra ríkja.
Á millistríðsárunum tóku flestar útgerðir vélknúin skip í notkun, þannig að seglskip urðu hagstæð kaup. Álenski útgerðarmaðurinn Gustaf Erikson keypti stór seglskip til að sinna kornflutningum milli Evrópu og Ástralíu. Á 3. áratugnum var útgerð hans sú stærsta á Norðurlöndunum, en kreppan mikla kom illa við útgerðirnar á eyjunum. Eftir andlát Eriksons 1951 var seglskipinu Pommern breytt í safnskip.[14][15][16]
Í vetrarstríðinu sendu Finnar setulið til að verja eyjarnar og komu fyrir tundurduflum umhverfis þær. Heimavarnarlið var stofnað með um 700 mönnum. Þegar stríðinu lauk árið 1940 fengu Sovétmenn leyfi til að stofna sendiráð á eyjunum til að tryggja að Finnar stæðu við brottflutninga herliðs þaðan. Þegar framhaldsstríðið braust út 1941 sneru finnskir hermenn aftur til eyjanna. Þegar stríðinu lauk voru þeir aftur kallaðir heim.[17][18]
Floti Álandseyja varð fyrir miklum skakkaföllum í stríðinu. 13 gufuskip og þrjú seglskip fórust og með þeim 88 sjómenn.[19][20][21]
Eftirstríðsárin
breytaEftir stríð voru ný lög um sjálfstjórn á Álandseyjum samþykkt 1951 með hliðsjón af friðarsamningunum 1947. Álandseyjar fengu eigið þing og eiginn fána 1952. Árið 1970 urðu Álandseyjar sjálfstæður aðili að Norðurlandaráði, með tvo fulltrúa af 87 í ráðinu. Fyrstu frímerki Álandseyja voru gefin út 1984.[22][23] Stjórnarbyggingin, Självstyrelsegården, var reist árið 1979.
Árið 1959 var nýtt ferjufyrirtæki stofnað í Maríuhöfn, Ab Vikinglinjen, en fljótlega tóku fleiri sænsk og finnsk fyrirtæki að reka ferjusiglingar til Álandseyja. Árið 1971 hóf álenska fyrirtækið Birka Cruises AB siglingar frá Maríuhöfn, en það hætti starfsemi vegna Kórónaveirufaraldursins 2020. Árið 1966 var opinbera fyrirtækið Ålands Penningautomatförening (Paf) stofnað með þátttöku ýmissa góðgerðasamtaka á Álandseyjum og með einkaleyfi á rekstri spilakassa um borð í álenskum ferjum.
Í tengslum við Evrópusambandsaðild Svíþjóðar og Finnlands 1995, voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild haldnar á Álandseyjum. Aðild var samþykkt með miklum meirihluta með fyrirvara um tilteknar undanþágur, sérstaklega varðandi réttinn til búsetu á eyjunum. Álandseyjar urðu því hluti af Evrópusambandinu 1995 og 2002 tók evran við af finnska markinu sem gjaldmiðill á eyjunum.
Landfræði
breytaÁlandseyjar liggja á hernaðarlega mikilvægum stað þar sem þær liggja nálægt innsiglingunni að Stokkhólmi og við mynni bæði Helsingjabotns og Kirjálabotns.
Nær 300 byggilegar eyjar tilheyra eyjaklasanum, en aðeins 60-80 þeirra eru í byggð. Afgangurinn eru um 6200 sker og eyjur með berum klöppum.[4] Eyjaklasinn tengist eyjaklasanum Åboland sem liggur austan megin við hann, meðfram suðvesturströnd Finnlands. Saman mynda þeir Skerjagarðshaf. Vestan við Álandseyjar er Álandshaf og í norðri er Helsingjabotn.
Eyjarnar eru að mestu grýttar og jarðvegur er lítill eftir að jökulísinn fór þar yfir við lok síðustu ísaldar.[4] Á eyjunum eru mörg engi þar sem býr mikill fjöldi ólíkra tegunda skordýra, eins og fiðrildið Melitaea cinxia.
Álandseyjar ná yfir 1527 km2 landsvæði.[25] Níutíu prósent íbúa búa á eyjunni Fasta Åland sem er langstærst. Erfitt er að áætla stærð hennar vegna þess hvað hún er óregluleg í laginu, en hún er talin vera frá 740 km2[4] að 879 km2[26] að yfir 1010 km2, eftir því hvað talið er með. Á eyjunni eru nokkrar hafnir.
Í Álandseyjadeilunni notuðu deiluaðilar kortagerð til að undirbyggja kröfur sínar. Á sænska kortinu var stærsta byggða eyjan mest áberandi, en mörgum skerjum var sleppt. Á finnska kortinu var stærð ýmissa smáeyja og skerja ýkt. Á sænska kortinu virtust eyjarnar nær Svíþjóð en Finnlandi, meðan finnska kortið lagði áherslu á samfellu eyjaklasans við meginlandið á Finnlandi, en stærra bil var frá eyjaklasanum til Svíþjóðar hinum megin. Ein útkoman úr þessu er að gjarnan er talað um „6000 sker“ í kjölfarið á lausn deilunnar.
Á Álandseyjum lifa margar dýrategundir sem ekki eru upprunnar á eyjunum. Elgur og ýmsar tegundir dádýra voru flutt þangað á 20. öld.
Stjórnmál
breytaStjórn Álandseyja er í samræmi við lög um sjálfstjórn Álandseyja og alþjóðlega samninga. Þessir samningar tryggja sjálfstjórn eyjanna innan Finnlands, sem fer með fullveldi þar, auk þess að tryggja að þær séu herlaust svæði. Stjórn Álandseyja er í höndum landshlutastjórnar sem ber ábyrgð gagnvart lögþingi Álandseyja. Landstjóri er fulltrúi finnsku ríkisstjórnarinnar. Að auki eiga Álandseyjar einn fastan fulltrúa á finnska þinginu.
Álandseyjar eru með eigin fána og hafa gefið út eigin frímerki frá 1984.[27] Eyjarnar eru með eigin lögreglulið og eru með aukaaðild að Norðurlandaráði.[28] Álandseyjar eru herlaust svæði og íbúar eru undanþegnir herskyldu. Þótt sjálfstæði Álandseyja sé eldra en núverandi héruð Finnlands, fer stjórn Álandseyja með sömu verkefni og finnsku héraðsráðin fara með. Póstþjónusta Álandseyja sér um póstþjónustu á eyjunum og er aðili að Samstarfsráði lítilla evrópskra póstþjónusta. Radíóamatörar líta á Álandseyjar sem sérstakan aðila og þær hafa sitt eigið kallmerki sem gefið er út af Finnlandi: OH0
, OF0
og OG0
(síðasti stafurinn er núll).[29]
Álandseyjar eiga einn fulltrúa á finnska þinginu. Stjórnmálaflokkar á Álandseyjum eru ólíkir flokkum á meginlandinu.
Heimaskólar, sem voru í reynd bannaðir í Svíþjóð árið 2011, eru leyfðir samkvæmt finnskum lögum. Vegna nálægðar Álandseyja og þar sem þær eru sænskumælandi, hafa nokkrar fjölskyldur sem kjósa heimaskóla flutt frá Svíþjóð til Álandseyja. Meðal þeirra var Jonas Himmelstrand, forseti sænsku heimaskólasamtakanna.[30]
Eftir endurbætur kosningalaga ætluðu Álandseyjar að heimila netkosningu fyrir fjarstadda kjósendur í þingkosningum 2019 og hugðist heimila öllum kjósendum að nýta sér netkosningu fyrir næstu kosningar 2023.[31] Hætt var við þetta á síðustu stundu vegna efasemda um öryggi kerfisins.[32]
Einn flokkur aðskilnaðarsinna, Framtíð Álandseyja, býður fram með þá stefnu að Álandseyjar verði sjálfstætt ríki.[33][34]
Sveitarfélög
breytaEfnahagslíf
breytaSiglingar, verslun og ferðaþjónusta eru helstu atvinnugreinar á eyjunum. Siglingar standa undir um 40% af efnahagslífinu. Nokkur alþjóðleg skipafélög eru með höfuðstöðvar á Álandseyjum. Fyrir utan þessi félög eru flest fyrirtæki á eyjunum lítil með innan við 10 starfsmenn. Fiskveiðar og landbúnaður eru mikilvægar atvinnugreinar sem tengjast matvælavinnslu á eyjunum. Nokkur áberandi tæknifyrirtæki eru staðsett þar. Vindorkuver hafa vaxið síðustu ár og stefna á að snúa innflutningi á heildarorku í útflutning á næstu árum. Árið 2022 fékkst 41% af allri orkunotkun Álandseyja úr vindorku.[35]
Helstu hafnir á eyjunum eru vesturhöfnin í Maríuhöfn, Berghamn og Långnäs á aðaleyjunni. Aðeins fjórir þjóðvegir eru á Fasta Åland: Þjóðvegur 1 frá Maríuhöfn til Eckerö, Þjóðvegur 2 frá Maríhöfn til Sund, Þjóðvegur 3 frá Maríuhöfn til Lumparland, og Þjóðvegur 4 frá Finström til Geta.
Maríuhöfn var heimahöfn síðustu stóru úthafskaupskipanna sem notuðust við segl. Síðustu verkefni þeirra voru að flytja hveiti frá Ástralíu til Bretlands sem álandseyski útgerðarmaðurinn Gustaf Erikson hélt áfram til 1947 (kornkapphlaupið). Skipin fóru aðeins eina ferð til og frá Suður-Ástralíu og til Bretlands á ári, en voru svo tekin í slipp á Álandseyjum þess á milli. Eitt af þessum skipum, Pommern, er núna safnskip í Maríhöfn.
Finnland fékk undanþágu fyrir Álandseyjar undan afnámi fríhafnarverslunar á ferjum sem ferðast milli áfangastaða innan Evrópusambandsins innan Virðisaukasvæðis Evrópusambandsins. Samkvæmt undanþágunni er takmörkuð virðisaukaskattfrjáls verslun heimiluð á ferjum sem ganga milli Svíþjóðar og Finnlands, ef þær stoppa í Maríhöfn eða Långnäs, og á Maríuhafnarflugvelli. Undanþágan gerði Álandseyjar að sérstöku skattsvæði, sem þýðir að innheimta þarf toll á vörum sem fluttar eru til eyjanna. Tvær milljónir ferðamanna heimsækja Álandseyjar árlega, en flestir þeirra stoppa bara í tvo tíma þar til ferjan snýr aftur eða farþegar fara úr einu skipi í annað.[36]
Atvinnuleysi á Álandseyjum var 4,6% árið 2024.[37] Atvinnuhlutfall var 79,8% 2011 og 84,2% árið 2021.[38]
Finnska ríkið innheimtir skatta og gjöld á Álandseyjum. Þingi Álandseyja er í staðinn úthlutað ákveðinni upphæð árlega sem nemur 0,5% af heildartekjum stjórnarinnar, fyrir utan lán. Áður var það þannig að ef upphæðin sem greidd var til finnska ríkisins fór yfir 0,5%, gekk umframupphæðin til þings Álandseyja,[39] en þetta fyrirkomulag var lagt niður eftir 2020.[40] Árið 2010 var heildarupphæð skatta sem íbúar Álandseyja greiddu 0,7% af heildarskatttekjum Finnlands.[41]
Eini löglegi gjaldmiðillinn á eyjunum er evra (eins og annars staðar í Finnlandi) þótt flest fyrirtæki á Álandseyjum taki líka við sænskum krónum.[42] Samkvæmt Eurostat árið 2006 voru Álandseyjar 20. auðugasta hérað Evrópusambandsins (af 268) og það auðugasta á Finnlandi. Verg landsframleiðsla á mann var 47% yfir meðaltali Evrópusambandsins.[43][44]
Álandsbanki er með höfuðstöðvar á eyjunni og stjórn Álandseyja á veðmálafyrirtækið Paf sem er með höfuðstöðvar í Maríuhöfn.
Kórónaveirufaraldurinn olli skarpari niðursveiflu í efnahagslífi Álandseyja en í Svíþjóð eða Finnlandi. Síðan þá hefur hagkerfi eyjanna verið að rétta sig af.[45]
Íbúar
breytaFlestir íbúar Álandseyja tala sænsku (eina opinbera málið) sem móðurmál. Árið 2021 kváðust 86% íbúa hafa sænsku að móðurmáli meðan innan við 5% töluðu finnsku.[46] Kennslumál í opinberum skólum er sænska, en annars staðar í Finnlandi eru bæði málin notuð í sveitarfélögum þar sem margir eiga sænsku að móðurmáli. Álenska er staðbundin mállýska á Álandseyjum.
Uppruni Álendinga og álensku er umdeildur og oft viðkvæmt umræðuefni. Álendingar eru ýmist taldir með Svíum eða Finnlands-Svíum, en mállýskan er talin líkari upplensku í Svíþjóð en finnlandssænsku og flestir Álendingar gera greinarmun á sjálfum sér og Finnlands-Svíum.
Samkvæmt lögum um ríkisborgararétt á Álandseyjum er byggðaréttur (sænska: hembygdsrätt) forsenda fyrir kosningarétti og kjörgengi á þingi Álandseyja, eða eignarhald á landi á óskipulögðum svæðum á Álandseyjum.[47]
17,3% Álendinga eru upprunnin utanlands, sem er með því mesta sem gerist í Finnlandi. Flestir eru frá Svíþjóð, en 7% Álendinga eru fædd í Svíþjóð. Á eyjunum eru líka samfélög Rúmena og Letta.[48]
Menning
breytaMeðal þess sem einkennir samfélagið á Álandseyjum eru maístengur sem reistar eru með viðhöfn í hverju þorpi. Stengurnar eru skreyttar með greinum og borðum í fánalitum Álandseyja. Þessa siðar er fyrst getið í heimildum frá 1795.[49] Litlar vindmyllur frá 18. og 19. öld eru víða sjáanlegar. Um 100 slíkar myllur hafa varðveist, en upprunalega var vindmylla á hverjum bæ.[50]
Menningarlíf á Álandseyjum er drifið áfram af félagasamtökum sem njóta styrkja frá ríkisreknu fjárhættuspilafyrirtæki Álandseyja (Paf) sem einnig rekur spilakassa um borð í ferjum á Eystrasalti. Annar stór stuðningsaðili menningarstarfsemi á Álandseyjum er Norræna stofnunin á Álandseyjum sem er styrkt af norrænu ráðherranefndinni. Ålands Museum er byggðasafn eyjanna og rekur meðal annars húsasafnið Jan Karlsgården. Fullreiðaskipið Pommern er safnskip á Álandseyjum. Ålands musikinstitut er tónlistarskóli, en margir kórar og hljómsveitir starfa á eyjunum. Talið er að sænska vögguvísan „Vem kan segla förutan vind?“ sé upprunnin á Álandseyjum.
Listmálarinn Karl Emanuel Jansson var frá bænum Finström á Álandseyjum. Þekktustu rithöfundar Álandseyja eru Anni Blomqvist, Sally Salminen og Ulla-Lena Lundberg, sem allar hafa gefið út skáldsögur sem lýsa lífi á eyjunum. Kvikmynd var gerð eftir sögu Salminen, Katrina, árið 1943 og sjónvarpsþættir eftir bókum Blomqvist um „Stormskers-Mæju“ á 8. áratug 20. aldar. Finnska kvikmyndin Brúður djöfulsins frá 2016 byggist á nornaréttarhöldunum í Kastelholm á Álandseyjum á 17. öld.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hvaða landi tilheyra Álandseyjar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Hvað getur þú sagt mér um Álandseyjar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „The Aland Islands“. Osterholm.info. 9. maí 2012. Afritað af uppruna á 9. maí 2012. Sótt 26. október 2017.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 Scheffel, Richard L.; Wernet, Susan J., ritstjórar (1980). Natural Wonders of the World. United States of America: Reader's Digest Association, Inc. bls. 3. ISBN 0-89577-087-3.
- ↑ „Uneasy Sweden and the Menace of Prussianism; An Analysis of the Scandinavian Situation in View of Kaiser's Reported Ambition to Make the Baltic a German Lake“ (PDF). Query.nytimes.com. Sótt 26. október 2017.
- ↑ Forsgård, Helena (29. júní 2021). „100 years of autonomy: Åland celebrates“. Nordic Labour Journal. Afrit af uppruna á 19. maí 2011. Sótt 30. júní 2021.
- ↑ Virrankoski, Pentti (2001). Suomen historia. Ensimmäinen osa. SKS. ISBN 951-746-321-9. p. 59.
- ↑ Lars Hulden (2001) Finlandssvenska bebyggelsenamn; Svenska litteratursällskapet i Finland. ISBN 951-583-071-0.
- ↑ Pliny the Elder The Natural History; Book IV, Chapter 27.
- ↑ „Järnåldern på Åland“. Museiverket. Sótt 5. september 2015.
- ↑ „Stenåldern på Åland“. Museiverket. Sótt 5. september 2015.
- ↑ Richards, Sir James Maude (1978). 800 years of Finnish architecture. David & Charles. bls. 15. ISBN 0715375121.
- ↑ „Politikrn Julius“ (sænska). http://www.julius.ax. Sótt 18. október 2023.
- ↑ „The King of Canvas“ (PDF). Sjöhistoriska. Sótt 16. september 2015.
- ↑ „ERIKSON, Gustaf“. Biografiskt lexikon för Finland. Sótt 16. september 2015.
- ↑ „Ålands sjöfartsmuseum - en kort historik“. Ålands sjöfartsmuseum. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2016. Sótt 17. september 2015.
- ↑ „Ålands demilitarisering och neutralisering“ (PDF). Ålands landskapsregering. Sótt 17. september 2015.
- ↑ „Åland“. Uppslagsverket Finland. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2015. Sótt 17. september 2015.
- ↑ Rolf Fellman. „Särtryck ur tidskriften Sjöhistorisk årsskrift förÅland“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 28. september 2015. Sótt 19. september 2015.
- ↑ „Historiens Åland“. Ålands museum. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júlí 2015. Sótt 17. september 2015.
- ↑ „En stad byggd kring sjöfart“. Visit Åland. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. september 2015. Sótt 17. september 2015.
- ↑ „Åland i Nordiska rådet“. Sótt 20. september 2015.
- ↑ „Postverksamhetens utveckling på Åland“. Posten Åland. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. október 2015. Sótt 20. september 2015.
- ↑ Guide, Copyright-The World Beach. „Degersand Beach / Finland“. World Beach Guide.
- ↑ „Statistical Yearbook of Finland 2016“ (PDF). Stat.fi. bls. 505. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. febrúar 2017. Sótt 7. febrúar 2017.
- ↑ Europe, Council of (1. janúar 2012). Biodiversity and Climate Change: Reports and Guidance Developed Under the Bern Convention (enska). Council of Europe. bls. 251. ISBN 9789287170590.
- ↑ „Product catalogue“. Aland Stamps. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 febrúar 2017. Sótt 10. febrúar 2017.
- ↑ „The 2007 Session of the Nordic Council“. European Tribune. 2007. Sótt 10. febrúar 2017.
- ↑ „International Prefixes“. Radio Society of Great Britain. Sótt 10. febrúar 2017.
- ↑ „Allt fler hemundervisare flyttar till Åland“. Ålandstidningen. Afrit af upprunalegu geymt þann 23 febrúar 2017. Sótt 12. ágúst 2015.
- ↑ Krimmer, R., Duenas-Cid, D., Krivonosova, I., Serrano, R. A., Freire, M., & Wrede, C. (2019, September 27). Nordic Pioneers: facing the first use of Internet Voting in the Åland Islands (Parliamentary Elections 2019).
- ↑ Duenas-Cid, David; Krivonosova, Iuliia; Serrano, Radu; Freire, Marlon; Krimmer, Robert (7. maí 2020). „Tripped at the Finishing Line: The Åland Islands Internet Voting Project“. Í Krimmer, Robert; Volkamer, Melanie; Beckert, Bernhard; Küsters, Ralf; Kulyk, Oksana; Duenas-Cid, David; Solvak, Mihkel (ritstjórar). Electronic Voting. Lecture Notes in Computer Science. 12455. árgangur. Springer International Publishing. bls. 36–49. doi:10.1007/978-3-030-60347-2_3. ISBN 978-3-030-60346-5. S2CID 221911723 – gegnum Springer Link.
- ↑ „Viva Åland! Independence Dream Not Dead, But More Autonomy Comes First“. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. janúar 2021. Sótt 16. apríl 2023.
- ↑ „Wednesday's papers: Åland's separatists take heart, housing market warning and pig farm vaccinations“. Yle Uutiset. 4. október 2017.
- ↑ „Environment and energy“. ÅSUB. Sótt 12.8.2023.
- ↑ Åland: many travellers, far fewer overnighters Geymt 15 ágúst 2021 í Wayback Machine, Nordic Labour Journal, 27 June 2019
- ↑ „Unemployed jobseekers by month, year, unemployment measurement and municipality“. Åsub.
- ↑ „Saved query for employment statistics 2011–2021“. stat.fi.[óvirkur tengill]
- ↑ „Lagtingets uppgifter“. Lagtinget.ax. 22. október 2015. Afrit af uppruna á 2. október 2015. Sótt 26. október 2017.
- ↑ „Statens roll i den åländska samhällsekonomin“. Sótt 19.4.2024.
- ↑ „Om landskapet Åland tillkommande skattegottgörelse för 2010“ (PDF). 13. mars 2013. Afritað af uppruna á 13. mars 2013. Sótt 26. október 2017.
- ↑ Symington, Andy; Bain, Carolyn; Bonetto, Cristian; Ham, Anthony & Kaminski, Anna (2013), Scandinavia, Lonely Planet
- ↑ „Europe's Regions“ (PDF). 20. ágúst 2012. Afritað af uppruna á 20. ágúst 2012. Sótt 26. október 2017.
- ↑ „Ahvenanmaa on EU:n 20. vaurain alue“. Helsingin Sanomat. 19. febrúar 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. nóvember 2011. Sótt 19. júlí 2009.
- ↑ „Ekonomisk översikt hösten 2020 | Ålands statistik- och utredningsbyrå“ (sænska). Asub.ax. 9. október 2020. Afrit af uppruna á 22. maí 2022. Sótt 30. júní 2022.
- ↑ „Befolkning 31.12.2000-2022 efter år, ålder, språk och kön“. Åsub. Sótt 19.4.2023.
- ↑ „Act on the Autonomy of Åland“ (PDF). Finlex. 1991. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 16 febrúar 2021. Sótt 25. janúar 2017.
- ↑ „Väestö 31.12. Muuttujina Maakunta, Taustamaa, Sukupuoli, Ikä, Syntyperä, Vuosi ja Tiedot“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2022. Sótt 28. apríl 2023.
- ↑ Kjell Ekström: Åland - skärgård i Östersjön. Mariehamn 2006, bls. 90.
- ↑ Kurt-Viking Abrahamsson: Åländska kulturlandskap. Ålands Kulturstiftelse, 2011, ISBN 978-952-9848 -21- 8, bls. 92.