Safnskip
Safnskip er skip eða bátur sem er varðveitt sem safngripur, ýmist sem hluti af stærra safni eða eitt og sér. Sum safnskip eru varðveitt á landi, ýmist innandyra eða utandyra, eða liggja föst við bryggju eða í votkví. Önnur eru varðveitt í því ástandi að hægt er að sigla þeim og eru þá sérstaklega skráð sem safnskip í skipaskrá. Slík safnskip eru stundum notuð sem skólaskip. Um safnskip á sjó gilda stundum sérstakar reglur um haffæri, farsvið og öryggi farþega.
Til eru hundruð safnskipa um allan heim. Þau eru bæði í eigu opinberra stofnana og félagasamtaka en flest eru hluti af sjóminjasöfnum. Dæmi um safnskip er varðskipið Óðinn sem liggur við bryggju við sjóminjasafnið Víkina og er opinn gestum.
Árið 2003 tóku samtökin European Maritime Heritage upp Barselónasáttmálann um varðveislu og viðgerðir á sögulegum skipum til notkunar á sjó. Sáttmálinn byggist á Feneyjasáttmálanum og kveður á um nauðsyn rannsókna á sögu skips fyrir viðgerðir, notkun eins upprunalegra efna og hægt er og nákvæma skráningu viðgerða.
Venja er að aðgreina safnskip frá skipaendurgerðum og skipslíkönum, þótt slík skip séu líka oft notuð sem safngripir.
Tenglar
breyta- Historic Naval Fleet Association - Bandarísk samtök um safnaskip
- European Maritime Heritage Geymt 6 desember 2009 í Wayback Machine - Evrópsk samtök um rekstur safnskipa.