[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Fyrnur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Archaea
Rafeindasmásjármynd af fyrnu af Halobacterium-ættkvísl. Hver fruma er um 5 μm að lengd.
Rafeindasmásjármynd af fyrnu af Halobacterium-ættkvísl. Hver fruma er um 5 μm að lengd.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Archaea
Woese, Kandler & Wheelis, 1990
Fylkingar

Crenarchaeota
Euryarchaeota
Korarchaeota
Nanoarchaeota
Thaumarchaeota

Tré sem sýnir innbyrðis þróunarsöguleg tengsl gerla, forngerla og heilkjörnunga skv. Carl Woese 1977.

Fyrnur (líka arkeur, áður betur þekktar sem fornbakteríur eða forngerlar, fræðiheiti: Archaea) eru einn af meginflokkum lífvera og yfirleitt hafður sem sérstakt ríki eða lén í þriggja léna kerfinu (hin lénin eru gerlar og heilkjörnungar). Fyrnur eru einfruma örverur án frumukjarna og eru því dreifkjörnungar. Í hinu hefðbundna sex ríkja flokkunarkerfi voru þær flokkaðar með gerlum, en það tíðkast ekki lengur.[1] Upphaflega var þeim lýst í jaðarvistkerfum, eins og á háhitasvæðum,[2][3] en með nýjum mælitækjum hafa þær fundist á fjölda búsvæða, þar á meðal í örverumengi mannsins.

Fyrnufrumur hafa sérstaka eiginleika sem greinir þær frá gerlum og heilkjörnungum. Þær skiptast í nokkrar fylkingar, en flokkun þeirra er erfið því flestar þeirra hafa ekki verið einangraðar í tilraunastofum heldur hafa fundist með því að greina erfðaröðun þeirra í sýnum.

Fyrnur og gerlar eru almennt séð lík í útliti og að stærð, þótt nokkrar fyrnur séu gerólíkar, eins og flatar og ferkantaðar frumur Haloquadratum walsbyi.[4] Þrátt fyrir þessi líkindi hafa fyrnur bæði gen og efnaskiptaferla sem líkjast meira heilkjörnungum. Þetta á sérstaklega við um hvata sem koma við sögu í umritun og þýðingu. Aðrir lífefnafræðilegir eiginleikar fyrna eru einstakir, eins og eterlípíð og arkeól sem mynda frumuhimnu þeirra.[5] Fyrnur notast við fleiri orkuuppsprettur en heilkjörnungar, þar á meðal lífræn efni eins og sykrur, ammóníak og málmjónir, og jafnvel vetnisgas. Seltukærar fyrnur (Haloarchaea) nota sólarljós sem orkuuppsprettu og sumar aðrar binda kolefni en engin tegund gerir bæði, ólíkt plöntum og blágerlum. Fyrnur fjölga sér kynlaust, ýmist með skiptingu, hlutun eða knappskotum, en ólíkt gerlum mynda engar þekktar fyrnur dvalargró. Fyrstu fyrnurnar sem uppgötvuðust voru jaðarlífverur, en með bættri tækni til sameindagreiningar hafa fyrnur fundist í nær öllum búsvæðum jarðar, þar á meðal í jarðvegi, hafinu og í mýrlendi. Í hafinu er sérstaklega mikið um fyrnur og fyrnur í svifi gætu hugsanlega verið stærsti hópur lífvera á jörðinni.

Fyrnur eru mikilvægur hluti af lífheimi jarðarinnar. Þær eru hluti af örverumengi annarra lífvera, og sem hluti af örverumengi mannsins finnast þær í þörmum, munni og á húð.[6] Vegna breytileika þeirra leika þær fjölbreytt hlutverk í vistkerfum, í kolefnishringrásum, köfnunarefnishringrásum, endurvinnslu lífrænna efna, og viðhaldi samlífiskerfa örvera.[7]

Engin augljós dæmi hafa fundist um sjúkdómsvaldandi fyrnur, en þær koma fyrir í samlífis- og gistilífissamböndum, eins og metanmyndandi fyrnur í meltingarvegi dýra, þar sem þær taka þátt í meltingunni. Metanmyndarar eru gagnlegir í lífgasframleiðslu og úrvinnslu skólps. Líftækni notast við hvata úr jaðarkærum fyrnum sem þola háan hita og lífræn leysiefni.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Pace NR (Maí 2006). „Time for a change“. Nature. 441 (7091): 289. Bibcode:2006Natur.441..289P. doi:10.1038/441289a. PMID 16710401. S2CID 4431143.
  2. „Hvað getið þið sagt mér um fornbakteríur?“. Vísindavefurinn.
  3. „Hvað eru hveraörverur?“. Vísindavefurinn.
  4. Stoeckenius W (október 1981). „Walsby's square bacterium: fine structure of an orthogonal procaryote“. Journal of Bacteriology. 148 (1): 352–60. doi:10.1128/JB.148.1.352-360.1981. PMC 216199. PMID 7287626.
  5. „Archaea Basic Biology“. Mars 2018.
  6. Bang C, Schmitz RA (september 2015). „Archaea associated with human surfaces: not to be underestimated“. FEMS Microbiology Reviews. 39 (5): 631–48. doi:10.1093/femsre/fuv010. PMID 25907112.
  7. Moissl-Eichinger C, Pausan M, Taffner J, Berg G, Bang C, Schmitz RA (Janúar 2018). „Archaea Are Interactive Components of Complex Microbiomes“. Trends in Microbiology. 26 (1): 70–85. doi:10.1016/j.tim.2017.07.004. PMID 28826642.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.