[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Njálgur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lífsferill njálgs

Njálgur (fræðiheiti: Enterobius vermicularis) er lítill ormur sem er algengasta sníkjudýr í meltingarvegi manna. Hann er algengastur hjá börnum og er mjög smitandi.

Egg ormsins berast frá endaþarmi út í umhverfið. Þau geta lifað upp undir þrjár vikur við stofuhita. Algengt er að þau berist í munn með fingrum (þau hafa límkennt yfirborð) en það er líka hægt að anda þeim að sér með einhverju ryki og kyngja þeim síðan. Þegar þau eru komin í þarmana líður ekki á löngu þar til þau klekjast út. Þegar karlnjálgur (um 3-4 mm að lengd) hefur frjóvgað kvennjálg (um 10 mm að lengd) fer kvennjálgurinn að endaþarmsopi hýsils síns og kemur eggjunum þar fyrir, til þess að þau berist út. Að því loknu drepst kvennjálgurinn.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Njálgur er algengastur sníkjudýra í löndum með temprað loftslag. Hann er sjaldgæfur í bleyjubörnum, en u.þ.b. 7% fimm ára barna eru talin vera sýkt af njálgi að jafnaði, og u.þ.b. 15% barna á aldrinum sex til átta ára. Þekkt eru dæmi þar sem svo mikið sem 40% barna í sama bekknum hafa verið sýkt af njálgi. Hann er mun sjaldgæfari hjá fullorðnum.

Sumir verða ekki varir við nein einkenni, en margir verða varir við mikinn kláða umhverfis endaþarmsop. Klóri hýsillinn sér í endaþarmsopi geta eggin hæglega fest sig við fingur hans og þannig borist aftur upp í munn. Kláðanum fylgir oftar en ekki roði og eymsl. Það er vel þekkt að eggin klekist út við endaþarmsopið, ormarnir skríði aftur inn í endaþarminn og viðhaldi þannig ástandinu. Einnig er þekkt að þeir komist upp í leggöng kvenna og valdi þar óþægindum.

Ormarnir sjást með berum augum, bæði við endaþarmsop og í saur. Eggin eru ógreinanleg með berum augum, en sjást vel í smásjá. Njálgur er sjaldnast hættulegur, en þykir bæði óþægilegur og ógeðfelldur.

Sá sem fær njálg þarf að gæta þess vel að bera ekki smit í aðra eða aftur í sjálfan sig. Hann þarf því að standast þá freistingu að klóra sér og má ekki vera berrassaður. Mikið hreinlæti er mikilvægast, bæði viðvíkjandi líkamanum og umhverfi manns. Þar eru gæludýr meðtalin, þau fá ekki njálg en geta borið egg í feldinum.

Njálgur er yfirleitt drepinn með þar til gerðum lyfjum. Á Íslandi eru skráð tvö lyf sem drepa njálg, Vanquin og Vermox. Vermox er lyfseðilsskylt, en Vanquin ekki. Bæði geta valdið aukaverkunum, en þær eru vægar. Vermox ætti ekki að gefa börnum yngri en tveggja ára eða þunguðum konum. Ráðlegast þykir að allir fjölskyldumeðlimir fari samtímis á kúr með þessum lyfjum, til að smit lifi örugglega ekki í neinum þeirra.

  • Doktor.is
  • Lyfja
  • „Hvaða ormar lifa í meltingarvegi fólks á Íslandi?“. Vísindavefurinn.