[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Luigi Einaudi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Luigi Einaudi

Luigi Einaudi (24. mars 187430. október 1961) var ítalskur hagfræðingur, stjórnmálamaður og ráðherra fyrir frjálslynda flokkinn á Ítalíu, og annar forseti Ítalíu frá 1948 til 1955.

Hann lauk prófi í lögfræði, en kenndi síðan hagvísindi við Tórínóháskóla, iðnaðarlöggjöf og hagfræði við Tækniháskólann í Tórínó og fjármálavísindi við Bocconi-háskóla í Mílanó. Auk þessa hlaut hann ýmsar heiðursstöður og var virkur meðlimur í alþjóðlegum samtökum. Hann var til dæmis meðal stofnenda Mont Pèlerin Society árið 1947.

Hann hóf skrif sín um hagfræði með greinum í dagblaðið Corriere della sera þegar árið 1909. 1912 setur hann fram nýstárlega hugmynd um skattheimtu sem byggi á þrepaskiptri skattlagningu heildartekna fjölskyldu af atvinnutekjum, leigutekjum o.s.frv. Þessi hugmynd liggur nú til grundvallar skattheimtu á Ítalíu. Hann var síðan gríðarlega virkur í blaðaskrifum, ritstýrði tveimur tímaritum um stjórnmál og hagfræði, skrifaði reglulega greinar um efnahagsmál í The Economist og var í ritstjórn dagblaðanna La Stampa og Corriere della sera til 1926.

1919 var hann tilnefndur í öldungadeild ítalska þingsins. Hann dró sig að miklu leyti út úr stjórnmálum eftir valtatöku fasista, en hélt fræðistarfi sínu áfram. 1943 flúði hann til Sviss og sneri aftur eftir að frelsun Ítalíu var lokið 1945.

Hann var stjórnarformaður seðlabanka Ítalíu frá 5. janúar 1945 til 11. maí 1948 og stýrði meðal annars nauðsynlegri gjaldfellingu lírunnar gagnvart bandaríkjadal um 68%. Þá átti hann þátt ásamt sagnfræðingnum og heimspekingnum Benedetto Croce í endurstofnun frjálslynda flokksins á Ítalíu. Hann tók líka þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár og átti þar meðal annars (og síðar sem forseti) þátt í að endurreisa mikið af því stjórnkerfi sem hann hafði barist gegn með skrifum sínum.

Hann var talsmaður frjálshyggju í efnahagsmálum og frjálslyndisstefnu í stjórnmálum, þótt hann gerði sér grein fyrir að þetta tvennt færi ekki alltaf saman. Hann sá enda fyrir sér frjálst hagkerfi, ekki sem hagkerfi þar sem engar reglur eða lög giltu, heldur sem regluverk eða kerfi. Hann viðurkenndi líka að hugsjónir stæðust ekki fyrir raunverulegum vandamálum („Di fronte ai problemi concreti, l'economista non può essere mai né liberista né interventista, né socialista ad ogni costo.“) Frægustu pistla hans um frjálshyggju og frjálslyndi er að finna í ritdeilu sem hann átti við Benedetto Croce á fjórða áratugnum á síðum tímaritsins La Riforma Sociale. Einaudi var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra menntamanna, sem Friedrich A. von Hayek hafði forgöngu um.

Sonur hans, Giulio Einaudi (f. 1912), var frægur útgefandi og stofnandi samnefndrar bókaútgáfu árið 1933, sem síðar varð hluti af Mondadori-samstæðunni árið 1994.


Fyrirrennari:
Enrico De Nicola
Forseti Ítalíu
(1948 – 1955)
Eftirmaður:
Giovanni Gronchi