[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Gvæjana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samvinnulýðveldið Gvæjana
Co-operative Republic of Guyana
Fáni Gvæjana Skjaldarmerki Gvæjana
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
One People, One Nation, One Destiny
Þjóðsöngur:
Dear Land of Guyana, of Rivers and Plains
Staðsetning Gvæjana
Höfuðborg Georgetown
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Irfaan Ali
Forsætisráðherra Mark Phillips
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 26. maí 1966 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
81. sæti
214.970 km²
8,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar
156. sæti
783.769
3,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 6,668 millj. dala (163. sæti)
 • Á mann 8.524 dalir (117. sæti)
VÞL (2017) 0.654 (125. sæti)
Gjaldmiðill gvæjanskur dalur
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .gy
Landsnúmer +592

Gvæjana (opinbert heiti: Samvinnulýðveldið Gvæjana) er land á norðurströnd Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela í vestri, Súrínam í austri, Brasilíu í suðri, og strandlengju við Atlantshafið í norðri. Gvæjana er oft fremur talið til Vestur-Indía en Suður-Ameríku vegna náinna tengsla við önnur enskumælandi Karíbahafslönd. Gvæjana er um 215.000 ferkílómetrar að stærð og er því þriðja minnsta fullvalda ríkið á meginlandinu, á eftir Úrúgvæ og Súrínam.

Landið er vesturhluti Gvæjanahálendisins, norðan við Amasónfljót og austan við Orinoco-fljót. Gvæjana merkir „land hinna mörgu vatna“. Helstu vatnsföll í Gvæjana eru árnar Essequibo-fljót, Berbice-fljót og Demerara-fljót. 80% af landsvæði Gvæjana eru vaxin frumskógi. Landið var byggt frumbyggjum þegar Hollendingar lögðu svæðið fyrst undir sig á 16. öld. Bretar tóku yfir árið 1796 þótt Hollendingar næðu landinu aftur eitt ár 1802-1803. Bretar ráku þar plantekrubúskap fram á miðja 20. öld. Landið fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1966 og varð formlega lýðveldi innan Breska samveldisins árið 1970.

Landið er eina Suður-Ameríkuríkið þar sem enska er opinbert tungumál. Lítill minnihluti talar frumbyggjamál en kreólaútgáfa af ensku er útbreidd. Bandalag 15 Karíbahafsríkja, CARICOM, er með höfuðstöðvar í Georgetown í Gvæjana. Árið 2008 tók landið þátt í stofnun Bandalags Suður-Ameríkuríkja.

Nafnið er dregið af heiti svæðisins, Guiana, sem nær yfir löndin Gvæjana (áður Bresku Gvæjana), Súrínam (áður Hollensku Gvæjana) og Frönsku Gvæjana, auk hluta af Kólumbíu, Venesúela og Brasilíu. Samkvæmt Oxford English Dictionary kemur orðið úr máli frumbyggja og merkir „land hinna mörgu vatnsfalla“.

Hugtakið „samvinnulýðveldi“ var tekið upp þegar landið gerðist lýðveldi árið 1970. Það vísar til þess að þáverandi stjórnarleiðtogi, Forbes Burnham, vildi stjórna í sósíalískum anda og tók upp stjórnmálatengsl við Kúbu og Sovétríkin.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Gvæjana skiptist í 10 héruð sem hvert hefur sitt héraðsráð og héraðsforseta. Héruðin skiptast svo í 27 hverfisráð.[1]

Nr. Hérað Stærð km2 Íbúar
(2012)
Íbúar
á km2
1 Barima-Waini 20.339 26.941 1,32
2 Pomeroon-Supenaam 6.195 46.810 7,56
3 Essequibo-eyjar-Vestur-Demerara 3.755 107.416 28,61
4 Demerara-Mahaica 2.232 313.429 140,43
5 Mahaica-Berbice 4.190 49.723 11,87
6 Austur-Berbice-Corentyne 36.234 109.431 3,02
7 Cuyuni-Mazaruni 47.213 20.280 0,43
8 Potaro-Siparuni 20.051 10.190 0,51
9 Efri Takutu-Efri Essequibo 57.750 24.212 0,42
10 Efri Demerara-Berbice 17.040 39.452 2,32
Alls 214.999 747.884 3,48

Héruðin skiptast í 27 hverfisráð.[2]

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Efnahagur Gvæjana byggist aðallega á landbúnaði, einkum ræktun á hrísgrjónum og sykri (demerarasykri), og námavinnslu, aðallega báxít- og gullnámum. Auk þess er þar mikil timburframleiðsla og rækjuveiðar stundaðar. Sykurframleiðslan, sem stendur undir 28% af útflutningstekjum, er að mestu í höndum eins fyrirtækis, GuySuCo, og skapar meiri atvinnu en nokkur önnur atvinnugrein. Mörg iðnfyrirtæki í Gvæjana eru að stórum hluta í eigu erlendra stórfyrirtækja eins og Reynolds Metals og Rio Tinto. Kóresk-malasíska fyrirtækið Barama Company á stóran hlut í timburframleiðslunni. Frá árinu 2015 hafa erlend fyrirtæki uppgötvað margar olíulindir undan strönd landsins.

Skortur á sérhæfðu vinnuafli, lélegir innviðir og, þar til nýlega, miklar erlendar skuldir, hafa staðið efnahag landsins fyrir þrifum. Lágt verð og sveiflur á mörkuðum fyrir helstu framleiðsluvörur landsins, eins og sykur og báxít, ógna stöðu ríkissjóðs og skapa slæmar framtíðarhorfur. Aukning í námavinnslu og landbúnaðarframleiðslu, bætt viðskiptaumhverfi, tiltölulega lág verðbólga og stuðningur alþjóðastofnana hafa skapað hagvöxt frá 1999. Árið 2008 var hagvöxtur um 3% í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu. Árið 2011 var hann 5,4% og árið 2012 3.7%.

Áður fyrr var framleiðsla á náttúrulegu latexi úr safa massarandubaviðar aðalatvinnuvegurinn í Gvæjana. Mest af safanum var tappað af trjám við rætur Kanukufjalla í Rupununi. Tré í Norðvesturumdæmi voru líka nýtt en vegna ólöglegra aðferða sem fólu í sér að höggva trén í stað þess að tappa safa úr skurðum í trjáberkinum eyddust skógarnir. Safinn var notaður í krikketbolta, tímabundnar tannfyllingar og gerð skrautmuna, sérstaklega af Makusjum í Kanukufjöllum.

Skattkerfi landsins var endurbætt árið 2007 og virðisaukaskattur tók við af sex mismunandi gerðum söluskatts. Áður hafði verið tiltölulega einfalt að koma sér undan söluskatti. Með nýja skattinum er talið að auðveldara verði að koma í veg fyrir auðgunarbrot.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Krikket er vinsælasta íþróttagreinin í Gvæjana, en á alþjóðavettvangi keppa íbúar landsins undir merkjum Vestur-Indía í greininni. Heimsmeistarakeppnin í krikket var haldin í Vestur-Indíum árið 2007 og fóru nokkrir kappleikir fram í Georgetown. Er það vafalítið stærsti íþróttaviðburður í sögu landsins.

Íþróttamenn frá Gvæjana hafa tekið þátt í Ólympíuleikum óslitið frá því í Lundúnum 1948. Einn íþróttamaður frá landinu hefur komist á verðlaunapall. Hnefaleikakappinn Michael Anthony fékk bronsverðlaun á leikunum í Moskvu 1980.

Af öðrum vinsælum hópíþróttum mætti nefna körfubolta, knattspyrnu og blak. Þrátt fyrir að vera á meginlandi Suður-Ameríku er Gvæjana aðili að CONCACAF, knattspyrnusambandi ríkja Norður- og Mið-Ameríku. Landsliðið hefur viðurnefnið gylltu jagúararnir og verður seint talið meðal öflugri liða frá þessum heimshluta. Árið 2019 komst Gvæjana þó í fyrsta sinn í sextán liða úrslitakeppni Norður- og Mið-Ameríkukeppninnar, þar sem liðið tapaði tveimur leikjum en gerði eitt jafntefli.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Government of Guyana, Statistics“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2009. Sótt 2. maí 2010.
  2. „Government of Guyana, Statistics“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2009. Sótt 2. maí 2010.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.