[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Hundur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hundur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Hundaætt (Canidae)
Ættkvísl: Hundaættkvísl (Canis)
Tegund:
Undirtegundir:

C. l. familiaris

Þrínefni
Canis lupus familiaris

Hundur (fræðiheiti: canis lupus familiaris) er spendýr í ættbálki rándýra af hundaætt og ættkvísl hunda. Hugtakið er notað jafnt um vilt og tamin afbrigði en venjulega ekki um úlfa sem þó teljast undirtegund sömu dýrategundar.

Hundar eru til í fjölda afbrigða og getur verið mikill útlits- og jafnvel skapgerðarmunur frá einu afbrigði til annars. Þeir eru haldnir jafnt sem gæludýr og vinnudýr.

Hundar eru afkomendur úlfa sem voru tamdir fyrir um 15.000-100.000 árum síðan. Rannsóknir benda til þess að hundar hafi fyrst verið tamdir í Austur-Asíu, hugsanlega í Kína, fyrir um 100.000 árum síðan og að fyrstu mennirnir sem fóru til Norður-Ameríku hafi haft með sér hunda frá Asíu. Hundar eru því sennilega fyrsta dýrategundin sem mönnum tókst að temja. Rannsóknir benda einnig til þess að síðan hundar voru fyrst tamdir hafi þeir verið tamdir aftur á mismunandi tímum á ólíkum stöðum í heiminum. Þá hafi hundar breiðst út um jörðina með manninum. Þegar menn fóru að stunda akuryrkju og landbúnað fjölgaði hundum mjög auk þess sem eftirspurn varð til eftir hundum með sérhæfðari hæfileika. Þar með hófst ræktun hunda í þeim tilgangi að ná fram þeim eiginleikum sem sóst var eftir.

Genarannsóknir benda til þess að hundar séu komnir af einu eða fleiri afbrigðum villtra úlfa. Hundar og úlfar eiga sameiginlegan forföður og geta eignast saman frjó afkvæmi. Enn fremur er vitað til þess að hundar og úlfar hafi eignast afkvæmi saman án afskipta manna, einkum þar sem villtir úlfar eru á undanhaldi.

Rannsóknir hafa enn ekki getað skorið úr um hvort allir hundar eru komnir af sama hópi úlfa eða hvort ólíkir hópar úlfa hafi verið tamdir á ólíkum stöðum í heiminum og á ólíkum tímum.

Elstu leifar hunda sem fundist hafa eru tvær höfuðkúpur frá Rússlandi og kjálkabein frá Þýskalandi frá því um 13.000-17.000 árum síðan. Líklegur forfaðir þeirra er stórvaxið afbrigði úlfa sem einkum viðhefst á norðlægum slóðum. Talið er að rekja megi leifar smærri hunda sem fundist hafa í hellum frá miðsteinöld í miðausturlöndum og eru taldar vera um 12.000 ára gamlar til smávaxnari úlfa í Suðvestur-Asíu, Canis lupus Arabs. Myndskreytingar í hellum og bein sem fundist hafa benda til þess að fyrir um 14.000 árum hafi hundar verið haldnir allt frá Norður-Afríku, þvert yfir Evrasíu og til Norður-Ameríku. Hundagrafreitur frá miðsteinöld í Svaerdborg í Danmörku gefur til kynna að í Evrópu hafi hundar verið mikils metnir.

Niðurstöður genarannsókna hafa hingað til verið misvísandi. Vilà, Savolainen o.fl. (1997) komust að þeirri niðurstöðu að forfeður hunda hafi aðgreinst frá úlfum fyrir um 75.000 – 135.000 árum síðan. Aftur á móti leiddi rannsókn Savolainen o.fl. (2002) til þeirrar niðurstöðu að „hundar ættu sér allir sameiginlegan uppruna í einu og sama genamenginu“ fyrir um 40.000-15.000 árum síðan í Austur-Asíu.

Þróun afbrigða

[breyta | breyta frumkóða]
Ræktun hunda hefur leitt til mikillar fjölbreytni í stærð, útliti og eðlisfari þeirra.

Afbrigði hunda eru fjölmörg og yfir 800 eru viðurkennd af hundaræktarfélögum víða um heim. Fjölmargir hundar tilheyra engu viðurkenndu ræktunarafbrigði. Smám saman hafa orðið til nokkrir flokkar afbrigða.

Skilgreiningin á hundaafbrigði er nokkuð á reiki. Sum hundaræktarfélög skilgreina afbrigði þannig að til þess að tilheyra afbrigðinu þarf hundurinn að vera afkomandi hunda sem eru 75% af því afbrigði. Skilgreiningar sem þessar skipta máli jafnt fyrir hunda sem haldnir eru sem gæludýr og sýningahunda í hundasýningum. Lítil genamengi geta verið til vandræða í ræktun nýrra afbrigða en hundaræktendur eru æ meðvitaðri um nauðsyn þess að rækta afbrigði hunda upp úr nægilega stóru genamengi en heilsupróf og DNA-rannsóknir geta komið að notum til þess að komast megi hjá óæskilegum afleiðingum ræktunar. Jafnvel hreinræktaðir verðlaunahundar geta átt við heilsufarsvandamál að stríða sem rekja má til innræktunar. Útlit og hegðun hunda af tilteknu afbrigði er að einhverju leyti fyrirsjáanleg en eiginleikar blendinga geta verið ófyrirsjáanlegri.

Þessi hvolpur er blendingur.

Blendingar eru hundar sem tilheyra ekki einhverju tilteknu afbrigði hunda. En blendingar eru engu síður en hreinræktaðir hundar ákjósanlegir sem gæludýr eða félagar eða vinnuhundar.

Vinsældir ólíkra hundaafbrigða

[breyta | breyta frumkóða]
Bolabítur er þekktur fyrir stutt trýni mikla húð á andliti.

Vinsældir einstakra hundafbrigða eru breytilegar eftir löndum og tímabilum. Labrador sækir hefur til að mynda notið mikilla vinsælda Í Norður-Ameríku og Evrópu. Vinsældir eru einnig breytilegar eftir hlutverki hundsins. Þannig eru rottweiler og dobermann-hundar, bullmastiff og þýskir fjárhundar til dæmis vinsæl og algeng afbrigði varðhunda en aftur á móti eru þýskir fjárhundar eru á hinn bóginn mun algengari blindrahundar en rottweiler, dobermann og bullmastiff-hundar. Labrador sækir og gullinsækir eru einnig vinsælir blindrahundar, þótt upphaflega hafi þeir verið ræktaðir sem veiðihundar, sérhæfðir til þess að sækja bráð.

Líkamsgerð

[breyta | breyta frumkóða]

Afbrigði hunda eru fjölbreyttari að stærð, ásýnd og í hegðun en öll önnur tamin dýr. Hundar eru rándýr og hræætur, með beittar tennur og sterka kjálkavöðva sem gerir þeim kleift að halda, rífa og brytja fæðu sína. Enda þótt ræktun hunda hafi breytt mörgum eiginleikum þeirra hafa allir hundar fengið sömu grundvallareinkennin í arf frá forfeðrum sínum, úlfunum. Líkt og mörg önnur rándýr eru hundar vöðvastæltir og hafa hjarta- og æðakerfi sem gerir þeim kleift að bæði ná miklum hraða á spretti og gefur þeim mikið þol.

Munur á hundum og úlfum

[breyta | breyta frumkóða]

Tamdir hundar (efri mynd) hafa hlutfallslega smærri höfuðkúpu en viltir úlfar (neðri mynd). Loppur þeirra eru sömuleiðis minni.

Höfuðkúpur hunda eru að jafnaði um 20% minni og heilar þeirra um 10% minni en í úlfum af sömu stærð. Tennur hunda eru einnig hlutfallslega minni en í úlfum. Hundar þurfa færri hitaeiningar en viltir ættingjar þeirra. Matarleifar sem þeir hafa fengið frá mönnum allt frá því að þeir voru fyrst tamdir hafa gert að verkum að hundar hafa haft minni þörf fyrir stóra heila og sterka kjálkavöðva. Sumir fræðimenn telja að lafandi eyru sumra hundaafbrigða séu afleiðingar af minnkandi kjálkavöðvum í tömdum hundum. Ólíkt úlfum en líkt og sléttuúlfar hafa hundar svitakirtla á þófum sínum. Loppur þeirra eru minni en loppur úlfa og skott þeirra hafa tilhneigingu til þess að hringast ólíkt skottum úlfa.

Hundar eiga venjulega erfiðara með að læra en villtir úlfar og þurfa meiri leiðbeiningu. Meðal hunda má greina svipaða félagsgerð og hjá úlfum en ekki eins mótaða. Ólíkt úlfum og flestum öðrum hunddýrum selja hundar ekki upp fæðu fyrir ungviðið.

Stærð hunda er gríðarlega fjölbreytileg eftir afbrigðum. Chihuahua-hundar eru minnsta afbrigðið en þeir verða yfirleitt ekki nema um 15-23 cm á herðakamb og vega um 1-6 kg. Pomeranian-hundar eru annað smávaxið afbrigði en þeir verða um 18-30 cm á herðakamb og um 1-3 kg að þyngd. Aftur á móti verður stóri dani yfir 90 cm á herðakamb og getur vegið allt að 80 kg. St. Bernharðshundur getur orðið allt að 85-90 cm á herðakamb en öllu þyngri en stóri dani eða allt að 135 kg.

Líkt og flest önnur spendýr hafa hundar tvílitasjón þar sem grunnlitir í sjón þeirra eru tveir. Þetta jafngildir nokkurn veginn litblindu í mönnum sem sjá ekki mun á rauðum og grænum lit. Hundar sem hafa löng trýni hafa víðara sjónsvið en hundar með styttri trýni, en sjón þeirra er líkari sjón manna. Sum afbrigði hunda hafa allt að 270° sjónsvið (sjónsvið manna er 180°). Sjón þeirra er um helmingi næmari en sjón katta. Hundar sjá betur í myrkri en menn.

Hundar greina hljóðbylgjur allt niður í 16-20 Hz sem er öllu lægri tíðni en hjá mönnum (eða 20-70 Hz). Hundar geta einnig greint hljóðbylgjur yfir 45 kHz sem er töluvert hærri tíðni en menn geta heyrt (13-20 kHz). Enn fremur eru eyru hunda hreyfanleg sem gerir þeim kleift að greina hvaðan hljóð berast. Átján vöðvar geta snúið og lyft eyra hundsins. Aukinheldur geta hundar greint hljóð í fjórum sinnum meiri fjarlægð en menn. Hundar með sperrt eyru heyra yfirleitt betur en hundar með lafandi eyru.

Blóðhundar eru þekktir fyrir næmt lyktarskyn sitt.

Hundar hafa um 220 milljónir lyktnæmar frumur á yfirborðssvæði á stærð við vasaklút (menn hafa 5 milljónir lyktnæmra fruma á svæði á stærð við frímerki). Sum afbrigði hunda hafa verið ræktuð sérstaklega í þeim tilgangi að ná fram auknu lyktarskyni.

Þjálfarar leitarhunda halda því fram að ómögulegt sé að kenna hundi að rekja slóð betur en hann gerir af eðlishvöt sinni. Í staðinn er reynt að veta hundinum uppbyggilega hvatningu og fá hann til að einbeita sér að einni lykt og hundsa aðrar sem annars kynnu að vekja áhuga hans.

Leitarhundar hafa verið nýttir til þess að leita að týndu fólki, jafnt í snjóflóðum, rústum og annars staðar, sem og að tilteknum hlutum á borð við fíkniefni og sprengiefni.

Hægt er að þjálfa hunda til að leysa ýmis verkefni.

Hundar eru mikils metnir vegna greindar sinnar. Greind þeirra kemur fram með ólíkum hætti eftir afbrigðum og einstaklingur. Border Collie Eru til dæmis þekktir fyrir að geta lært fjölda ólíkra skipana en önnur afbrigði hunda eru ekki nauðsynlega jafn góðir í að fylgja skipunum. Greind hunda er stundum þrískipt og metin eftir (a) aðlögunarhæfni, það er hæfileikanum til þess að læra að leysa þrautir, (b) eðlislæga greind, og (c) vinnugreind eða hlýðni. Samkvæmt einni rannsókn[1] eru eftirtalin afbrigði hunda greindust:

  1. Border collie
  2. Púðluhundar
  3. Þýskir fjárhundar
  4. Gullinsækir
  5. Dobermann
  6. Shetland fjárhundur
  7. Labrador sækir
  8. Papillon
  9. Rottweiler
  10. Ástralskur fjárhundur

Hundar eru færir um að læra að leysa af hendi ýmis verkefni sem menn setja fyrir þá. Þjónusta þeirra er nýtt í björgunarstarfi, löggæslu, við veiðar og þannig mætti lengi telja.

Æxlun og ævilengd

[breyta | breyta frumkóða]
Tík með hvolpa sína.

Hundar verða yfirleitt kynþroska um 6-12 mánaða gamlir, þótt hundar af sumum stórgerðari afbrigðum verði stundum ekki kynþroska fyrr en um tveggja ára aldur. Tíkur hafa yfirleitt tíðir frá 6-12 mánaða aldri. „Unglingsárin“ eru um 12-15 mánaða aldurinn en eftir það er hundurinn fullorðinn. Ræktun hunda hefur gert þá frjórri en villta ættingja sína. Þeir fjölga sér oftar og fyrr en villtir úlfar. Hundar halda áfram að fjölga sér fram á háan aldur.

Meðgöngutími hunda er yfirleitt um 56-72 dagar. Að jafnaði fæðast sex hvolpar í hverju goti en fjöldi hvolpa getur verið breytilegur eftir afbrigði hundsins. Smærri hundar eiga oft ekki nema einn til fjóra hvolpa í hverju goti en stærri afbrigði allt að tólf hvolpa í goti.

Hundar verða misgamlir eftir afbrigðum en smávaxnari afbrigði hunda hafa tilhneigingu til þess að ná hærri aldri en þau sem eru stórvaxnari. Pomeranian-hundar geta til að mynda náð allt að 15 ára aldri og chihuahua-hundar geta jafnvel orðið eldri. St. Bernharðshundur verður aftur á móti um 9-12 ára og stóri dani sjaldnast eldri en 10 ára og oft ekki nema 8-9 ára. Flestir hundar geta náð um 11-13 ára aldri.

Frægir hundar

[breyta | breyta frumkóða]

Frægasti hundur sem nefndur er í Íslendingasögunum er hundur Gunnars á Hlíðarenda, Sámur. Sumir hafa haldið því fram að hann hafi verið írskur úlfhundur.[2] Annar frægur hundur er Blondi, hundur Adolfs Hitler, sem var einræðisherra í Þýskalandi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Már Halldórsson. „Hefur gáfnafar hunda verið mælt? Ef já, hvaða hundategund kom best út?“. Vísindavefurinn 18.6.2002. http://visindavefur.is/?id=2501. (Skoðað 18.1.2008).
  2. Lesbók Morgunblaðsins 1960

Heimildir og frekara lesefni

[breyta | breyta frumkóða]
  • Abrantes, Roger. Dogs Home Alone (Wakan Tanka, 1999). ISBN 0-9660484-2-3
  • Alderton, David. The Dog (Chartwell Books, 1984). ISBN 0-89009-786-0
  • Brewer, Douglas J. Dogs in Antiquity: Anubis to Cerberus: The Origins of the Domestic Dog (Aris & Phillips, 2002). ISBN 0-85668-704-9
  • Coppinger, Raymond and Lorna Coppinger. Dogs: A New Understanding of Canine Origin, Behavior and Evolution (University of Chicago Press, 2002). ISBN 0-226-11563-1
  • Cunliffe, Juliette. The Encyclopedia of Dog Breeds (Parragon Publishing, 2004). ISBN 0-7525-8276-3
  • Derr, Mark. Dog's Best Friend: Annals of the Dog-Human Relationship (University of Chicago Press, 2004). ISBN 0-226-14280-9
  • Grenier, Roger. The Difficulty of Being a Dog (University of Chicago Press, 2000). ISBN 0-226-30828-6
  • Milani, Myrna M. The Body Language and Emotion of Dogs: A practical guide to the Physical and Behavioral Displays Owners and Dogs Exchange and How to Use Them to Create a Lasting Bond (William Morrow, 1986). ISBN 0-688-12841-6.
  • Pfaffenberger, Clare. New Knowledge of Dog Behavior (Wiley, 1974). ISBN 0-87605-704-0
  • Savolainen, P. o.fl., „Genetic Evidence for an East Asian Origin of Domestic Dogs“. Science 298 (2002): 1610–1613

Almennir tenglar

[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar á Vísindavefnum

[breyta | breyta frumkóða]
Efni tengt hundum af Vísindavefnum, smellið á sýna hér til hægri til að sjá lista.