Woodrow Wilson
Thomas Woodrow Wilson (28. desember 1856 – 3. febrúar 1924) var 28. forseti Bandaríkjanna frá 4. mars 1913 til 4. mars 1921. Áður var hann skólastjóri Princeton-háskólans og fylkisstjóri New Jersey. Í forsetatíð hans var bandaríski seðlabankinn stofnaður. 1917 kom hann á herskyldu þegar Bandaríkjamenn hófu þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir styrjöldina átti hann mikinn þátt í stofnun Þjóðabandalagsins og skilyrðum Versalasamningsins en samningurinn var ekki samþykktur af öldungadeildinni né heldur gengu Bandaríkjamenn í Þjóðabandalagið. Wilson er almennt talinn með betri forsetum Bandaríkjanna frá upphafi[1] en kynþáttahyggja hans hefur óumdeilanlega skyggt á ímynd hans í seinni tíð.[2]
Woodrow Wilson | |
---|---|
Forseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 4. mars 1913 – 4. mars 1921 | |
Varaforseti | Thomas R. Marshall |
Forveri | William Howard Taft |
Eftirmaður | Warren G. Harding |
Fylkisstjóri New Jersey | |
Í embætti 17. janúar 1911 – 1. mars 1913 | |
Forveri | John Franklin Fort |
Eftirmaður | James Fairman Fielder |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 28. desember 1856 Staunton, Virginíu, Bandaríkjunum |
Látinn | 3. febrúar 1924 (67 ára) Washington, D. C., Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Ellen Axson (g. 1885; d. 1914) Edith Bolling (g. 1915) |
Háskóli | Davidson-háskóli Princeton-háskóli Johns Hopkins-háskóli |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaWilson fæddist í Staunton í Virginíu inn í fjölskyldu þrælaeigenda. Hann varði fyrstu árum sínum í Augusta í Georgíu. Faðir hans var einn af stofnendum Öldungakirkjunnar í Bandaríkjunum. Eftir að Wilson útskrifaðist úr Johns Hopkins-háskóla með doktorsgráðu í stjórnmálafræði gerðist hann kennari í ýmsum skólum. Hann kenndi lögfræði og hagfræði við Princeton-háskóla frá árinu 1890 og fyrirlestrar hans nutu talsverðra vinsælda. Wilson var síðan einróma kjörinn nýr rektor háskólans árið 1902.[3] Wilson taldi að bandarískir háskólar þyrftu að vera „af sama anda og alþýða manna“ og kom því sem rektor á ýmsum umbótum á kennsluháttum og félagslífi Princeton-skóla, sérstaklega að enskri fyrirmynd.[3]
Árið 1910 fengu leiðtogar Demókrata hann til að gerast fylkisstjóri í New Jersey. Hann gegndi því embætti frá 1911 til 1912 og óhlýðnaðist valdsmönnum flokksins með því að koma í gegn ýmsum framfarasinnuðum umbótum. Hann vann sér inn orðstír um allt landið sem framfarasinnaður umbótamaður og varð jafnframt vinsæll í suðurríkjum Bandaríkjanna vegna uppruna síns þar. Árið 1912 var Wilson kosinn frambjóðandi Demókrataflokksins í undankjöri fyrir forsetakosningarnar árið 1912. Theodore Roosevelt, fyrrverandi forseti Repúblikana, bauð sig sjálfstætt fram í kosningunum á móti sitjandi forseta úr röðum Repúblikana, William Howard Taft.[4] Atkvæðahópur Repúblikana var því klofinn og Wilson bar sigur úr býtum.
Forsetatíð (1913-1921)
breytaÞegar Wilson tók við embætti kallaði hann saman efri deild bandaríska þingsins og kynnti með þeim til sögunnar nýjan tekjuskatt árið 1913. Skatturinn átti að draga úr ríkisútgjöldum á móti lækkun á verndartollum. Wilson stofnaði jafnframt seðlabanka Bandaríkjanna. Stefnumál Wilsons gengu undir nafninu „nýja frelsið“[4] (New Freedom) og komu á ýmsum nýjum ríkisreknum eftirlitsstofnunum sem áttu að fylgjast með efnahaginum. Wilson útnefndi fjölmarga stjórnmálamenn frá suðurríkjunum í ríkisstjórn sína og þeir kröfðust þess að aðskilnaði kynþátta yrði komið á í fjármálaráðuneytinu og ýmsum öðrum ríkisstofnunum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 hélt Wilson Bandaríkjunum hlutlausum í byrjun. Wilson vann naumt endurkjör árið 1916 með slagorðinu „Hann hélt okkur utan við stríð!“ („He kept us out of war!“). Ríkisstjórn Wilson greip inn í mexíkósku byltinguna með hervaldi en fór ekki í stríð vegna hennar.
Árið 1917 hóf Þýskaland óheftan kafbátahernað gegn bandarískum kaupskipum. Í Zimmermann-símskeytinu stungu Þjóðverjar jafnframt upp á því að Mexíkanar ættu að lýsa yfir stríði gegn Bandaríkjunum ef Bandaríkjamenn gengju inn í styrjöldina við hlið bandamanna.[5] Í apríl bað Wilson þingið að lýsa yfir stríði til þess að „gera heiminn öruggan fyrir lýðræði“. Bandaríkin sendu mat, birgðir, lán og hermenn til Frakklands; um 10.000 hermenn á dag þegar komið var fram á árið 1918. Wilson einbeitti sér að fjármálum og milliríkjasamskiptum og lét hershöfðingjann John J. Pershing um hernaðarmálin. Heima fyrir hækkaði Wilson tekjuskatta og aflaði milljörðum dollara með því að selja almenningnum „Frelsisskuldabréf“ (Liberty Bonds). Hann kom einnig á herskyldu. Hann hvatti til samstarfs við stéttarfélög verkamanna, setti eftirlitsreglur á landbúnað og matarframleiðslu og tók við stjórnvöl járnbrautakerfis landsins.
Snemma árs 1918 gaf Wilson út „fjórtán punktana“ sem lýstu gildum hans um það hvernig ætti að koma á friði eftir lok stríðsins. Eftir að samið var um vopnahlé í nóvember 1918 ferðaðist Wilson til Parísar og kom að gerð Versalasaminganna ásamt David Lloyd George forsætisráðherra Bretlands og Georges Clemenceau forsætisráðherra Frakklands. Wilson ferðaðist síðan um Bandaríkin til að vinna sér stuðning fyrir staðfestingu á Versalasamningnum og inngöngu Bandaríkjanna í Þjóðabandalagið en hann fék heilablóðfall í október árið 1919. Á síðasta ári sínu í embætti einangraði Wilson sig í hvíta húsinu og naut lítilla áhrifa vegna veikinda sinna. Eiginkona Wilsons, Edith, fór í reynd með völd forsetaembættisins á meðan Wilson var rúmliggjandi og varð nokkurs konar „leyniforseti“ í nafni eiginmanns síns.[6]
Bandaríska þingið hafnaði að endingu Versalasamningnum og Bandaríkin gengu aldrei í Þjóðabandalagið. Wilson settist í helgan stein árið 1921 og lést árið 1924.
Tilvísanir
breyta- ↑ Arthur M. Schlesinger, Jr., "Ranking the Presidents: From Washington to Clinton". Political Science Quarterly (1997). 112#2: 179–90.
- ↑ „Princeton-háskóli snýr baki við Woodrow Wilsonm“. Varðberg. 29/06/2020. Sótt 23. ágúst 2023.
- ↑ 3,0 3,1 Haraldur Jóhannsson (1. mars 1986). „Leiðin til Hvíta hússins“. Samvinnan. bls. 52-59.
- ↑ 4,0 4,1 F. J. Bergmann (1. janúar 1914). „Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti og stjórnmálahugsjónir hans“. Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar. bls. 20-46.
- ↑ „Woodrow Wilson“. Iðunn. 1. apríl 1918. bls. 286-300.
- ↑ „Síðustu dagar Wilsons forseta Bandaríkjanna“. Morgunblaðið. 27. september 1964. bls. 15.
Fyrirrennari: William Howard Taft |
|
Eftirmaður: Warren G. Harding |