[go: up one dir, main page]

Molotov-Ribbentrop-sáttmálinn

Griðasáttmáli milli Sovétríkjanna og Þýskalands 1939

Molotov-Ribbentrop-sáttmálinn, einnig kallaður sáttmáli Sovétmanna og nasista[1] eða griðasáttmáli Þjóðverja og Sovétmanna[2][3][4][5][6] var griðasáttmáli milli Þýskalands nasismans og Sovétríkjanna sem undirritaður var í Moskvu þann 23. ágúst 1939 af utanríkisráðherrum ríkjanna, Joachim von Ribbentrop og Vjatsjeslav Molotov.[7] Næsta ár undirrituðu ríkin einnig verslunarsamning.

Stalín og Ribbentrop takast í hendur eftir undirritun sáttmálans þann 23. ágúst 1939.

Í sáttmálanum var samið um áhrifasvæði veldanna tveggja og grunnur lagður að sameiginlegri innrás þeirra í Pólland. Samningurinn var í gildi í nærri tvö ár, þar til Þýskalandsstjórn Adolfs Hitler batt enda á hann með því að ráðast inn á yfirráðasvæði Sovétríkjanna í Austur-Póllandi þann 22. júní 1941.[2]

Sáttmálinn mælti fyrir um að hvorugt ríkið skyldi lýsa stríði á hendur hinu né ganga í bandalag við óvini hins. Auk kaflanna um frið milli ríkjanna var leynilegur viðauki í sáttmálanum þar sem Póllandi, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Finnlandi og Rúmeníu var skipt í þýsk og sovésk „áhrifasvæði“ í aðdraganda „landfræðilegrar og stjórnmálalegrar endurskipulagningar“ þessara landa. Þjóðverjar réðust inn í Pólland þann 1. september 1939. Jósef Stalín leiðtogi Sovétríkjanna fyrirskipaði eigin innrás í Pólland þann 17. september, einum degi eftir að hafa samið um vopnahlé við Japani í Khalkhin Gol. Í nóvember innlimuðu Sovétríkin hluta af Karelíu og Salla frá Finnlandi í Vetrarstríðinu og síðan hluta af Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Rúmeníu. Sovétmenn notuðu áhyggjur af hvítrússneskum og úkraínskum minnihlutahópum sem tylliástæðu fyrir innrásunum. Innrás Stalíns í Búkóvíu í Rúmeníu fór gegn ákvæðum sáttmálans þar sem svæðið var fyrir utan áhrifasvæði Sovétmanna eins og það var tilgreint í sáttmálanum.[8]

Pólsku löndin sem Sovétmenn innlimuðu urðu áfram hluti af Sovétríkjunum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Nýju landamærin voru dregin eftir Curzon-línunni. Aðeins svæðið í kring um Białystok og hluti af Galisíu var afhent Pólverjum handan við þá línu. Af landsvæðunum sem Sovétmenn hertóku eru svæði í Finnlandi (Karelía, Petsamo), Eistlandi (Ingría og Petseri) og Lettlandi (Abrene) enn hluti af Rússlandi.

Yfirvöld Sovétríkjanna neituðu tilvist leyniviðauka sáttmálans þar til árið 1989, en þá viðurkenndu Sovétmenn að hann hefði verið til og gagnrýndu hann.[9] Stuttu síðar komu rússneskir þjóðernissinnar sáttmálanum til varnar og færðu rök fyrir því að sáttmálinn hefði verið nauðsynlegur til að tryggja öryggi Sovétríkjanna þar sem Bretar og Frakkar hefðu ekki verið viljugir til að mynda andfasískt bandalag.[9][10] Vladimír Pútín hefur einnig komið sáttmálanum til varnar.[11][12]

Tilvísanir

breyta
  1. Charles Peters (2005), Five Days in Philadelphia: The Amazing "We Want Willkie!" Convention of 1940 and How It Freed FDR to Save the Western World, New York: PublicAffairs, Ch. 12, "The Deal and the Muster", bls. 164.
  2. 2,0 2,1 Britannica (2015). „A secret supplementary protocol of September 28, 1939“. German-Soviet Nonaggression Pact. Encyclopædia Britannica. Sótt 14. nóvember 2015.
  3. History.com (2016), German-Soviet Nonaggression Pact. World War II series.
  4. Dr. habil.hist. Feldmanis, Inesis. „The Occupation of Latvia: Aspects of History and International Law“. Ministry of Foreign Affaris of the Republic of Latvia - The Occupation of Latvia: Aspects of History and International Law. Ministry of Foreign Affaris of the Republic of Latvia. Afrit af upprunalegu geymt þann 4 nóvember 2017. Sótt 30. júlí 2017.
  5. Henderson, Gerard. „War pact between the nazis and Stalin left out of history“. War pact between the nazis and Stalin left out of history. The Australian. Sótt 30. júlí 2017.
  6. „The Origins Of World War II, 1929–39“. Encyclopaedia Britannica. Encyclopaedia Britannica. Sótt 30. júlí 2017.
  7. Zabecki, David (2014). Germany at war : 400 years of military history. Santa Barbara, California: ABC-CLIO, LLC. bls. 536.
  8. Brackman, Roman The Secret File of Joseph Stalin: A Hidden Life (2001) p. 341
  9. 9,0 9,1 „Russian historians defend the Molotov-Ribbentrop Pact“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. desember 2015. Sótt 2. nóvember 2017.
  10. Nick Holdsworth in Moscow (18. október 2008). „Stalin 'planned to send a million troops to stop Hitler if Britain and France agreed“.
  11. Parfitt, Tom (6. nóvember 2014). „Vladimir Putin says there was nothing wrong with Soviet Union's pact with Adolf Hitler's Nazi Germany“. Daily Telegraph. Sótt 20. maí 2015.
  12. Timothy Snyder, NYreview of books,putin nostalgia hitler stalin