[go: up one dir, main page]

München

borg í Bæjaralandi í Þýskalandi

München er höfuðborg sambandslandsins Bæjaralands (Bayern) í Þýskalandi. Íbúar eru 1,5 milljónir (2020) og er hún jafnframt þriðja stærsta borg Þýskalands (á eftir Berlín og Hamborg).

München
Skjaldarmerki München
Staðsetning München
SambandslandBæjaraland
Flatarmál
 • Samtals310,74 km2
Hæð yfir sjávarmáli
519 m
Mannfjöldi
 (2020)
 • Samtals1.488.202
Vefsíðastadt.muenchen.de

München liggur við ána Isar sunnarlega í Bæjaralandi, rétt norðan Alpafjalla og nokkuð fyrir sunnan Dóná. Næstu borgir eru Ágsborg fyrir norðvestan (40 km), Ingolstadt fyrir norðan (70 km) og Innsbruck í Austurríki fyrir sunnan (80 km).

Orðsifjar

breyta

München myndaðist á svæði gamallar munkabyggðar og var nefnd eftir munkunum (á þýsku: Mönch). Fyrsta heiti borgarinnar kemur fram á latnesku, apud Munichen (hjá munkunum). Orðið Munichen skiptist svo í tvennt. Á þýsku máli breytist það í München. En á latínu helst það sem Munich. Þannig er einnig enska heiti borgarinnar. Íslendingar hafa ætíð notað heitið München eða jafnvel Munkaþverá hin syðri í gamanmáli.

Skjaldarmerki

breyta
 
Stóra skjaldarmerkið

Skjaldarmerki München er munkur sem stendur undir rauðu borgarhliði, efst er gullið ljón. Upphaf München má rekja til munkaklausturs. Rauða hliðið er borgarhlið München. Ljónið efst með kórónuna vísar til konungs, en Bayern var konungsríki 1804-1918. Litir borgarinnar eru svartur og gulllitur, sem eru litir gamla ríkisins. Í München er þó yfirleitt notað litla skjaldarmerkið, sem eingöngu sýnir munkinn.

Saga München

breyta

Upphaf

breyta
 
Lúðvík frá München varð keisari þýska ríkisins

Upphaf München er munkabyggð frá 8. öld á hæðinni Petersbergl. Þar stendur Péturskirkjan í dag. Þrátt fyrir það var ákveðið að telja upphafsár München frá því ári er bærinn kom fyrst við skjöl en það var 1158. Á því ári stofnaði Hinrik XII hertogi Saxlands og Bæjaralands (kallaður Hinrik ljón) borgina formlega. Hann lét smíða brú yfir ána Isar til að heimta toll af vegfarendum. Á sama ári fékk München borgarréttindi, 14. júní. Upp frá því varð München verslunarborg og fékk myndarlega borgarmúra.

Keisaraborg og höfuðborg

breyta

1314 varð hertoginn í Bayern Lúðvík IV kjörinn konungur þýska ríkisins. Hann var krýndur keisari 1328 og sama ár ákvað hann að setjast að í München. Síðan þá hafa litir ríkisins verið litir borgarinnar, svartur og gulllitur. München var einnig aðsetur hertogadæmis og var sem slík höfuðborg Bæjaralands.

Trúarerjur

breyta

Á fyrri hluta 16. aldar komu siðaskiptamenn til borgarinnar og hófu að predika. En hertoginn Vilhjálmur IV bannaði allt slíkt og lét ofsækja alla mótmælendur. Margir yfirgáfu borgina og minnkaði hún talsvert. Eftirmaður hans, Albrecht V, lét banna alfarið mótmælendatrú. Á hans tíð varð München miðstöð gagnsiðaskipta kaþólsku kirkjunnar. Árið 1559 kallaði hann Jesúíta til borgarinnar, en þeir þóttu ákaflega strangtrúaðir. Árið 1609 var kaþólska sambandið stofnað í München en það átti eftir að koma við sögu í 30 ára stríðinu. Strax í byrjun stríðsins, 1618, lét hertoginn Maximilian I mikið til sín taka. Hann safnaði her og barðist fyrir keisarann og kaþólsku kirkjuna. Hann sat um mýmargar siðaskiptaborgir í suðurhluta ríkisins. Fyrir skelegga framgöngu sína fékk hann að launum kjörfurstaembættið 1623. En stríðið var ekki bara sigurganga. Árið 1632 voru Svíar komnir nær alla leið til Alpanna. Gustav Adolf II sat um München, sem keypti sig lausa fyrir 300 þúsund ríkisdali og háttsetta gísla. En aðeins tveimur árum seinna geysar skæð pest í borginni. Þriðjungur borgarbúa lést úr henni og hundruðir yfirgefa borgina. Íbúatalan fer úr 22 þúsund niður í níu þúsund á skömmum tíma. Síðasta orrusta 30 ára stríðsins fór fram rétt norðan við borgarhlið München. Þar börðust bæjarar og Austurríkismenn gegn Svíum. Nokkrum vikum seinna voru friðarsamningarnir í Vestfalíu undirritaðir. Mesti hildarleikur sögunnar á þýskri grundu var á enda.

 
München 1642. Mynd eftir Matthäus Merian

Fleiri stríð

breyta

1683 fór kjörfurstinn Maximilian Emanuel til Vínarborgar og barðist þar gegn ósmönum (Tyrkjum). Hann hertók (frelsaði) einnig Belgrad 1688. Í spænska erfðastríðinu kaul Maximilian Emanuel að styðja Frakka. Hann tapaði hins vegar í stórorrustunni við Höchstätt 1704 og því þrömmuðu Austurrískismenn (Habsborgarar) til München og hertóku hana. Í almennri borgarauppreisn gegn Habsborgurum voru hundruðir almennra borgara drepnir. Það er kallað Sendlinger morðnóttin (Mordweihnacht). Austurríkismenn yfirgáfu München ekki fyrr en 1714. Árið 1742 var kjörfurstinn Karl Albrecht frá München kjörinn til keisara þýska ríkisins. Austurríkismenn voru ekki par hrifnir af valinu og hertóku München fyrir vikið. Keisaranum tókst ekki að hrekja þá þaðan fyrr en að tveimur árum liðnum. Árið 1778 sótti Píus VI páfi München heim en hann var fyrsti páfi sögunnar til þess. Árið 1798 var franskur byltingarher við borgarhliðin og skaut á borgina. Hann náðu þó ekki að hertaka hana að sinni.

Höfuðborg konungsríkis

breyta

Í upphafi 19. aldar var München orðin að stórborg. Frakkar sátu á ný um borgina 1800 og náðu að þessu sinni að hertaka hana. Napoleon sjálfur kom þangað 1805 og lagði til að stofnað yrði konungsríki í Bæjaralandi. Það gerðist ári síðar. Kjörfurstinn Maximilian Jósef varð fyrsti konungur landsins og varð München höfuðborg hans. Árið 1818 gaf hann þegnum sínum stjórnarskrá og bærískt þing (Landtag) var kallað saman í fyrsta sinn. Árið 1825 tók Lúðvík I við sem konungur. Undir hans stjórn varð München að þekktri listaborg. Hann lét reisa leikhús, óperuhús, listasöfn, frægðarhöllina og Bavaria-styttuna. Hann stofnaði einnig háskóla. Næstu áratugi óx borgin gríðarlega. Um aldamótin bjuggu þar hálf milljón manna og var München þá orðin þriðja stærsta borg þýska ríkisins. Í heimstyrjöldinni fyrri komust nokkrar franskar flugvélar alla leið til München og vörpuðu niður nokkrum sprengjum. Skemmdir urðu litlar. Við stríðslok 1918 var konungurinn orðinn svo óvinsæll að hann var fyrsti þjóðhöfðinginn í ríkinu til að hrökklast frá. Konungsríkið Bæjaraland leið undir lok. Keisari Þýskalands sagði af sér síðar á árinu. Stofnað var lýðveldi í Bæjaralandi, sem var hluti af Weimar-lýðveldinu.

Nýrri tímar

breyta
 
Hitler og Mussolini keyra um götur München

Kurt Eisner varð fyrsti forsætisráðherra Bæjaralands 1918. En ári síðar var hann myrtur og leysti það blóðug átök úr læðingi næsta árið. Í kjölfarið á því var þýski vinnuflokkurinn (DAP) stofnaður í München, en breyttist í NSDAP, nasistaflokkinn. Hitler sjálfur var í München og gerði uppreisn gegn stjórninni í Berlín 1923. Gjörningurinn var framkvæmdur í ölkeldukjallara ráðhússins. Uppreisnin mistókst og var Hitler fangelsaður. Hann var á þeim tíma enn austurrískur ríkisborgari. Í borgarstjórakosninum 1933 hlaut flokkur Hitlers 37% atkvæða. Heinrich Himmler varð lögreglustjóri borgarinnar. Fyrstu fangelsisbúðir nasista risu sama ár í Dachau, rétt norðan München. Höfuðstöðvar nasista voru áfram í borginni og var hún stundum kölluð „höfuðborg hreyfingarinnar“. Fyrstu loftárásir voru gerðar á München 1942 en þær hörðustu í janúar 1945. Helmingur borgarinnar eyðilagðist, þar af 90% miðborgarinnar. Þann 30. apríl hertóku Bandaríkjamenn borgina, sem var á hernámssvæði þeirra. 1949 varð Bæjaraland sambandsland Þýskalands með München að höfuðborg. Hún verður þekkt fyrir mikinn hátækniiðnað og listir. Árið 1972 voru Sumarólympíuleikarnir háðir í München. Upp úr stóð þó árás hryðjuverkamanna á íþróttamenn af gyðingaættum meðan leikarnir stóðu yfir. 1980 sótti Jóhannes Páll II páfi borgina heim. Árið 2006 sótti þriðji páfinn borgina heim, Benedikt XVI. (alias Joseph Ratzinger).

Íþróttir

breyta
 
Ólympíumannvirki í München

München er Ólympíuborg, en þar fóru sumarleikarnir fram 1972. Þátttakendur frá Íslandi voru alls 25, þar á meðal íslenska handboltaliðið. Hápunktur mótsins var sundkeppnin, en bandaríski sundkappinn Mark Spitz hlaut sjö gullverðlaun. Slíkt hafði enginn afrekað áður. Gera þurfti hlé á mótinu í heilan dag vegna gíslatöku hryðjuverkamanna á þátttakendur af gyðingaættum.

Aðalknattspyrnufélög borgarinnar eru FC Bayern München og TSV 1860 München. Bayern München hefur oftar en nokkurt annað félag orðið þýskur meistari eða 30 sinnum samtals. Auk þess hefur félagið 14 sinnum orðið bikarmeistari og 6 sinnum deildarbikarmeistari. Á alþjóðavettvangi hefur félagið fjórum sinnum orðið Evrópumeistari (þar með talið Champions League), einu sinni Evrópumeistari bikarhafa og tvisvar sinnum heimsbikarmeistari. Meðal frægra leikmanna félagsins má nefna Franz Beckenbauer, Gerd Müller, Sepp Maier og Lothar Matthäus svo einhverjir séu nefndir. Auk þess lék Ásgeir Sigurvinsson með félaginu 1981-82. TSV 1860 München hefur einu sinni orðið þýskur meistari (1966) og tvisvar bikarmeistari (1942 og 1964).

Viðburðir

breyta
 
Oktoberfest er fjölmennasta hátíð heims.
  • Dagur heilags Patreks er haldinn hátíðlegur í München, þrátt fyrir að vera minningardagur á Bretlandi og Írlandi. 17. maí ár hvert er farið í skrúðgöngu um götur München og eru flestir þátttakendur frá Bretlandseyjum, en einnig taka Þjóðverjar þátt í þessari skrúðgöngu. Þetta er stærsta skrúðganga Mið-Evrópu með þátttakendur uppá 30 þús manns.
  • Skautahlaup að nóttu (Die Münchner Bladenight) er stærsta skautahlaup Evrópu og fer fram í München að kvöldi til að sumartíma. Um 10 þús manns taka þátt.
  • Oktoberfest er árleg bjórhátíð haldin í München og er hún fjölmennasta hátíð í heimi. Hátíðin er haldin á Theresienwiese, en þar er einnig haldin vorhátíðin mikla með ýmsum leiktækjum.

Vinabæir

breyta

München viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta
 
Frúarkirkjan er þekktasta kennileitið í München
 
Ráðhúsið í München er geysifögur bygging

Byggingar og kennileiti

breyta

Fleiri byggingar

breyta

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta