Endurnýjanleg orka
Endurnýjanleg orka er orka sem kemur frá endurnýjanlegri orkulind sem minnkar ekki, heldur endurnýjar sig stöðugt þegar tekið er af henni og helst þannig í jafnvægi. Endurnýjanlegar orkulindir eru til dæmis sólarljós, vindur, hreyfingar vatns og jarðhiti.[1][2] Nýting endurnýjanlegra orkulinda getur verið sjálfbær; en stundum er hún það ekki, eins og þegar lífmassi er nýttur hraðar en hann nær að endurnýja sig.[3][4] Hagnýting endurnýjanlegrar orku á sér oftast stað á stórum skala, en hentar líka fyrir dreifbýli og þróunarlönd þar sem orkan skiptir miklu máli fyrir þróun samfélaga.[5][6] Hagnýting endurnýjanlegrar orku fer oft saman við rafvæðingu sem hefur ýmsa kosti, meðal annars þann að vera hrein orka þar sem hennar er neytt.[7][8]
Frá 2011 til 2021 hefur hlutur endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu heimsins vaxið úr 20% í 28%. Á sama tíma hefur hlutur jarðefnaeldsneytis minnkað úr 68% í 62% og hlutur kjarnorku minnkað úr 12% í 10%. Hlutur vatnsafls minnkaði úr 16% í 15%, en hlutfall vindorku jókst úr 2% í 10%. Hlutfall orku úr lífmassa og jarðhita fór úr 2% í 3%. Uppsett orka er 3.146 gígavött í 135 löndum, og 156 lönd hafa sett lög um endurnýjanlega orku.[9] Árið 2021 var nær helmingur aukningar í nýtingu endurnýjanlegrar orku í Kína.[10]
Á heimsvísu er áætlað að um 10 milljón störf séu í endurnýjanlega orkugeiranum, flest við framleiðslu á sólarsellum.[11] Framleiðsla á endurnýjanlegri orku hefur þróast hratt og orðið hagkvæmari og ódýrari um leið og hlutur hennar í heildarorkunotkun heimsins hefur farið vaxandi.[12] Stór hluti af nýrri rafmagnsframleiðslu heimsins byggist á endurnýjanlegum orkulindum.[13] Í flestum löndum eru sólarorkuver eða vindorkuver ódýrustu endurnýjanlegu orkukostirnir.[14]
Mörg lönd uppfylla yfir 20% af orkuþörf sinni með endurnýjanlegri orku og í nokkrum fjölda ríkja stendur endurnýjanleg orka undir yfir helmingi raforkuframleiðslu.[15] Fjögur lönd framleiða 100% af sinni raforku með endurnýjanlegri orku: Albanía, Paragvæ, Ísland og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó.[16] Áætlað er að markaðurinn fyrir endurnýjanlega orku muni vaxa hratt á 3. áratug 21. aldar. Samkvæmt Alþjóðaorkustofnuninni þurfa 90% af raforkuframleiðslu heimsins að koma frá endurnýjanlegum orkulindum ef takast á að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.[17] Sumar rannsóknir benda til þess að skipti yfir í 100% endurnýjanlega orku á öllum sviðum orkunotkunar - raforku, húshitun, flutningum og iðnaði - séu bæði möguleg og fýsileg.[18][19][20] Endurnýjanlegar orkulindir finnast nánast um allan heim, andstætt jarðefnaeldsneyti, sem finnst í vinnanlegu magni aðeins í nokkrum ríkjum. Aukin notkun endurnýjanlegrar orku hefur því veruleg áhrif á orkuöryggi, loftslagsbreytingar og efnahagslíf einstakra ríkja.[21] Eitt af því sem stendur í vegi fyrir hagnýtingu endurnýjanlegrar orku eru styrkir til vinnslu á jarðefnaeldsneyti.[22] Alþjóðlegar skoðanakannanir hafa sýnt mikinn stuðning almennings við endurnýjanlega orkukosti eins og sólarorku og vindorku.[23][24] Árið 2022 gaf Alþjóðaorkustofnunin út tilmæli til aðildarríkja um að fjarlægja lagalegar og fjárhagslegar hindranir sem stæðu í vegi fyrir aukningu framleiðslu á endurnýjanlegri orku, til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysi árið 2050.[25]
Skilgreining
breytaEkki má rugla saman hugtökunum „endurnýtanlegur“ og „endurnýjanlegur“. Orðið „endurnýtanlegur“ vísar til þess að hægt sé að nýta eitthvað aftur. Sem dæmi má nefna dagblöð og flöskur sem við förum með til endurvinnslu. Orðið „endurnýjanlegur“ vísar hins vegar til þess að eitthvað endurnýjar sig þegar tekið er af því. Einnig kemur fyrir að hugtökunum „sjálfbær“ og „endurnýjanlegur“ er ruglað saman, en hafa skal í huga að sjálfbærni lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar. Ekki er rétt að segja að orka sé endurnýtanleg, og ekki er heldur alveg rétt að segja að orka sé endurnýjanleg. Það sem átt er við þegar talað er um endurnýjanlega orku er að hún komi frá endurnýjanlegri orkulind.[26]
Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 er endurnýjanleg orka skilgreind þannig: orka sem ekki kemur frá jarðefnaeldsneyti heldur úr endurnýjanlegum orkulindum, þ.e.a.s. sól, vindi, jarðhita, haforku, lofthita, varma úr grunn- og yfirborðsvatni og vatnsorku, lífmassa, hauggasi, skolphreinsistöðvum og lífgasi.[27]
Orkulindir
breytaOrkulindir jarðefna, þ.e. olíu, kola og gass, teljast ekki endurnýjanlegar sökum þess hversu langur nýmyndunartími þeirra er miðað við nýtingarhraðann.[28] Ekki er vitað með nákvæmni hversu langan tíma jarðefnaeldsneyti er að myndast, en ljóst er að um er að ræða þúsundir eða milljónir ára, eftir aðstæðum. Flest ef ekki öll lönd eru mjög háð jarðefnaeldsneyti, en sökum þess hversu hratt gengur á þær birgðir sem til eru, með tilheyrandi verðhækkunum, sem og losun koltvísýrings (CO2) við bruna þess, hefur þörfin fyrir endurnýjanlega orkugjafa aukist til muna undanfarin ár.[29]
Jarðhiti
breytaHugtakið jarðhiti er í dag fyrst og fremst notað um það fyrirbæri þegar heitt vatn og gufa koma upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum, auk fyrirbæra sem tengjast þessu, s.s. efnaútfellingar. Þessi svæði skiptast í lág- og háhitasvæði. Forsenda jarðhita í þessum skilningi er að jarðskorpan sé gljúp sem gerir vatni kleift að hripa niður og flytja svo með sér varmaorku frá neðri jarðlögum. Hitastigið hækkar eftir því sem neðar dregur og á það sérstaklega við á eldfjallasvæðum og heitum reitum líkt og á Íslandi.[30] Orðið „jarðvarmi“ er notað um orkuna þegar greina þarf á milli jarðhitans sem almenns fyrirbæris og orkunnar sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðsins.[31]
Vatnsorka
breytaVatn er orkumiðill og vatnsorka sú orka sem vatn býr yfir á vissum stað í náttúrulegri hringrás sinni, en mikil orka felst í vatnsföllum. Fyrir tilstuðlan sólarinnar gufar vatn í sífellu upp af jörðinni. Við það að kólna þéttist gufan í ský, sem aftur skilar sér til jarðar sem úrkoma. Vatn sem rennur til sjávar ber orku sem fólgin er í falli þess. Þetta er sú orka sem beisluð er með vatnsaflsvirkjunum.[32] Vatnsafl er virkjað til þess að framleiða rafmagn. Það er gert þannig að vatnið er látið falla, og þungi þess og fallhæð nýtt til þess að knýja hverfla. Því meira vatnsmagn og fallhæð, því meiri orka.
Sögulega hefur mest af raforkuvinnslu með vatnsaflsvirkjunum farið fram með því að reisa stórar stíflur með miðlunarlónum.[33] Stærstu stíflur heims eru Þriggjagljúfrastíflan og Baihetan-stíflan í Kína, og Itaipu-stíflan milli Brasilíu og Paragvæ. Fjöldi smávirkjana og örvirkjana fer vaxandi um allan heim. Í Kína eru yfir 45.000 slíkar virkjanir.[34] Margar smávirkjanir eru rennslisvirkjanir sem hafa ekkert miðlunarlón.[35]
Vindorka
breytaVindorka er orka á formi hreyfiorku sem vindurinn felur í sér og á uppruna í geislum sólar. Maðurinn hefur beislað þessa orku í vel yfir 5500 ár, upphaflega með seglum báta og skipa. Talið er að fyrstu vindmyllurnar hafi verið hannaðar á 7. öld e.Kr., en þær gerðu mönnum kleift að nýta þessa orku til þess að mala korn og dæla vatni á milli staða. Síðar var farið að nota hana til þess að knýja ýmsan vélbúnað. Það var þó ekki fyrr en upp úr aldamótunum 1900 að vindmyllur voru fyrst notaðar til rafmagnsframleiðslu. Þróun vindmylla var hæg allt til ársins 1990 þegar stórt stökk varð í kjölfar umræðna um umhverfismál.
Vindorka er ókeypis og ótæmandi orkulind sem hefur ýmsa kosti varðandi nýtingu. Hún er vissulega ódýr virkjunarkostur, veldur lítilli röskun á umhverfi og er almennt talin umhverfisvæn (þótt sumir setji fyrirvara við þá ályktun).[36][37] Þó eru ýmsir vankantar á og má þar helst nefna hversu óstöðug orkulind vindurinn er og hversu illa vindmyllur endast. Vindmylla þarf lágmarks vindhraða um 4 m/s til þess að framleiða rafmagn og nær fullum afköstum við 15 m/s. Þeim heldur hún að 25 m/s en þá aftengist hún þar til vindhraði er kominn niður undir 20 m/s. Það getur því verið vandasamt að finna góða staðsetningu fyrir vindorkuver og þar að auki er nauðsynlegt að hafa varaaflstöð til þess að tryggja stöðuga orku.
Sólarorka
breytaSólin gefur á hverri sekúndu frá sér um júl af orku á formi rafsegulgeislunar. Til samanburðar samsvarar heildarorkuframleiðsla á jörðinni á ári því sem sólin framleiðir á einum billjónasta hluta úr sekúndu. Þessi orka er kölluð sólarorka og hluti af henni streymir til jarðar. Gufuhvolfið endurkastar svo eða gleypir flestalla skaðlega geisla áður en þeir ná til yfirborðs jarðar. [38] Sólarorkan er uppspretta allra orkulinda jarðar að undanskildum jarðhitanum og kjarnorku. Hún er orkan sem drífur veðrakerfi og hafstrauma jarðar og því má rekja upptök vind- og vatnsorku til sólarinnar. Sama gildir um þá orku sem losnar við brennslu trjáa og plantna, því sú orka er í raun sólarorkan sem plönturnar beisluðu við vöxt sinn. Þetta gildir einnig um jarðefnaeldsneyti enda myndast það úr gömlum jurtaleifum og má þess vegna rekja til sólar.[39]
Hægt er að nýta sólarorku á ýmsa vegu, bæði í iðnaði og á heimilum, til dæmis til hitunar vatns og lýsingar. Sólarljósið er þó ekki stöðugt og orkumagnið á hverjum stað misjafnt. Það fer eftir hnattstöðu, árstíma, tíma dags og veðráttu og því hentar best að beisla þessa orku á sólríkari svæðum.[40]
Lífmassi
breytaLífmassi er í grunninn lífrænt efni sem gengur af í líffræðilegum ferlum.[41] „Þegar rætt er um lífmassa sem orkulind er yfirleitt átt við afurðir eða aukaafurðir úr skógrækt og landbúnaði, en etanól, metan og lífdísill eru helstu miðlar lífmassaorku. Því kemur ekki á óvart að þau lönd sem komin eru einna lengst í þróun á lífmassa sem eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis eru Brasilía, þar sem sykurreyr er hráefnið og Svíþjóð og Finnland, þar sem skóglendi er mikið. Fleiri lönd standa þó einnig framarlega í þessum efnum.“ [42]
Lífmassi er meðal þeirra orkugjafa sem munu koma í stað jarðefnaeldsneytis til að draga úr aukningu gróðurhúsaáhrifa. Með því að vinna gas úr sorpi og búfjáráburði er einnig dregið úr losun metans sem er mjög virk gróðurhúsalofttegund, og afgangar úr grisjun skóga og timburvinnslu eru mikilvægt hráefni. Úrgangur sem til fellur dugir þó skammt. Á Íslandi kemur til greina að hirða lífmassa af túnum eða rækta tún sérstaklega með tegundum eins og strandreyr, byggi og alaskalúpínu. Víði ætti að mega rækta með góðum árangri. Minni líkur eru á að rækta megi olíujurtir til að fá dísileldsneyti.[43] Orkan sem fæst úr lífmassa er ekki jafn þétt og sú úr jarðefnaeldsneyti og því þarf aukna tækni til þess að lífmassaorka sé samkeppnisfær. Því er ljóst að landbúnaðurinn og iðnaður þarf meiri gróður og hagkvæmari vinnslu til þess að unnt sé að auka notkun lífmassa. Mögulegar afurðir úr lífmassa er eldsneyti í vökva- og gasformi auk fleiri gagnlegra efnasambanda sem nú eru framleidd úr jarðefnum.[44]
Endurnýjanleg orka á Íslandi
breytaÍsland hefur mikla sérstöðu þegar kemur að orkumálum. Hver íbúi notar meiri orku en þekkist annars staðar og sömuleiðis er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa óvenju hátt. Orkubúskapurinn byggist aðallega á jarðhita, vatnsafli og innfluttu jarðefnaeldsneyti.[45] Samkvæmt Hagstofu Íslands var heildarorkunotkun þjóðarinnar árið 2020, 246 PJ (petajúl). Rúmlega 89% kom frá innlendum og endurnýjanlegum orkulindum og 10% úr innfluttu jarðefnaeldsneyti,[46] en þessi hlutföll eru öfug við það sem gerist annars staðar í heiminum.
Af innlendri orku kom árið 2019 18,2% frá vatnsafli, en mest eða 65,5% frá jarðhita. Notkun jarðefnaeldsneytis einskorðast að mestu við bíla- og skipaflotann eða um 14,5% og um 1,8% eru kol sem notuð eru í iðnaði.[46]
Íslensk stjórnsýsla
breytaÍsland er í samstarfi á alþjóðavettvangi um orkumál og hefur þannig tækifæri til þess að miðla reynslu og upplýsingum á þessu sviði. Í dag heyra orkumál undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti Íslands.[47] Orkustofnun er stjórnsýslustofnun orkumála í umboði stjórnvalda og gefur ráðleggingar í þeim efnum. Stofnunin aflar þekkingar um orkumál og varðveitir þann þekkingarbrunn; aflar undirstöðugagna um vatnafar og vatnsbúskap, jarðhita, náttúrufar og umhverfi; og miðlar þurfandi þjóðum af þekkingu okkar í rannsóknum og nýtingu á jarðhita.[48] Kröfur um samræmda stefnu og aðgerðir á heimsvísu hafa aukist mjög og því er alþjóðlegt samstarf engu síður mikilvægt svo markmiðum verði náð. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem að miklu leyti byggir efnahag sinn á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og hreinni náttúru.[49]
Vinna að aukinni þekkingu og tækniþróunar á sviði endurnýjanlegrar orku hefur verið sett í forgang á Norðurlöndunum. Náttúrulegar aðstæður eru þó mjög mismunandi á milli landa eða svæða, og því misjafnt hvaða orkulindir hentar að nýta á hverjum stað. Þær orkulindir sem mest er horft til eru vindorka, vatnsorka, jarðhiti, lífræn orka og sólarorka.[50]
Tilvísanir
breyta- ↑ Owusu, Phebe Asantewaa; Asumadu-Sarkodie, Samuel (2016). „A review of renewable energy sources, sustainability issues and climate change mitigation“. Cogent Engineering. 3 (1): 1167990. doi:10.1080/23311916.2016.1167990.
- ↑ Ellabban, Omar; Abu-Rub, Haitham; Blaabjerg, Frede (2014). „Renewable energy resources: Current status, future prospects and their enabling technology“. Renewable and Sustainable Energy Reviews. 39: 748–764 [749]. doi:10.1016/j.rser.2014.07.113.
- ↑ Timperly, Jocelyn (23. febrúar 2017). „Biomass subsidies 'not fit for purpose', says Chatham House“. Carbon Brief Ltd © 2020 - Company No. 07222041. Afrit af uppruna á 6. nóvember 2020. Sótt 31. október 2020.
- ↑ Harvey, Chelsea; Heikkinen, Niina (23. mars 2018). „Congress Says Biomass Is Carbon Neutral but Scientists Disagree - Using wood as fuel source could actually increase CO2 emissions“. Scientific American. Afrit af uppruna á 1. nóvember 2020. Sótt 31. október 2020.
- ↑ Alazraque-Cherni, Judith (1. apríl 2008). „Renewable Energy for Rural Sustainability in Developing Countries“. Bulletin of Science, Technology & Society. 28 (2): 105–114. doi:10.1177/0270467607313956. S2CID 67817602. Afrit af uppruna á 19. mars 2021. Sótt 2. desember 2020.
- ↑ World Energy Assessment (2001). Renewable energy technologies Geymt 9 júní 2007 í Wayback Machine, p. 221.
- ↑ Armaroli, Nicola; Balzani, Vincenzo (2011). „Towards an electricity-powered world“. Energy and Environmental Science. 4 (9): 3193–3222. doi:10.1039/c1ee01249e.
- ↑ Armaroli, Nicola; Balzani, Vincenzo (2016). „Solar Electricity and Solar Fuels: Status and Perspectives in the Context of the Energy Transition“. Chemistry – A European Journal. 22 (1): 32–57. doi:10.1002/chem.201503580. PMID 26584653.
- ↑ „Renewables 2022“. Global Status Report (renewable energies): 44. 14. júní 2019. Sótt 5. september 2022.
- ↑ „Renewables – Global Energy Review 2021 – Analysis“. IEA. Afrit af uppruna á 23. nóvember 2021. Sótt 22. nóvember 2021.
- ↑ „Renewable Energy and Jobs – Annual Review 2020“. irena.org. 29. september 2020. Afrit af uppruna á 6. desember 2020. Sótt 2. desember 2020.
- ↑ „Global renewable energy trends“. Deloitte Insights. Afrit af uppruna á 29. janúar 2019. Sótt 28. janúar 2019.
- ↑ „Renewable Energy Now Accounts for a Third of Global Power Capacity“. irena.org. 2. apríl 2019. Afrit af uppruna á 2. apríl 2019. Sótt 2. desember 2020.
- ↑ IEA (2020). Renewables 2020 Analysis and forecast to 2025 (Report). bls. 12. Afrit af uppruna á 26. apríl 2021. Sótt 27. apríl 2021.
- ↑ Ritchie, Hannah; Roser, Max; Rosado, Pablo (28. nóvember 2020). „Energy“. Our World in Data.
- ↑ Sensiba, Jennifer (28. október 2021). „Some Good News: 10 Countries Generate Almost 100% Renewable Electricity“. CleanTechnica. Afrit af uppruna á 17. nóvember 2021. Sótt 22. nóvember 2021.
- ↑ „Net Zero by 2050 – Analysis“. IEA (bresk enska). Sótt 19. mars 2023.
- ↑ Bogdanov, Dmitrii; Gulagi, Ashish; Fasihi, Mahdi; Breyer, Christian (1. febrúar 2021). „Full energy sector transition towards 100% renewable energy supply: Integrating power, heat, transport and industry sectors including desalination“. Applied Energy (enska). 283: 116273. doi:10.1016/j.apenergy.2020.116273. ISSN 0306-2619.
- ↑ Teske, Sven, ritstjóri (2019). Achieving the Paris Climate Agreement Goals (enska). doi:10.1007/978-3-030-05843-2. ISBN 978-3-030-05842-5. S2CID 198078901.
- ↑ Jacobson, Mark Z.; von Krauland, Anna-Katharina; Coughlin, Stephen J.; Dukas, Emily; Nelson, Alexander J. H.; Palmer, Frances C.; Rasmussen, Kylie R. (2022). „Low-cost solutions to global warming, air pollution, and energy insecurity for 145 countries“. Energy & Environmental Science (enska). 15 (8): 3343–3359. doi:10.1039/D2EE00722C. ISSN 1754-5692. S2CID 250126767.
- ↑ International Energy Agency (2012). „Energy Technology Perspectives 2012“. Afrit af uppruna á 28. maí 2020. Sótt 2. desember 2020.
- ↑ Timperley, Jocelyn (20. október 2021). „Why fossil fuel subsidies are so hard to kill“. Nature. 598 (7881): 403–405. Bibcode:2021Natur.598..403T. doi:10.1038/d41586-021-02847-2. PMID 34671143. S2CID 239052649. Afrit af uppruna á 17. nóvember 2021. Sótt 22. nóvember 2021.
- ↑ „Global Trends in Sustainable Energy Investment 2007: Analysis of Trends and Issues in the Financing of Renewable Energy and Energy Efficiency in OECD and Developing Countries“ (PDF). unep.org. United Nations Environment Programme. 2007. bls. 3. Afrit (PDF) af uppruna á 4. mars 2016. Sótt 13. október 2014.
- ↑ Sütterlin, B.; Siegrist, Michael (2017). „Public acceptance of renewable energy technologies from an abstract versus concrete perspective and the positive imagery of solar power“. Energy Policy. 106: 356–366. doi:10.1016/j.enpol.2017.03.061.
- ↑ „Executive summary – Renewables 2022 – Analysis“. IEA (bresk enska). Sótt 13. mars 2023.
- ↑ „Endurnýjanlegar orkulindir“. ÍSOR. Sótt 21.6.2023.
- ↑ http://www.eutrainingsite.com/download/newsletter_june_2009.pdf[óvirkur tengill], skoðað 1.apríl 2010
- ↑ http://www.landsvirkjun.is/i-orkuumraedunni/nr/780[óvirkur tengill]
- ↑ http://www.geotech.org/survey/geotech/Oil.pdf, skoðað 1.apríl
- ↑ Guðmundur Pálmason (25.9.2002). „Hvað er jarðhiti?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Guðmundur Pálmason (2005). Jarðhitabók Eðli og nýting auðlindar. Hið íslenska bókmenntafélag.
- ↑ http://www.landsvirkjun.is/media/fraedsla/samk_veggspj_1_solarorka_A4.pdf Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine, sótt 5.apríl 2010
- ↑ Moran, Emilio F.; Lopez, Maria Claudia; Moore, Nathan; Müller, Norbert; Hyndman, David W. (2018). „Sustainable hydropower in the 21st century“. Proceedings of the National Academy of Sciences. 115 (47): 11891–11898. Bibcode:2018PNAS..11511891M. doi:10.1073/pnas.1809426115. ISSN 0027-8424. PMC 6255148. PMID 30397145.
- ↑ „DocHdl2OnPN-PRINTRDY-01tmpTarget“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. nóvember 2018. Sótt 26. mars 2019.
- ↑ Afework, Bethel (3. september 2018). „Run-of-the-river hydroelectricity“. Energy Education. Afrit af uppruna á 27. apríl 2019. Sótt 27. apríl 2019.
- ↑ Þórður Gunnarsson (1. apríl 2023). „Hvað ef ekki andar vindum þýðum?“. Viðskiptablaðið. Sótt 21.6.2023.
- ↑ Ágústa Ágústsdóttir (11. september 2021). „Hið skítuga leyndarmál vindorkunnar“. Vísir.is. Sótt 21.6.2023.
- ↑ Gordon J. Aubrecht (2006). Energy Physical, Environmental, and Social Impact. Pearson Prentice Hall. ISBN 0-13-093222-1.
- ↑ http://www.sesseljuhus.is/Template1.asp?SID_NR=556&VS=1VS1.asp Geymt 2 maí 2007 í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, skoðað 5.apríl 2010
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. mars 2010. Sótt 13. apríl 2010.
- ↑ http://www.calderasybiomasa.com/is/que-es-la-biomasa/[óvirkur tengill], skoðað 12.apríl 2010
- ↑ http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1151568, sótt 12.apríl 2010
- ↑ http://www.landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/0/f576196d6d2cbbaf002571010047ed48/$FILE/41.pdf Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, sótt 12.apríl 2010
- ↑ http://wayback.vefsafn.is/wayback/20051101164047/www.umhverfisvefurinn.is/2/Files/Skra_0003971.pdf
- ↑ http://www.rammaaaetlun.is/kynningar--og-umsagnarferli/virkjunarkostir-2.-afanga/orkukostir-og-orkunotkun/ Geymt 21 ágúst 2014 í Wayback Machine, skoðað 3.apríl 2010
- ↑ 46,0 46,1 „Heildarnotkun orku eftir uppruna 1940-2020“. Hagstofa Íslands. Sótt 21.6.2023.
- ↑ „Nýtt skipurit umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins“. Stjórnarráð Íslands. 20. desember 2022. Sótt 21.6.2023.
- ↑ http://www.althingi.is/lagas/128b/2003087.html
- ↑ http://www.utanrikisraduneyti.is/nyr-starfssvid/althjoda-og-oryggismal/audlinda-og-umhverfismal/verkefni//nr/4552, skoðað 16.apríl 2010
- ↑ http://www.norden.org/is/samstarfssvith/orkumal Geymt 9 maí 2010 í Wayback Machine, skoðað 1.apríl 2010