[go: up one dir, main page]

Paragvæ

Land í Suður-Ameríku

Paragvæ er landlukt land í Suður-Ameríku með landamæriArgentínu í suðri og suðvestri, Brasilíu í norðaustri og Bólivíu í norðvestri. Heiti þess er dregið af nafni Paragvæfljóts sem rennur í gegnum mitt landið frá norðri til suðurs. Landið er stundum kallað „hjarta Ameríku“ vegna legu þess í miðri álfunni.

República del Paraguay
Tetã Paraguái
Fáni Paragvæ Skjaldarmerki Paragvæ
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Paz y justicia (spænska)
Friður og réttlæti
Þjóðsöngur:
Paraguayos, República o Muerte
Staðsetning Paragvæ
Höfuðborg Asúnsjón
Opinbert tungumál spænska, gvaraní
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Santiago Peña
Sjálfstæði frá Spáni
 • Yfirlýst 15. maí, 1811 
 • Viðurkennt 1842 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
59. sæti
406.752 km²
2,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
113. sæti
6.109.644
15/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 117,35 millj. dala (94. sæti)
 • Á mann 19.040 dalir (98. sæti)
VÞL (2021) 0.717 (105. sæti)
Gjaldmiðill gvaraní
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .py
Landsnúmer +595

Gvaraníar höfðu búið í landinu í a.m.k. þúsund ár áður en Spánverjar komu þangað árið 1516. Spænski landkönnuðurinn Juan de Salazar de Espinosa stofnaði borgina Asúnsjón árið 1537. Landið varð miðstöð fyrir trúboð Jesúíta meðal frumbyggja á svæðinu. Árið 1811 lýsti landið yfir sjálfstæði frá Spáni. Árið 1814 komst einræðisherrann José Gaspar Rodríguez de Francia til valda og ríkti til dauðadags 1840. Stjórn hans einkenndist af einangrunarstefnu og efnahagslegri verndarstefnu. Eftir lát hans var Paragvæ undir herforingjastjórnum. Paragvæstríðið braust út 1864 milli Paragvæ og bandalags Úrúgvæ, Brasilíu og Argentínu. Í stríðinu féllu milli 60 og 70% íbúa Paragvæ og ríkið neyddist til að láta Argentínu og Brasilíu eftir um 140.000 km² landsvæði. Á 20. öld var landið undir herforingjastjórnum, síðast undir forsæti Alfredo Stroessner sem ríkti frá 1954 til 1989. Fyrstu frjálsu þingkosningar í landinu voru haldnar 1993. Eftir aldamótin 2000 hefur verið mikill hagvöxtur í Paragvæ sem náði hámarki, 14,5%, árið 2010.

Langflestir íbúa landsins búa í suðausturhlutanum, þar af nærri þriðjungur í eða við höfuðborgina, Asúnsjón. Frumbyggjamálið gvaraní er útbreiddara en spænska en bæði málin eru opinber tungumál landsins. Efnahagur Paragvæ byggist aðallega á landbúnaði, einkum sojabaunaræktun og nautgriparækt. Paragvæ er fjórði stærsti sojabaunaframleiðandi heims. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt undanfarin ár er talið að milli 30 og 50% íbúa landsins búi við fátækt.

Landið dregur nafn sitt af Paragvæfljóti (Ysyry Paraguai á gvaraní). Uppruni heitisins er óviss. Samkvæmt munknum Antonio Ruiz de Montoya sem skrifaði á 17. öld er nafnið dregið af gvaraníorðunum paragua („fjaðrakóróna“) og endingunni -y („vatn“ eða „á“). Spænski fræðimaðurinn Feliz de Azara stakk upp á því á 18. öld að nafnið væri dregið af heiti indíánaættbálksins Payaguá sem bjó við ána. Ýmsar aðrar skýringar eru til á nafninu, eins og að það merki „mikið fljót“ eða „hérna megin árinnar“.

Landfræði

breyta

Paragvæfljót skiptir landinu í tvö landfræðilega aðgreind svæði; austurhéraðið (Región Oriental), líka þekkt sem Paraneña, og vesturhéraðið (Región Occidental), sem er líka þekkt sem Chaco og er hluti af láglendinu Gran Chaco. Mörk héraðanna liggja um Paragvæfljót. Paragvæ liggur milli 19. og 28. gráðu suðlægrar breiddar og 54. og 63. gráðu vestlægrar lengdar og situr á Steingeitarbaugnum. Landið er að mestu grösugar sléttur með skógi vaxnar hæðir í austurhlutanum. Í vestri eru láglendar sléttur. Fimmtán þjóðgarðar eru í Paragvæ. Stærstu náttúruverndarsvæðin eru í Chaco-héraðinu eins og Defensores del Chaco (720 þúsund hektarar af um milljón hekturum alls í Chaco-héraði). Í austurhéraðinu eru til dæmis Cerro Cora-þjóðgarðurinn og Ñacunday-þjóðgarðurinn þar sem Ñacunday-fossar eru.

Paragvæ á landamæri að þremur miklu stærri ríkjum: Bólivíu, Argentínu og Brasilíu. Á þremur stöðum við landamæri Paragvæ mætast landamæri þriggja ríkja.

Veðurfar

breyta

Í Paragvæ er ríkjandi hitabeltisloftslag og hlýtemprað loftslag með regntíma og þurrkatíma. Vindur hefur mikil áhrif á veður í Paragvæ. Frá október til mars blása hlýir vindar frá Amasón í norðri, en frá maí til ágúst blása kaldir vindar frá Andesfjöllum.

Þar sem engin fjöll standa í vegi fyrir vindum geta þeir náð allt að 161 km/klst hraða. Þetta getur leitt af sér snöggar hitabreytingar. Milli apríl og september geta þeir jafnvel fallið niður fyrir frostmark. Janúar er heitasti sumarmánuðurinn með 28,9˚ meðalhita.

Úrkoma er mjög breytileg eftir landsvæðum, með mikla úrkomu í austurhlutanum og hálfþurrt loftslag vestast. Skógarbeltið austast fær 170 cm meðalúrkomu árlega meðan Chaco-svæðið í vestri nær einungis 50 cm. Í vestri fellur úrkoman óreglulega og gufar hratt upp, sem eykur enn á þurrka svæðiðsins.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Paragvæ er skipt í sautján sýslur og eitt höfuðborgarsvæði (distrito capital). Landið skiptist líka í tvö héruð: Vesturhéraðið eða Chaco-hérað (Boquerón, Alto Paraguay og Presidente Hayes) og Austurhéraðið (allar hinar sýslurnar og höfuðborgarsvæðið). Sýslurnar skiptast svo aftur í mismörg umdæmi.

 
Sýslur Paragvæ.
ISO 3166-2 Sýsla Höfuðstaður Íbúar (manntal 2022)[1] Stærð (km2) Umdæmi
ASU Distrito Capital Asunción 477.346 117 1
1 Concepción Concepción 204.536 18.057 14
2 San Pedro San Pedro 341.895 20.007 23
3 Cordillera Caacupé 271.475 4.953 20
4 Guairá Villarrica 180.121 3.991 18
5 Caaguazú Coronel Oviedo 430.142 11.479 22
6 Caazapá Caazapá 140.060 9.503 11
7 Itapúa Encarnación 436.966 16.536 30
8 Misiones San Juan Bautista 114.542 9.568 10
9 Paraguarí Paraguarí 199.430 8.710 18
10 Alto Paraná Ciudad del Este 784.839 14.898 22
11 Central Areguá 1.866.562 2.665 19
12 Ñeembucú Pilar 85.749 12.155 16
13 Amambay Pedro Juan Caballero 173.770 12.935 6
14 Canindeyú Salto del Guairá 189.128 14.677 16
15 Presidente Hayes Villa Hayes 126.880 72.917 10
16 Alto Paraguay Fuerte Olimpo 17.608 82.394 4
17 Boquerón Filadelfia 68.595 91.676 4
Alls Paragvæ Asunción 6.109.644 406.796 273

Efnahagslíf

breyta
 
Skýringarmynd yfir útflutning Paragvæ árið 2012.

Paragvæ hefur notið mikils hagvaxtar milli 1970 og 2013, með 7,2% vöxt á ári að meðaltali. Árin 2010 og 2013 var hagvöxtur í Paragvæ meiri en í nokkru öðru Suður-Ameríkulandi, 14,5% og 13,6% hvort árið.[2]

Árið 2010 lýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því yfir að innan við 10% af verkafólki í Paragvæ greiddi í lífeyrissjóð. 95% af lífeyriskerfi Paragvæ liggur í tveimur sjóðum, einum fyrir einkageirann og einum fyrir opinbera starfsmenn (og fyrrum hermenn úr Chaco-stríðinu). [3]

Öll raforka í Paragvæ er framleidd með vatnsaflsvirkjunum. Framleiðslugeta Paragvæ er 8.110 MW og framleiðslan er 63 milljarðar KWh á ári, en innanlandsneysla er aðeins 15 milljarðar KWh. Paragvæ selur umframorku til nágrannaríkjanna og er stærsti útflutningsaðili raforku í heimi.[4] Tvær stórar virkjanir sjá landinu fyrir allri raforkuframleiðslu þess. Þar af er Itaipu-virkjunin langstærst, en hún er önnur stærsta vatnsaflsvirkjun heims.

Auk raforkunnar er Paragvæ sjötti mesti sojabaunaútflytjandi heims, annar mesti steviuútflytjandi heims, annar mesti tungolíuútflytjandi heims, sjötti mesti maísútflytjandi heims, 10. mesti hveitiútflytjandi heims og 8. mesti nautakjötsútflytjandi heims.

Óformlegi geirinn myndar stóran hluta hagkerfisins, sem felst í endursölu innfluttra neysluvara til nágrannalanda, auk mikils fjölda örfyrirtækja og götusala. Efnahagslífið hefur orðið fjölbreyttara síðustu áratugi, þar sem raforkuframleiðsla, framleiðsla á varahlutum og fataiðnaður hafa rutt brautina.[5] Paragvæ státar af einu stærsta fríverslunarsvæði heims, Ciudad del Este, á eftir Miami og Hong Kong.[6]

Stór hluti íbúanna í sveitum landsins lifir að mestu af sjálfsþurftarbúskap. Vegna þess hve óformlegi geirinn er stór er erfitt að gera sér nákvæma mynd af umfangi hagkerfisins. Hagkerfið óx hratt milli 2003 og 2013 vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á neysluvörum sem, ásamt hagfelldu veðurfari, efldi útflutning landsins. Hagvöxturinn dró þó ekki úr fátækt, sem er talin hrjá 26% landsmanna, heldur jók bilið á milli ríkra og fátækra hratt.

Tilvísanir

breyta
  1. „Paraguay has 6,109,644 inhabitants, according to the last Census“. ABC Color (spænska). 31. ágúst 2023. Afrit af uppruna á 5. september 2023. Sótt 31. ágúst 2023.
  2. BCP – Banco Central del Paraguay Geymt 23 apríl 2020 í Wayback Machine. Bcp.gov.py. Retrieved on 18 June 2016.
  3. Franks, Jeffrey R.; Benelli, Roberto; Mercer-Blackman, Valerie; Sab, Randa (2005). Paraguay: Corruption, Reform, and the Financial System. International Monetary Fund. ISBN 9781451980356.
  4. „Paraguay – International – U.S. Energy Information Administration (EIA)“. www.eia.gov. Afrit af uppruna á 6. janúar 2019. Sótt 6. janúar 2019.
  5. „Paraguay un milagro americano“ (spænska). Afrit af uppruna á 26. maí 2015. Sótt 15. janúar 2015.
  6. „Paraguay“. www.exportimportstatistics.com. Afrit af uppruna á 30. janúar 2018. Sótt 30. janúar 2018.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.