[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Vísindaleg útgáfa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vísindaleg útgáfa er útgáfa vísindarannsókna og annars afraksturs vísindastarfs. Megnið af vísindalegri útgáfu felst í útgáfu ritrýndra vísindatímarita og bóka, auk námsritgerða. Gráar bókmenntir eru ritgerðir, skýrslur og greinar sem ekki fara í gegn um formlegt útgáfuferli og eru einfaldlega sett á Internetið. Flest vísindatímarit og vísindarit sem birta frumrannsóknir eru ritrýnd eða ritstýrð, en gæði og umfang ritrýninnar og skilyrði fyrir útgáfu eru mjög mismunandi eftir tímaritum.

Flestar vísindagreinar hafa sín tímarit og útgáfuleiðir, en það eru líka til þverfagleg tímarit sem birta rannsóknir margra ólíkra greina. Tímaritin eiga það til að verða sérhæfðrari eftir því sem sérhæfing eykst innan tiltekinna fræðigreina. Á sama tíma er mikill munur á því hversu ströng skilyrði tímarit setja fyrir ritrýni og útgáfu. Útgáfuskekkja vísar til þess að tímarit velja heldur greinar um rannsóknir sem geta sýnt fram á tölfræðilega marktæka niðurstöðu, en aðrar greinar.[1]

Vísindatímarit voru snemma þátttakendur í rafrænni útgáfu, en með þeim formerkjum að útgefendur seldu aðgang að greinum í gegnum áskriftir. Mörg háskólabókasöfn greiða háar upphæðir fyrir aðgang að vísindaritum í gegnum áskriftarpakka, þrátt fyrir að rannsóknir sem greinarnar byggjast á séu að stórum hluta fjármagnaðar af opinberum vísindasjóðum. Vegna þessa hófst barátta fyrir útgáfu í opnum aðgangi um aldamótin 2000. Margir vísindasjóðir (meðal annars RannÍs) gera kröfu um útgáfu niðurstaðna í opnum aðgangi, en skilyrðin eru misströng.[2][3] Mörg áskriftartímarit bjóða höfundum að greiða eins konar lausnargjald fyrir að hafa grein í opnum aðgangi, og styrktaraðilar gera ráð fyrir kostnaði við slíkt.

Fjármögnunar- og framgangskerfi rannsóknar- og háskólastofnana virkar þannig að vísindafólk þarf að gefa út ritrýndar greinar til að eiga möguleika á rannsóknarfé og stöðuveitingum. Oft er vitnað í enska orðtækið „publish or perish“ („útgáfa eða dauði“) til að lýsa þessu.[4] Rányrkjutímarit nýta sér þetta og bjóða vísindafólki útgáfu gegn gjaldi í tímaritum sem á ytra byrði virka eins og viðurkennd vísindatímarit, en gera nánast engar kröfur um vísindaleg vinnubrögð.[5] Sjálft ritrýniferlið hefur verið gagnrýnt fyrir að hleypa of auðveldlega í gegn niðurstöðum sem ekki standast kröfur um vísindaleg vinnubrögð.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Pearce, J; Derrick, B (2019). „Preliminary testing: The devil of statistics?“. Reinvention: An International Journal of Undergraduate Research. 12 (2). doi:10.31273/reinvention.v12i2.339.
  2. Harnad, Stevan, Tim Brody, François Vallières, Les Carr, Steve Hitchcock, Yves Gingras, Charles Oppenheim, Chawki Hajjem, og Eberhard R. Hilf (2008). „The access/impact problem and the green and gold roads to open access: An update“. Serials review. 34 (1): 36–40.
  3. „Opinn aðgangur“. RannÍs.
  4. Fanelli, D. (2020). „Pressures to publish: What effects do we see“. Gaming the Metrics. bls. 111.
  5. Beall, J. (2017). „What I learned from predatory publishers“. Biochemia medica. 27 (2): 273–278.
  6. Sato, S., Gygax, P. M., Randall, J., & Schmid Mast, M. (2021). „The leaky pipeline in research grant peer review and funding decisions: challenges and future directions“. Higher Education. 82 (1): 145–162.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.