[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Ritmál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ritmál er táknkerfi sem gerir mögulegt að varðveita talað mál og líkja eftir tungumáli á sýnilegan hátt. Til að skilja ritað mál þá þarf að kunna eitthvað í því tungumáli sem ritmálið byggir á. Með ritmáli er hægt að skrásetja birgðahald og viðskipti, sögulega atburði, lagabálka, vísindafróðleik, helgisagnir og frásagnir af afreksverkum þjóðhöfðingja. Eingöngu hluti af þeim tungumálum sem töluð eru í heiminum eiga sérstakt ritmál. Ritmál breytist hægar en talmál.

Saga ritmáls

[breyta | breyta frumkóða]
Fleygrúnir frá um 2400 f. Kr.

Upphaf ritmáls er rakið til svæðanna við austarvert Miðjarðarhaf og er elstu ummerki um fullkomið ritmál rakin til Súmera í Mesópótamíu. Þar hafa fundist leirmunir sem virðast hafa það hlutverk að auðvelda birgðahald. Upphaf ritaðs máls er oft í tengslum við viðskipti og skrásetningu á vörum. Varðveist hafa leirtöflur frá 4. árþúsundi fyrir Krists burð með ritmáli frá Súmerum. Þessar leirtöflur eru kallaðar fleygrúnir og þær eru elstu ummerki um ritmál. Fleygrúnir voru mótaðar með því að þrýsta tréfleygum í töflur úr votum leir sem síðan voru þurrkaðar í sól eða ofni. Elstu fleygrúnirnar geyma upplýsingar um fjölda kornsekkja og stærð nautgripahjarða í eigu mustera í Úrúk.

Myndletur Egypta (híeróglýfur, helgiskrift, guðaskrift) þróaðist á sama tíma og fleygrúnir Súmera. Það var notað til að skrá minnisverða viðburði og var fyrst höggvið í stein. Sjálfstæð þróun á letri virðist hafa orðið á fjórum stöðum, hjá Egyptum og Súmerum, hjá Kínverjum og hjá Majum í Vesturheimi. Aðeins hafa varðveist fjórar bækur með ritmáli Maja.

Um 1500 f.Kr. hófu fönikískir kaupmenn og farmenn að rita hljóðtákn til að greiða fyrir viðskiptum. Letur þeirra þróaðist úr bæði egypska myndletrinu og fleygrúnum Súmera. Fönikíumenn skrifuðu eingöngu samhljóða. Lesendur urðu að geta sér til um sérhljóða. Þegar letur Fönikíumanna barst til Grikklands á 7. eða 8. öld f. Kr. þá bættust sérhljóðar í letrið. Tákn úr aramisku stafrófi voru látin tákna sérhljóð. Þar kom þá fram í fyrsta skipti ritmál þar sem hvert tákn stafrófsins svaraði aðeins til eins hljóðs. Gríska stafrófið barst til Ítalíu og þróaðist yfir í latínuletrið sem við notuð núna.

Germanskar þjóðir ristu rúnir í tré, einkum beyki. Þaðan mun orðið bók vera komið. Elstu dæmin um rúnir eru frá um 200 e. Kr. Rúnirnar voru skyldar latínuletrinu en þróuðust á sjálfstæðan hátt. Þegar norrænu þjóðirnar urðu kristnar leysti latínuletrið rúnaletrið af hólmi.

Ritunarverkfæri

[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi hafa tákn verið skráð á leirtöflur, höggvin í steina eða rist á tré. Á 3. árþúsundi f.Kr. fara Egyptar að skrifa á papýrus sem unnin var úr stönglum hávaxins sefs sem óx á bökkum Nílar. Papýrus var vafinn upp í rollur eða stranga, líklega 6-10 metra langa og 25 sentimetra breiða. Papýrus entist í um 200 ár og það þurfti því sífellt að vera að endurskrifa það sem átti að varðveitast lengur. Leður (sútað skinn) var einnig notað í Egyptalandi og löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Bókfell (pergament) er ósútað skinn geita, sauða, svína eða kálfa. Það breiddist út á 3. öld f. Kr. Bókfell hafði þann kost fram yfir papýrus að skrifa mátti á það báðum megin.

Pappír er kínversk uppfinning. Talið er að Kínverjinn T'sai Lun hafi fundið upp pappír árið 105 e. Kr. Pappírsnotkun breiddist ört út í Kína, þar myndaðist miðstýrt skrifræðissamfélag þar sem sameiginlegt ritmál brúaði boðskiptabil milli þjóða sem töluðu ólík tungumál. Árið 751 barst kunnátta í pappírsgerð út fyrir Kína þegar kínverskir pappírsgerðarmenn voru teknir til fanga af arabískum hermönnum. Pappírsgerð hófst þá í Bagdad og Samarkland og voru baðmull og hörtrefjar notaðar við framleiðsluna. Á 12. öld berst pappírsgerðarlist með Márum til Spánar og á 14. öld var pappír orðinn útbreiddur í Evrópu og mun ódýrara efni til skrifta en bókfell.

  • Þorbjörn Broddason (2005). Ritlist, prentlist, nýmiðlar. Háskólaútgáfan.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „History of writing“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. febrúar 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Writing system“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. febrúar 2006.