[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Rosalynn Carter

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rosalynn Carter
Rosalynn Carter árið 1977.
Forsetafrú Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1977 – 20. janúar 1981
ForsetiJimmy Carter
ForveriBetty Ford
EftirmaðurNancy Reagan
Persónulegar upplýsingar
Fædd18. ágúst 1927(1927-08-18)
Plains, Georgíu, Bandaríkjunum
Látin19. nóvember 2023 (96 ára) Plains, Georgíu, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiJimmy Carter ​(g. 1946)
Börn4
Undirskrift

Eleanor Rosalynn Carter (f. Smith; 18. ágúst 1927 – 19. nóvember 2023) var Bandaríkjakona sem var forsetafrú Bandaríkjanna frá 1977 til 1981 sem eiginkona Jimmy Carter forseta. Hún hefur verið talskona fjölmargra málefna í gegnum áratugina, sér í lagi geðheilbrigðismálefna. Carter var virk í stjórnmálum á forsetatíð eiginmanns síns og var vön að mæta á ríkisstjórnarfundi í Hvíta húsinu, auk þess sem hún var einn nánasti ráðgjafi forsetans. Líkt og Jimmy Carter var Rosalynn ein af lykilmeðlimum góðgerðasamtakanna Habitat for Humanity.

Rosalynn Carter var komin af bændafólki frá Georgíu. Faðir hennar lést þegar hún var þrettán ára og Rosalynn tók sér störf í saumaskap til að hjálpa móður sinni að sjá fyrir fjölskyldunni. Hún útskrifaðist frá menntaskólanum Americus, skammt frá heimabæ hennar í Plains í Georgíu.[1] Hún var góður námsmaður sem hlaut hæstu einkunn í skóla og var valin til að lesa kveðjuræðu við útskrift árgangsins.[2]

Þann 7. júlí árið 1946 giftist Rosalynn Jimmy Carter, sem gegndi þá þjónustu í bandaríska sjóhernum. Hjónin fluttu í kjölfarið til Norfolk í Virginíu, þar sem Jimmy var staðsettur. Þau sneru aftur til Georgíu árið 1953 eftir að faðir Jimmys lést til þess að taka við rekstri jarðhnetubús Carter-fjölskyldunnar. Rosalynn fór á bókhaldsnámskeið til að geta aðstoðað við rekstur búsins.[2]

Rosalynn Carter kom fyrst fram opinberlega þegar eiginmaður hennar bauð sig fram í annað skipti til fylkisstjóra Georgíu. Í stað þess að fylgja eiginmanni sínum fór hún ein á atkvæðaveiðar og flutti kosningaræður víðs vegar um fylkið.[3] Rosalynn fékk áhuga á málefnum aldraðra, þroskahamlaðra og fatlaðra á meðan hún tók þátt í kosningabaráttunni þegar kjósendur greindu henni frá vandamálum sínum. Þessi málefni áttu eftir að vera henni hugleikin síðar á ferli hennar.[1]

Jimmy Carter bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna fyrir Demókrataflokkinn í forsetakosningunum 1976. Aftur tók Rosalynn fullan þátt í kosningabaráttu manns síns og fór í kosningaherferðir til 34 fylkja landsins.[1] Jimmy Carter var kjörinn forseti í kosningunum og Rosalynn varð því forsetatrú Bandaríkjanna við embættistöku eiginmanns síns í janúar 1977.

Rosalynn Carter hafði veruleg áhrif sem forsetafrú. Hún barðist fyrir réttindum fatlaðra og varð önnur forsetafrúa Bandaríkjanna á eftir Eleanor Roosevelt til að flytja ræðu til stuðnings eigin málefnis á Bandaríkjaþingi.[2] Hún var fulltrúi Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, sat ríkisstjórnarfundi til að fylgjast með gangi mála og tók þátt í friðarviðræðum í Camp David.[3][4] Vinsældir Jimmys biðu hnekki þegar leið á forsetatíð hans en Rosalynn var áfram vinsæl meðal almennings allan þann tíma sem hjónin sátu í Hvíta húsinu.[5]

Jimmy Carter náði ekki endurkjöri í forsetakosningunum 1980 og því yfirgáfu þau Rosalynn Hvíta húsið í janúar 1981. Eftir að stjórnartíð Carters lauk hafa hjónin verið virk í velferðarmálum og friðarstarfsemi. Jimmy og Rosalynn stofnuðu Carter-stofnunina svokölluðu árið 1982, sem vinnur að rannsóknum á sviði mannréttinda og aðferðum við að draga úr mannlegri þjáningu á alþjóðavísu.[6] Árið 1984 gaf Rosalynn út æviminningarnar First Lady of Plains, sem varð metsölubók.[2]

Rosalynn Carter lést þann 19. nóvember 2023 á heimili sínu í Georgíu, 96 ára að aldri.[7]

Rosalynn eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum.[4] Líkt og Jimmy Carter var hún baptisti og á árum þeirra í Hvíta húsinu kenndu þau bæði í sunnudagaskóla í Washington.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 William W. Shannon (3. október 1976). „Konan hans Carters“. Morgunblaðið. bls. 22.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 379. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  3. 3,0 3,1 „Rosalynn Carter“. Lesbók Morgunblaðsins. 17. maí 1980. bls. 6-7.
  4. 4,0 4,1 „Hin valdamikla forsetafrú Bandaríkjanna“. Heimilistíminn. 18. maí 1980. bls. 4-5.
  5. „Rosalynn: Sterki maðurinn í hvíta húsinu“. Tíminn. 5. ágúst 2021. bls. 5.
  6. Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 385.
  7. „Rosalynn Carter látin“. mbl.is. 19. nóvember 2023. Sótt 19. nóvember 2023.
  8. Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 380.