Póstvagninn
Póstvagninn (franska: La Diligence) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 28. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1968, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árinu 1967. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Póstvagnarán eru tíð í Villta Vestrinu og valda stærsta flutningafyrirtæki landsins, Wells Fargo & Co., þungum búsifjum. Fyrirtækið ákveður því að standa fyrir sérstakri ferð póstvagns með dýrmætan gullfarm frá Denver í Colorado til San Francisco í Kaliforníu til að lappa upp á ímynd sína. Er ferðin auglýst rækilega og Lukku Láki ráðinn til að gæta póstvagnsins, enda er fyrirfram vitað að gullfarmurinn muni freista fjölmargra óbótamanna á hinni löngu og háskalegu leið. Leggja Lukku Láki og vagnekillinn Hank Bully af stað frá Denver með gullið og sex litríka farþega - fjárhættuspilarann Cat Thumbs, ljósmyndarann Jeremiah Fallings, gullgrafarann Digger Stubble, predikarann Sinclair Rawler og herra og frú Flimsy. Á ferðalagið eftir að reynast viðburðaríkt í meira lagi.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd sögunnar um póstvagninn er samnefnd vestrakvikmynd frá árinu 1939, Stagecoach, sem leikstýrt var af John Ford og skaut leikaranum John Wayne upp á stjörnuhimininn. Myndin segir frá ferð nokkurra einstaklinga með póstvagni um indíánaslóðir Villta Vestursins. Morris lét hafa eftir sér að honum þætti sérstaklega vænt um Póstvagninn og að farþegahópurinn í sögunni hefði byggst á farþegunum í kvikmynd John's Ford. Morris neyddist þó til að sleppa einum farþeganum úr kvikmyndinni, þ.e. vændiskonunni Dallas sem leikin var af Claire Trevor í myndinni.
- Póstvagnsekillinn Hank Bully er skopstæling á bandaríska kvikmyndaleikaranum Wallace Beery (1885-1949). Þá er fjárhættuspilarinn Cat Thumbs eftirmynd leikarans John Carradine (1906-1988) sem fór með hlutverk fjárhættuspilarans í kvikmyndinni Stagecoach. Loks bregður leikstjóranum Alfred Hitchcock (1899-1980) fyrir í hlutverki barþjóns í sögunni.
- Einn alræmdasti póstvagnaræningi Villta Vestursins, ljóðskáldið Black Bart (1829-?), sem hét réttu nafni Charles Earl Bowles, kemur við sögu í bókinni. Er dregin upp sannsöguleg mynd af lífshlaupi útlagans, sem framdi fjölmörg póstvagnarán á svæðum í Kaliforníu og Oregon á áttunda og níunda áratug 19. aldar með grímu fyrir andliti og átti það til að skilja eftir sig ljóðlínur á ránsstað. Eins og fram kemur í bókinni leiddi áletrun þvottahúss á vasaklút, sem ræninginn skildi eftir á vettvangi, til þess að lögreglu tókst að lokum að hafa hendur í hári hans. Black Bart var látinn laus úr fangelsi árið 1888, hvarf í kjölfar þess og hefur ekkert til hans spurst síðan.
- Wells Fargo, nú einn stærsti banki Bandaríkjanna, rak í raun póstvagnaþjónustu þar í landi á þeim tíma er sagan gerist. Á fyrstu síðu bókarinnar má sjá myndir af stofnendum fyrirtækisins, Henry Wells og William F. Fargo, hangandi á vegg.
- Bókin um Póstvagninn var gefin út af Dargaud útgáfufélaginu þrátt fyrir að sagan hafi áður birst í teiknimyndablaðinu Sval sem keppinauturinn Dupuis gaf út, enda yfirsást stjórnendum Dupuis að tryggja sér einkarétt á útgáfu sögunnar.
- Könnun á opinberri vefsíðu Lucky comics árið 2009 leiddi í ljós að Póstvagninn var eftirlætisbók lesenda.