[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Lukku-Láki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lukku Láki)
Veggmynd af Lukku-Láka í neðanjarðarlestastöðinni Parc í Charleroi í Belgíu.

Lukku-Láki (franska: Lucky Luke) er heiti á vinsælum belgískum teiknimyndasögum sem segja frá ævintýrum Lukku-Láka, kúreka sem er fljótari en skugginn að skjóta, í Villta Vestrinu. Persónan er sköpunarverk belgíska teiknarans Morris (Maurice de Bevere) og birtist fyrsta ævintýrið í teiknimyndablaðinu Sval (franska: Spirou) í október 1946. Frá og með árinu 1955 voru handrit að sögunum um Lukku-Láka samin af franska myndasöguhöfundinum René Goscinny og í samstarfi þeirra Morris og Goscinny náðu bækurnar miklum vinsældum. Eru þær nú meðal mest seldu teiknimyndasagna Evrópu og hafa verið þýddar á hartnær 30 tungumál, þar á meðal ensku, arabísku, þýsku, dönsku, grísku, hebresku, tyrknensku og ítölsku. Á árunum 1977 til 1983 komu fjölmargar Lukku-Láka bækur út á íslensku á vegum Fjölvaútgáfunnar. Íslensk útgáfa Lukku-Láka hófst á ný árið 2016 á vegum Frosks útgáfu og komu út fimm bækur á árunum 2016-2020.

Ekki er að finna neinar vísbendingar í sköpunarsögu Lukku-Láka, sem til dæmis má lesa um í Allt um Lukku-Láka, um að hann hafi verið til eða eigi sér ákveðna fyrirmynd. Hins vegar eiga fjölmargar aðrar persónur í bókunum um Lukku-Láka sér beinar fyrirmyndir, annað hvort teknar beint úr sögu villta vestursins eða þekktar ímyndir úr samtímasögu vesturlanda þegar bækurnar voru gerðar.

Útgáfusaga

[breyta | breyta frumkóða]
Félagarnir Morris og Goscinny á góðri stundu árið 1971

Morris teiknaði Lukku-Láka frá árinu 1946 og þar til hann lést árið 2001. Fyrsta ævintýrið um hann, Arizona 1880, hóf göngu sína í teiknimyndablaðinu Sval í október 1946 sem varð vettvangur sagnanna næstu tvo áratugi. Morris samdi fyrstu ævintýrin um Lukku-Láka einn síns liðs og var yfirleitt um að ræða styttri sögur sem síðan komu út í bókarformi nokkrar í senn. Tók útlit Lukku-Láka talsverðum breytingum á þessum sokkabandsárum seríunnar þótt sum einkenni persónunnar, t.d. hárlokkurinn langi og kúrekafötin í belgísku fánalitunum, hafi verið til staðar frá öndverðu, að ógleymdum Léttfeta sem fylgt hefur Láka frá upphafi. Árið 1948 hélt Morris til Bandaríkjanna og ílengdist þar um nokkurra ára skeið. Í Bandaríkjunum kynntist hann höfundinum René Goscinny og fékk hann til að semja eina sögu um Lukku-Láka, Þverálfujárnbrautina, sem birtist í Sval á árunum 1955-1956. Eftir þetta samdi Goscinny Lukku-Láka sögurnar og stóð samstarf þeirra félaga við bókaflokkinn í um 20 ár. Héldu sögurnar áfram að birtast í Sval allt þar til Morris og Goscinny sögðu skilið við belgíska útgáfufélagið Dupuis árið 1967 og héldu til liðs við franska útgefandann Dargaud sem gaf út teiknimyndablaðið Pilote. Dargaud var frjálslyndara útgáfufélag en Dupuis á þessum tíma og Pilote þótti höfða til eldri lesenda myndasagna en Svalur. Er yfirleitt talið að vistaskiptin hafi gert bókaflokknum gott, en fyrsta sagan sem birtist í Pilote var Daldónaborg. Lukku-Láka sögurnar náðu miklum vinsældum í Evrópu á meðan á samstarfi þeirra Morris og Goscinny stóð og er tímabilið frá 1957-1977 yfirleitt talið vera gullöld seríunnar. Á þessu tímabili komu m.a. ýmsar eftirminnilegar persónur seríunnar til sögunnar, svo sem Daldónarnir, yngri frændur hinna raunverulega Daltonbræðra sem birst höfðu í einni af eldri sögum Morris, og hundurinn Rattati sem fyrst kom fram á sjónarsviðið í bókinni Í fótspor Daldóna og síðan í fjölmörgum seinni bókum. Eftir sviplegt andlát Goscinny árið 1977 hélt Morris áfram að teikna sögurnar, en fékk aðra til að sjá um handritsgerð. Komu ýmsir höfundar að ritun sagnanna eftir það, m.a. þeir Vicq, Bob de Groot, Jean Léturgie, Xavier Fauche, Lo Hartog Van Banda, Guy Vidal og Patrick Nordmann. Aðdáendur bókaflokksins eru yfirleitt á einu máli um að bækurnar, sem komu út eftir lát Goscinny, standi gullaldarsögunum talsvert að baki. Morris lést árið 2001 og tók þá lærisveinn hans, franski teiknarinn Achde, við keflinu. Achde hafði þá teiknað eina sögu um Lukku-Láka, Le Cuisinier francais, sem kom út árið 2003, en er sjaldnast talin með í opinberu ritröðinni. Nafni bókaflokksins var þá breytt lítillega og í kjölfarið kom út bókin La Belle Province sem teiknuð er af Achde og skrifuð af Laurent Gerra. Síðan hafa nokkrir fleiri höfundar komið að ritun sagnanna, þ.e. þeir Daniel Pennac, Tonino Benacquista, Jacques Pessis og Jul, en sá síðastnefndi semur nú handrit að nýjum sögum. Nú hafa komið út samtals 83 bækur á frummálinu og hafa bækurnar verið þýddar á hartnær 30 tungumál.

Lukku-Láki er sérstaklega þekktur fyrir ótrúlega skothæfni sína og einstaka útsjónarsemi. Hann ríður um á hesti sínum Léttfeta, dyggum fáki sem hann kallar „gáfaðasta hest í heimi“ og Rattati, „heimskasti hundur í heimi“ er einnig oft með þeim félögum í för. Lukku-Láki lendir ítrekað í útistöðum við óheppnu glæpamennina, Dalton bræður og jafnvel móður þeirra líka.

Ártöl koma yfirleitt ekki fram í sögunum og Lukku-Láki er ætíð jafn gamall. Sögusviðið er þó yfirleitt raunsætt og persónur sagnanna sóttar í bandaríska sögu. Margar raunverulegar hetjur og skúrkar villta vestursins hafa orðið á vegi Lukku-Láka, til dæmis Billy the kid, Jesse James og Roy Bean. Einnig hafa aðrar persónur úr mannkynssögunni komið við sögu, eins og Abraham Lincoln og Sigmund Freud. Goscinny sagði eitt sinn að hann og Morris reyndu, hvenær sem mögulegt var, að byggja ævintýri Lukku-Láka á raunverulegum atburðum en sagði jafnframt að þeir myndu ekki láta staðreyndir eyðileggja góða sögu.

Listi yfir Lukku Láka bækur

Lukku-Láka bækurnar eru nú yfir 80 talsins. Listinn sýnir nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslenskt heiti, númer og útgáfuár þar sem við á. Stuðst er við íslensk heiti þeirra bóka, sem komið hafa út á íslensku, og íslensk heiti sem öðrum bókum í bókaflokknum voru gefin í bókinni Allt um Lukku-Láka sem kom út árið 1978. Í öðrum tilvikum er stuðst við heiti bókanna á frummálinu.

Á listanum er nokkrum bókum sleppt sem yfirleitt eru ekki taldar með í númeruðu seríunni. Ein þeirra er Þjóðráð Lukku-Láka (f. La Ballade des Dalton) sem kom út á frönsku árið 1978 og í íslenskri þýðingu sama ár. Þar er á ferðinni myndskreytt saga sem kom út í tengslum við samnefnda kvikmynd um Lukku-Láka frá árinu 1978. Samnefnd teiknimyndasaga birtist síðar í bókinni La Ballade des Dalton et autres histories sem kom út árið 1986 og telst 55. bókin í bókaflokknum. Þá er bókin Á léttum fótum. Spes tilboð sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1982 ekki hluti af opinberu ritröðinni.


  1. Gullnáman (La Mine d'or de Dick Digger, 1949) [Ísl. útg. 1979, bók 22, að hluta]
  2. Hroðreið (Rodéo, 1949)
  3. Arísóna (Arizona, 1951) [Ísl. útg. 1979, bók 22, að hluta]
  4. Undir Vesturhimni (Sous le ciel de l'Ouest, 1952)
  5. Spilafanturinn (Lucky Luke contre Pat Poker, 1953) [Ísl. útg. 1981, bók 28]
  6. Eldri Daldónar (Hors la loi, 1954) [Ísl. útg. 1982, bók 30]
  7. Kynjalyfið (L'Elixir du Docteur Doxey, 1955)
  8. Lukku-Láki og Langi Láki (Lucky Luke et Phil Defer, 1956) [Ísl. útg. 1980, bók 24]
  9. Þverálfujárnbrautin (Des rails sur la Prairie, 1957) [Ísl. útg. 1981, bók 27]
  10. Bardaginn við Bláfótunga (Alerte aux Pieds Bleus, 1958) [Ísl. útg. 1983, bók 33]
  11. Óaldarflokkur Jússa Júmm (Lucky Luke contre Joss Jamon, 1958)
  12. Daldónar, ógn og skelfing Vestursins (Les Cousins Dalton, 1958) [Ísl. útg. 1978, bók 6]
  13. Rangláti dómarinn (Le Juge, 1959) [Ísl. útg. 1979, bók 18]
  14. Allt í sóma í Oklahóma (Ruée sur l'Oklahoma, 1960) [Ísl. útg. 1977, bók 3]
  15. Flótti Daldóna (L'évasion des Dalton, 1960)
  16. Fúlspýt á Fúlalæk (En remontant le Mississippi, 1961)
  17. Í fótspor Daldóna (Sur la piste des Dalton, 1961)
  18. Í skugga borturnsins (A l'ombre des Derricks, 1962)
  19. Karlarígur í Kveinabæli (Les Rivaux de de Painful Gulch, 1962) [Ísl. útg. 1978, bók 5]
  20. Billi Barnungi (Billy the kid, 1962) [Ísl. útg. 1978, bók 12]
  21. Undir Svörtufjöllum (Les Collines noires, 1963)
  22. Kuldaboli bítur Daldóna (Les Dalton dans le blizzard, 1963) [Ísl. útg. 2020, bók 38]
  23. Daldónar á ferð og flugi (Les Dalton courent toujours, 1964) [Ísl. útg. 1978, bók 11]
  24. Vagnalestin (La Caravane, 1964) [Ísl. útg. 1980, bók 23]
  25. Draugabærinn (La Ville fantôme, 1964) [Ísl. útg. 2016, bók 34]
  26. Batnandi englar (Les Dalton se rachètent, 1965) [Ísl. útg. 1978, bók 13]
  27. 20. riddarasveitin (Le 20e cavalerie, 1965) [Ísl. útg. 1977, bók 2]
  28. Heiðursvörður Billa Barnunga (L'Escorte, 1966) [Ísl. útg. 1979, bók 19]
  29. Gaddavír á gresjunni (Des barbelés sur la prairie, 1967) [Ísl. útg. 1979, bók 20]
  30. Svala sjana (Calamity Jane, 1967) [Ísl. útg. 1978, bók 8]
  31. Rex og pex í Mexíkó (Tortillas pour les Dalton, 1967) [Ísl. útg. 1978, bók 7]
  32. Póstvagninn (La Diligence, 1968)
  33. Grænjaxlinn (Le Pied-Tendre, 1968) [Ísl. útg. 1980, bók 26]
  34. Daldónaborg (Dalton City, 1969)
  35. Jessi Jamm og Jæja (Jesse James, 1969)
  36. Leikför um landið (Western Circus, 1970) [Ísl. útg. 1979, bók 17]
  37. Apasagjáin (Canyon Apache, 1971) [Ísl. útg. 1978, bók 9]
  38. Mamma Dagga (Ma Dalton, 1971) [Ísl. útg. 1978, bók 10]
  39. Sjakalinn (Chasseur de primes, 1972) [Ísl. útg. 2019, bók 37]
  40. Stórfurstinn (Le Grand Duc, 1973) [Ísl. útg. 2018, bók 36]
  41. Ríkisbubbinn Rattati (L'héritage de Rantanplan, 1973) [Ísl. útg. 1978, bók 14]
  42. Allt um Lukku-Láka (7 Histoires de Lucky Luke, 1974) [Ísl. útg. 1978, bók 16]
  43. Hvíti kúrekinn (Le Cavalier blanc, 1975)
  44. Sálarháski Dalton bræðra (La Guérison des Dalton, 1975) [Ísl. útg. 1977, bók 4]
  45. Kalli keisari (L'Empereur Smith, 1976) [Ísl. útg. 1977, bók 1]
  46. Söngvírinn (Le fil qui chante, 1977) [Ísl. útg. 1979, bók 21]
  47. Fjársjóður Daldóna (Le Magot des Dalton, 1980) [Ísl. útg. 1980, bók 25]
  48. Einhenti bandíttinn (Le Bandit manchot, 1981) [Ísl. útg. 1981, bók 29]
  49. La Corde du pendu et autres histoires (1982) [Ísl. útg. 1982, að hluta]
  50. Sara Beinharða (Sarah Bernhardt, 1982) [Ísl. útg. 1982, bók 32]
  51. Daisy Town (1983)
  52. Fingers (1983)
  53. Le Daily Star (1984)
  54. Makaval í Meyjatúni (La Fiancée de Lucky Luke, 1985) [Ísl. útg. 2017, bók 35]
  55. La Ballade des Dalton et autres histoires (1986) [Ísl. útg. 1982, að hluta]
  56. Le Ranch maudit (1986)
  57. Nitroglycérine (1987)
  58. L'Alibi (1987)
  59. Le Pony Express (1988)
  60. L'Amnésie des Dalton (1991)
  61. Chasse aux fantômes (1992)
  62. Les Dalton à la noce (1993)
  63. Le Pont sur le Mississipi (1994)
  64. Kid Lucky (1995)
  65. Belle Star (1995)
  66. Le Klondike (1996)
  67. O.K. Corral (1997)
  68. Oklahoma Jim (1997)
  69. Marcel Dalton (1998)
  70. Le Prophète (2000)
  71. L'Artiste peintre (2001)
  72. La Légende de l'Ouest (2002)
  73. La Belle Province (2004)
  74. La Corde au cou (2006)
  75. L'Homme de Washington (2008)
  76. Lucky Luke contre Pinkerton (2010)
  77. Cavalier seul (2012)
  78. Les tontons Dalton (2014)
  79. La Terre promise (2016)
  80. Un cow-boy à Paris (2018)
  81. Un cow-boy dans le Coton (2020)
  82. L'Arche de Rantanplan (2022)
  83. Un cow-boy sous pression (2024)

Tengdar bókaseríur

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1987 hóf Morris að teikna sjálfstæð ævintýri um fangelsishundinn Rattata (f. Rantanplan). Komu alls út 19 bækur í þessari seríu og komu ýmsir höfundar að ritun þeirra, m.a. Jean Léturgie, Xavier Fauche, Bob deGroot og Vittorio Leonardo, en eftir lát Morris árið 2001 teiknaði Michel Janvier sögurnar. Árið 1995 leit síðan dagsins ljós fyrsta bókin um æskuár Lukku-Láka. Hafa nú komið út alls sex bækur af þessum toga, en fyrstu tvær - Kid Lucky sem kom út árið 1995 og Oklahoma Jim sem kom út árið 1997 - eru yfirleitt taldar með hinum reglulegu Lukku-Láka bókum, en báðar voru teiknaðar af Didier Conrad undir pennaheitinu Pearce. Síðar hafa bæst við fjórar bækur sem Achde teiknaði og samdi um litla Lukku-Láka.

Sérstök ævintýri um Lukku-Láka

[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum tíðina hafa litið dagsins ljós nokkur ævintýri um Lukku-Láka sem ekki teljast til aðalbókaflokksins. Dæmi um þetta eru bækurnar Þjóðráð Lukku-Láka og Á léttum fótum. Spes tilboð. Einnig má nefna bókina Rocky Luke - Banlieue West sem kom út árið 1985 þar sem ýmsir myndasöguteiknarar og -höfundar skopstæla Lukku-Láka í stuttum sögum. Þá er bókin Le Cuisinier francais (ísl. Franski kokkurinn) eftir Achde, sem kom út árið 2003, sjaldnast talin með í opinberu ritröðinni.

Í tilefni af sjötugsafmæli Lukku-Láka árið 2016 kom út bókin Maðurinn sem drap Lukku-Láka (L'Homme qui tua Lucky Luke) eftir franska teiknarann Matthieu Bonhomme, teiknimyndasaga í raunsæisstíl sem er talsvert frábrugðin bókunum í aðalbókaflokknum. Bókin fékk prýðisgóðar viðtökur og vann til sérstakra verðlauna á teiknimyndasöguhátíðinni í Angouléme í Frakklandi í ársbyrjun 2017. Um sama leyti og af sama tilefni kom út bókin Jolly Jumper ne répond plus (ísl. Léttfeti svarar ekki) eftir franska teiknarann Guillaume Bouzard. Er hún sömuleiðis í teiknistíl sem er mjög ólíkur stíl reglulegu bókanna. Fleiri bækur hafa fylgt í kjölfarið, m.a. tvær á þýsku, og sér ekki fyrir endann á þessari hliðarútgáfu. Eru sumir útgefendur farnir að gefa bókunum númer og telur serían nú fimm bækur:

  1. Maðurinn sem drap Lukku-Láka (L'Homme qui tua Lucky Luke) eftir Matthieu Bonhomme, 2016 [ísl .útg. 2021].
  2. Jolly Jumper ne répond plus eftir Guillaume Bouzard, 2017.
  3. Lucky Luke sattelt um eftir Mawil, 2019.
  4. Wanted Lucky Luke eftir Matthieu Bonhomme, 2021.
  5. Zarter Schmelz eftir Ralf König, 2021.
  6. Les Indomptés eftir Blutch, 2023.

Bækur á íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Útgáfa Lukku-Láka á íslensku hófst árið 1977 með útgáfu Fjölva á Kalla keisara. Varð útgáfa bókanna hér á landi mjög ör þar sem Fjölvi gaf bækurnar út í samstarfi við stærri útgefendur á Norðurlöndunum og komu fyrstu 20 bækurnar allar út á þremur árum. Síðasta bókin frá Fjölva, Bardaginn við Bláfótunga, kom út árið 1983, en eftir það lagðist útgáfa bókanna af. Fyrir jólin árið 2016 hófst útgáfa Lukku-Láka bókanna á íslensku á nýjan leik á vegum Frosks útgáfu sem er með öllu ótengd fyrri útgefanda. Kom þá út bókin Draugabærinn.

Lukku-Láka bækurnar eru eftirfarandi, raðað í röð eftir því hvenær þær voru gefnar út á íslensku (innan sviga eru nöfnin á frummáli og upprunalegt útgáfuár, innan hornklofa er útgáfuár á Íslandi):


  1. Kalli keisari - (L'Empereur Smith) (1976) [1977]
  2. 20. riddarasveitin - (Le 20éme de cavalerie) (1965) [1977]
  3. Allt í sóma í Oklahóma - (Ruée sur l'Oklahoma) (1960) [1977]
  4. Sálarháski Dalton bræðra - (La guérison des Dalton) (1975) [1977]
  5. Karlarígur í Kveinabæli - (Les Rivaux de Painful Gulch) (1962) [1978]
  6. Daldónar, ógn og skelfing Vestursins - (Les cousins Dalton ) (1958) [1978]
  7. Rex og pex í Mexíkó - (Tortillas pour les Dalton) (1967) [1978]
  8. Svala sjana - (Calamity Jane) (1967) [1978]
  9. Apasagjáin - (Canyon Apache) (1971) [1978]
  10. Mamma Dagga - (Ma Dalton) (1971) [1978]
  11. Daldónar á ferð og flugi - (Les Dalton courent toujours) (1964) [1978]
  12. Billi Barnungi - (Billy the Kid) (1962) [1978]
  13. Batnandi englar - (Les Dalton se rachétent) (1965) [1978]
  14. Ríkisbubbinn Rattati - (L'Héritage de Rantanplan) (1973) [1978]
  15. Þjóðráð Lukku-Láka - (La Ballade des Dalton) (1978) [1978]
  16. Allt um Lukku-Láka - (7 histoires complètes – série 1) (1974) [1978]
  17. Leikför um landið - (Western Circus) (1970) [1979]
  18. Rangláti dómarinn - (Le juge) (1959) [1979]
  19. Heiðursvörður Billa Barnunga - (L'Escorte) (1966) [1979]
  20. Gaddavír á gresjunni - (Des barbelés sur la prairie) (1967) [1979]
  21. Söngvírinn - (Le fil qui chante) (1977) [1979]
  22. Meðal róna og dóna í Arisóna og Gullnáman - (Arizona / La mine d´or de Dick Digger) (1951 / 1949) [1980]
  23. Vagnalestin - (La caravane) (1964) [1980]
  24. Lukku-Láki og Langi Láki - (Lucky Luke contre Phil Defer) (1956) [1980]
  25. Fjársjóður Daldóna - (Le magot des Dalton) (1980) [1980]
  26. Grænjaxlinn - (Le Pied-tendre) (1968) [1980]
  27. Þverálfujárnbrautin - (Des rails sur la prairie) (1957) [1981]
  28. Spilafanturinn - (Lucky Luke contre Pat Poker) (1953) [1981]
  29. Einhenti bandíttinn - (Le bandit manchot) (1981) [1981]
  30. Á léttum fótum. Spes tilboð - (1972) [1982]
  31. Eldri Daldónar - (Hors-la-loi) (1954) [1982]
  32. Sara Beinharða - (Sarah Bernhardt) (1982) [1982]
  33. Bardaginn við Bláfótunga - (Alerte aux Pieds Bleus) (1958) [1983]
  34. Draugabærinn - (La Ville fantôme) (1964) [2016]
  35. Makaval í Meyjatúni - (La Fiancée de Lucky Luke) (1985) [2017]
  36. Stórfurstinn - (Le Grand Duc) (1973) [2018]
  37. Sjakalinn - (Chasseur de primes) (1972) [2019]
  38. Kuldaboli bítur Daldóna - (Les Dalton dans le blizzard) (1963) [2020]
  39. Maðurinn sem drap Lukku-Láka - (L'Homme qui tua Lucky Luke) (2016) [2021]
  • Þjóðráð Lukku-Láka er gerð eftir teiknimynd og ekki eftir Morris, en þó um Lukku-Láka.
  • Á léttum fótum. Spes tilboð er lítið hefti / smásaga í minna broti en aðrar Lukku-Láka bækur.

Reykingarnar

[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega eftir að Lukku-Láki kom fyrst fram á sjónarsviðið í teiknimyndablaðinu Sval fór hann að reykja sígarettur í sögunum. Eftir því sem tíminn leið ágerðist þessi ávani Láka. Morris var stundum gagnrýndur fyrir sígarettuna sem Lukku-Láki hafði alltaf uppi í sér. Gagnrýninni svaraði hann iðulega á þann veg að sígarettan tilheyrði karakternum, svona líkt og pípan hans Stjána bláa. Í viðtali við Verdens Gang í Noregsheimsókn árið 1981 sagði Morris að franska heilbrigðisráðuneytið hefði gert athugasemdir við reykingarnar. Morris varð á endanum að láta undan, aðallega til að eiga greiðari aðgang að bandarískum markaði. Þegar bókin Fingers kom út árið 1983 hafði grasstrá leyst sígarettuna af hólmi. Þar með var ímyndin um „harða“ Lukku-Láka farin fyrir bí. Morris hlaut sérstaka viðurkenningu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni árið 1988 fyrir að fjarlægja tóbakið og Lukku-Láki hefur ekki byrjað að reykja aftur. Þegar útgáfa Lukku-Láka bókanna á ensku hófst að nýju árið 2006 á vegum útgefandans Cinebook var forsíðukápu allra bókanna breytt þannig að sígarettunni var skipt út fyrir strá.

Kvikmyndir og sjónvarp

[breyta | breyta frumkóða]

Fjórar teiknimyndir voru gerðar um Lukku-Láka. Þríleikurinn, „Daisy Town“, „La Ballede des Dalton“ og „Les Dalton en cavale“ kom út á árunum 1971-1983 og fjórða myndin, „Tous à l'Ouest: Une aventure de Lucky Luke“ kom út árið 2007.

  • Árið 1983 framleiddi Hanna-Barbera myndverið teiknimyndaseríu um Lukku-Láka, alls 52 þætti.
  • Árið 1991 komu tvær leiknar kvikmyndir út um Lukku-Láka og árið 1992 var gefin út leikin þáttaröð sem Terence Hill leikstýrði og fór jafnframt með hlutverk Lukku-Láka. Þættirnir urðu alls 8. Til stóð að þættirnir yrðu fleiri, en Terence Hill glímdi við þunglyndi í kjölfar sonarmissis á árinu 1991 þannig að ekkert varð úr frekari framleiðslu.
  • Árið 2009 kom út myndin Lucky Luke og fór þá franski leikarinn Jean Dujardin með hlutverk skyttunnar knáu.

Tölvuleikirnir

[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum árin hafa nokkrir tölvuleikir komið út um Lukku-Láka, mest þó í Evrópu. Einnig var gerður leikur um hann sem hægt er að spila í símum. Helstu tölvurnar sem leikirnir höfðuðu til voru Nintendo DS Nintendo WII og PC.

  • Unnar Árnason: „Var Lukku-Láki til? Er einhver ljósmynd til af honum?“. Vísindavefurinn 28.1.2003. http://visindavefur.is/?id=3074. (Skoðað 21.4.2012).
  • Freddy Milton og Henning Kure: "Ævintýrið um Morris, Goscinny og Lukku-Láka". Birtist í Allt um Lukku-Láka, 1978.
  • Yvan Delporte: Lucky Luke - Den illustrerede Morris-bog. Egmont Serieforlaget A/S. 2004.
  • Lucky Luke - The Complete Collection 1. Cinebook. 2019.
  • Lucky Luke - The Complete Collection 2. Cinebook. 2019.
  • Lucky Luke - The Complete Collection 3. Cinebook. 2019.
  • Lucky Luke - Nouvelle Intégrale Tome 4. Dupuis. 2022.
  • Lucky Luke - Nouvelle Intégrale Tome 5. Dupuis. 2023.
  • Lucky Luke. 1957-1958. Egmont Serieforlaget A/S. 2003.
  • Lucky Luke. 1983-1984. Egmont Serieforlaget A/S. 2006.
  • Lucky Luke. 1999-2002. Egmont Serieforlaget A/S. 2007.
  • [1] Grein eftir Annick Pellegrin. Sótt 27.2.2017.
  • [2] Grein eftir Frey Eyjólfsson á Kjarnanum. Sótt 4.12.2020.