[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Jeanne Barret

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jeanne Barret
Mynd af Jeanne Barret í sjómannsfötum frá 1817 (eftir dauða hennar).
Fædd27. júlí 1740
Dáin5. ágúst 1807 (67 ára)
ÞjóðerniFrönsk
StörfRáðskona, herbergisþjónn, grasafræðingur, kráareigandi
Þekkt fyrirHnattsiglingu
MakiJean Dubernat (1774–1807)

Jeanne Barret (Baré eða Baret, fædd Barer; 27. júlí 1740 - 5. ágúst 1807) var þátttakandi í leiðangri Louis Antoine de Bougainville á skipunum La Boudeuse og Étoile árin 1766-1769. Barret er almennt álitin fyrsta konan sem lauk siglingu umhverfis hnöttinn.[1][2]

Jeanne Barret gekk til liðs við leiðangurinn dulbúin sem karlmaður og kallaði sig Jean Barret. Hún skráði sig sem herbergisþjónn og aðstoðarmaður náttúrufræðingsins Philibert Commerçon skömmu áður en skip Bougainvilles sigldu frá Frakklandi. Samkvæmt frásögn Bougainvilles var Barett sjálf fær grasafræðingur.

Jeanne Barret fæddist 27. júlí 1740 í þorpinu La Comelle í héraðinu Búrgúndí í Frakklandi. Skírn hennar er skráð í kirkjubækur þar sem hún er skráð skilgetið afkvæmi Jean Baret og Jeanne Pochard. Faðir hennar var daglaunamaður og virðist hafa verið ólæs, þar sem hann skrifaði ekki undir í sóknarskrá.[3][4]

Lítið er vitað um æsku Barret eða unglingsár. Hún sagði Bougainville síðar að hún hefði verið munaðarlaus og misst arf sinn í málaferlum áður en hún tók að dulbúa sig sem karlmaður. Móðir hennar lést 15 mánuðum eftir að Jeanne fæddist og faðir hennar þegar hún var 15 ára.[5] Sagnfræðingar eru sammála um að sum atriði ævisögunnar sem hún sagði Bougainville hafi verið uppspuni til að vernda Commerçon frá því að teljast meðsekur henni í að dulbúast.[6][7] Búrgúndí var á þessum tíma eitt af vanþróuðustu héruðum Frakklands hvað varðar stöðu bænda og líklegt er að fjölskylda Barret hafi verið mjög fátæk.[8][9]

Ein af ráðgátunum varðandi líf Barret er hvar hún aflaði sér grunnmenntunar, þar sem undirskrift hennar á seinni tíma skjölum sýnir að hún var læs og skrifandi. Einn af ævisöguriturum hennar, Glynis Ridley, bendir á að móðir hennar gæti hafa verið húgenotti. Húgenottar gerðu meiri kröfur um læsi en tíðkaðist meðal bænda á þeim tíma.[10] Annar ævisagnahöfundur, John Dunmore, stingur upp á að hún hafi fengið kennslu hjá sóknarprestinum eða verið styrkt til náms af aðalsfjölskyldu í héraðinu.[6] Danielle Clode bendir aftur á að Jeanne hafi ekki kvittað fyrir andlát föður síns í sóknarskrána (eða fæðingu guðsonar síns árið 1756).[11] Fyrsta undirskriftin sem vitað er um er frá 1764, sem bendir til þess að Commerçon hafi kennt henni að skrifa, kannski til að hún gæti aðstoðað hann við vinnu sína. Hún skrifaði nafnið sitt alltaf „Barret“.[12]

Samband við Commerçon

[breyta | breyta frumkóða]

Einhvern tíma á milli 1760 og 1764 vann Barret sem ráðskona hjá Commerçon, sem hafði sest að í Toulon-sur-Arroux, um 20 km sunnan við La Comelle, eftir brúðkaup sitt árið 1760. Eiginkona Commerçon, sem var systir sóknarprestsins þar, lést skömmu eftir að hún eignaðist son í apríl 1762, og líklega tók Barret við stjórn heimilisins á þeim tíma, ef ekki fyrr.[13][14]

Það er líka augljóst að Barret og Commerçon áttu í ástarsambandi, þar sem Barret varð ófrísk árið 1764. Frönsk lög á þeim tíma kröfðust þess að konur sem urðu ófrískar utan hjónabands fengju „þungunarvottorð“ þar sem þær gátu nefnt föður ófædds barns síns á nafn. Þungunarvottorð Barret frá ágúst 1764 er til. Það var lagt fram í bæ í 30 km fjarlægð og undirritað af tveimur vitnum sem höfðu líka ferðast langan veg. Hún neitaði að nefna föður barns síns, en sagnfræðingar efast ekki um að það hafi verið Commerçon og að hann hafi einnig ráðstafað lögfræðingnum og vitnum fyrir hennar hönd.[15][16]

Skömmu síðar fluttu Barret og Commerçon til Parísar þar sem hún var áfram í hlutverki ráðskonu hans. Barret breytti nafni sínu í „Jeanne de Bonnefoy“ á þessu tímabili.[17][18] Barnið, sem fæddist í desember 1764, fékk nafnið Jean-Pierre Baret. Barret gaf barnið til munaðarleysingjaspítalans í París. Honum var komið fyrir hjá fósturmóður en lést sumarið 1765.[19][20] Commerçon hafði skilið skilgetinn son sinn eftir í umsjá mágs síns í Toulon-sur-Arroux og hitti hann aldrei aftur meðan hann lifði.

Árið 1765 var Commerçon boðið að taka þátt í leiðangri Bougainvilles. Hann hikaði við að samþykkja vegna þess að hann var oft við slæma heilsu. Barret hjúkraði honum, auk þess að reka heimili hans og stjórna söfnum hans og skjölum.[21][22] Staða hans gerði ráð fyrir þjóni sem fengi greitt úr opinberum sjóðum, en konur voru stranglega bannaðar á frönskum herskipum á þessum tíma.[23] Á einhverjum tímapunkti varð sú hugmynd til að Barret myndi dulbúa sig sem karlmaður svo hún gæti fylgt Commerçon. Til að forðast grunsemdir átti hún að verða þátttakandi í leiðangrinum áður en skipið sigldi og þykjast ekki þekkja Commerçon.

Áður en Commerçon yfirgaf París skrifaði hann erfðaskrá þar sem hann arfleiddi „Jeanne Baret, þekkt sem de Bonnefoi, ráðskonu mína“ að 600 pundum ásamt launum sem hann skuldaði henni og húsgögnum í íbúð þeirra í París.[24][25] Þannig að þótt sagan sem Barret sagði Bougainville til að útskýra nærveru hennar um borð í skipinu hafi átt að tryggja að enginn grunur félli á Commerçon, eru til nægar heimildir um fyrra samband þeirra, og það er mjög ólíklegt að Commerçon hafi ekki tekið þátt í samsærinu.

Í leiðangri Bougainvilles

[breyta | breyta frumkóða]

Barret og Commerçon gengu til liðs við Bougainville-leiðangurinn í höfninni í Rochefort seint í desember 1766. Þeim var falið að sigla á birgðaskipinu Étoile. Vegna mikils magns af búnaði sem Commerçon tók með í ferðina lét skipstjóri skipsins, François Chenard de la Giraudais, Commerçon og „aðstoðarmann“ hans fá stóru káetuna sína á skipinu.[26] Þetta gaf Barret meira næði en hún hefði annars haft um borð í fjölmennu skipi. Skipstjórakáetan var með einkasalerni þannig að hún þurfti ekki að deila skipsklósetti með öðrum meðlimum áhafnarinnar.

Til viðbótar við útgefna frásögn Bougainville, er saga Barret sögð í þremur öðrum persónulegum heimildum um leiðangurinn: dagbók sem Commerçon og Pierre Duclos-Guyot héldu sameiginlega; dagbók furstans af Nassau-Siegen, sem var farþegi á Boudeuse; og endurminningum François Vivès, sem var læknirinn á Étoile.[27] Vivès hefur mest að segja um Barret, en endurminningar hans eru óáreiðanlegar af því þeir Commerçon voru ósáttir alla ferðina og frásögn hans, sem er að stórum hluta endurskrifuð eftir á, er full af dylgjum og illkvittnum athugasemdum um bæði Commerçon og Barret.[28][29]

Commerçon þjáðist illa af bæði sjóveiki og þrálátu sári á fæti í upphafi ferðarinnar, og Barret eyddi líklega mestu af tíma sínum í að sinna honum. Fyrir utan athöfnina „miðbaugsskírn“, sem Commerçon lýsti í smáatriðum í endurminningum sínum, var lítið fyrir grasafræðing að gera þar til Étoile kom til Montevídeó.[30] Þar lögðu þau af stað í leiðangur um slétturnar og fjöllin í kring. Fótur Commerçon var enn að angra hann og Barret virðist hafa framkvæmt mest af hinni eiginlegu vinnu með birgðir og sýni.[31] Í Rio de Janeiro, mun hættulegri stað þar sem prestur Étoile var myrtur í landi skömmu eftir komu þeirra, var Commerçon fastur á skipinu meðan fóturinn greri, en hann og Barret söfnuðu þó sýnum af blómstrandi klifurjurt sem hann nefndi Bougainvillea.[32]

Eftir aðra heimsókn til Montevídeó var næsta tækifæri þeirra til að safna plöntum í Patagóníu meðan skipin biðu eftir hagstæðri vindátt til að komast gegnum Magellansund. Hér fylgdi Barret Commerçon í erfiðum ferðum yfir illfært landslag og varð þekkt fyrir hugrekki og styrk.[33][34] Commerçon, sem var enn í vandræðum vegna meiðsla á fæti, kallaði Barret „burðardýrið“ í þessum ferðum. Fyrir utan handavinnuna við að safna plöntum, steinum og skeljum, hjálpaði Barret Commerçon að flokka og skrá sýnishorn og athugasemdir næstu vikurnar, meðan skipin sigldu til Kyrrahafsins.

Í frásögnum frá leiðangrinum fer tvennum sögum af því hvenær kyn Barret uppgötvaðist fyrst. Samkvæmt Bougainville hafði heyrst orðrómur um að Barret væri kona í nokkurn tíma, en kyn hennar var ekki staðfest fyrr en leiðangurinn kom til Tahítí í apríl 1768. Um leið og hún og Commerçon lentu á ströndinni umkringdu innfæddir Barret og hrópuðu að hún væri kona. Það þurfti að flytja hana aftur út í skipið til að vernda hana fyrir æstum Tahítíbúum. Bougainville skráði þetta atvik í dagbók sína nokkrum vikum eftir að það gerðist, þegar hann fékk tækifæri til að heimsækja Étoile og tala við Barret í eigin persónu.[35][36]

Í frásögn sinni segir Vivès frá miklum vangaveltum um kyn Barret snemma í ferðinni og fullyrðir að Barret hafi haldið því fram að hún væri geldingur þegar La Giraudais bar það upp á hana (dagbók hans hefur ekki varðveist).[37][38] Frásögn Bougainvilles um afhjúpun Barret á Tahítí er ekki studd öðrum heimildum um leiðangurinn, þó að Vivès lýsi svipuðu atviki þar sem Tahítíbúinn Ahu-toru kallaði Barret konu um borð í skipinu. Vivès lýsir öðru atviki á Nýja-Írlandi um miðjan júlí þar sem Barret var gripin að óvörum, svipt klæðum og „skoðuð“ af hópi annarra þjóna í leiðangrinum. Duclos-Guyot og Nassau-Siegen segja líka frá því að kyn Barret hafi uppgötvast á Nýja-Írlandi, en án þess að nefna smáatriði.[39]

Ahu-toru ferðaðist til Frakklands með leiðangrinum og var síðar yfirheyrður um Barret. Fræðimenn telja nú að Ahu-toru hafi haldið að Barret væri klæðskiptingur eða mahu.[40][41] Hins vegar sögðu aðrir innfæddir á Tahítí frá konu í leiðangri Bougainvilles í síðari heimsóknum til eyjarinnar, meðal annars þegar James Cook kom þangað árið 1769 og Domingo de Bonechea árið 1772, sem bendir til þess að þeir hafi vitað kyn hennar þegar hún heimsótti eyjuna.[42]

Eftir ferðina yfir Kyrrahaf kom matarskortur upp í leiðangrinum. Eftir stutt birgðastopp í Hollensku Austur-Indíum (nú Indónesíu) náðu skipin í lengra stopp á eyjunni Máritíus í Indlandshafi. Eyjan var þá þekkt sem Isle de France og var mikilvæg frönsk verslunarhöfn. Commerçon varð ánægður þegar hann komst að því að gamall vinur hans og samstarfsmaður, grasafræðingurinn Pierre Poivre, var landstjóri á eyjunni, og þau Barret urðu eftir sem gestir hans. Líklega hvatti Bougainville til þessa fyrirkomulags, þar sem það losaði hann við það vandamál að vera með ólöglega konu um borð í leiðangrinum sínum.[43][44]

Á Máritíus hélt Barret áfram að starfa sem aðstoðarmaður og ráðskona Commerçon. Hún fylgdi honum líklega í plöntusöfnun á Madagaskar og Bourbon-eyju árin 1770-1772. Commerçon glímdi áfram við alvarleg heilsufarsvandamál og lést á Máritíus í febrúar 1773. Fjárráð hans á eyjunni höfðu minnkað og vinur hans, Poivre, var snúinn aftur til Parísar. Barret virðist hins vegar hafa komið sér fyrir sjálf og eignaðist hús í Port Louis, höfuðborg Máritíus, árið 1770.[45]

Seinni æviár

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir andlát Commerçon rak Barret krá í Port Louis. Hún var sektuð um 50 pund fyrir að selja áfengi á sunnudegi árið 1773.[46] Þann 17. maí 1774 giftist hún Jean Dubernat, yfirmanni í franska hernum, sem var þar líklega á leið heim til Frakklands.[47][48] Jeanne lagði þó nokkurn heimanmund til hjónabandsins, líklega út af kránni og kannski öðrum viðskiptum sem hún stóð í á eyjunni.[49]

Það eru engar heimildir um það nákvæmlega hvenær Barret og eiginmaður hennar komu til Frakklands og þar með hvenær hnattsiglingu hennar lauk. Líklegast var það einhvern tíma árið 1775. Í apríl 1776 fékk hún peninga sem hún átti að fá samkvæmt erfðaskrá Commerçon, eftir að hafa sótt málið beint til dómsmálaráðherra.[50][51] Eftir það settust þau Dubernat að í heimabæ hans, Saint-Aulaye, Dordogne, þar sem þau keyptu eign með fjármunum Jeanne og bjuggu þar ásamt systkinabörnum hennar.[52]

Árið 1785 fékk Barret lífeyri upp á 200 pund á ári frá franska flotamálaráðuneytinu. Skjalið sem veitti henni lífeyrinn lýsir þeirri virðingu sem hún naut á þeim tíma:

Jeanne Barré sigldi um hnöttinn í dulargervi á einu skipanna sem voru undir stjórn de Bougainville. Hún helgaði sig einkum aðstoð við hr. de Commerson, lækni og grasafræðing, og deildi af miklu hugrekki störfum og áhættum þess fræðimanns. Hegðun hennar var til fyrirmyndar og hr. de Bougainville vísar til þess eins og vera ber ... Hans hátign hefur náðarsamlegast veitt þessari einstöku konu lífeyri upp á tvö hundruð pund á ári úr sjóði fyrir uppgjafarhermenn og þessi lífeyrir skal greiddur frá og með 1. janúar 1785.[53]

Jeanne Barret lést í Saint-Aulaye 5. ágúst 1807, 67 ára að aldri.[54][55]

Solanum baretiae

Commerçon nefndi margar af plöntunum sem hann safnaði eftir vinum og kunningjum. Eina þeirra, háan runna með dökkgrænum laufum og hvítum blómum sem hann fann á Madagaskar, nefndi hann Baretia bonafidia. Nafn Commerçon fyrir ættkvíslina var hins vegar ekki skráð þar sem hún hafði þegar verið nefnd þegar skýrslur hans komu til Parísar. Hún er nú þekkt sem Turraea.[56][57][58] Meira en sjötíu tegundir eru nefndar eftir Commerçon, en aðeins ein, Solanum baretiae, eftir Barret.[59]

Í grasagarði New York-borgar er plöntutegund sem er eignuð Commerçon, en talið er að Barret hafi safnað með honum, í jurtasafninu þeirra.[60]

Árið 2018 nefndi Alþjóðasamband stjarnfræðinga fjallgarð á Plútó eftir henni.[61]

Í mörg ár var dagbók Bougainvilles, sem var vinsæl metsölubók á sínum tíma, eina almennt þekkta uppspretta vitneskju um Barret. Nútímafræðimenn hafa dregið fram frekari heimildir um líf hennar, en mikið af þessum nýju upplýsingum var lítt þekkt og ekki aðgengilegt almenningi, sérstaklega utan Frakklands. Fyrsta ævisaga Barret á ensku, eftir John Dunmore, kom út árið 2002 og þá aðeins á Nýja-Sjálandi. Aðrar greinar birtust í fræðitímaritum.[62]

Ævisaga Barret eftir Glynis Ridley frá 2010, The Discovery of Jeanne Baret, vakti almenna athygli á henni og átti þátt í að leiðrétta ýmsan misskilning um líf hennar.[63] Ævisagan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að reiða sig á ósennilegar getgátur sem eru ekki studdar af heimildum.[56][64] Nýlegar rannsóknir[65][66] franskra vísindamanna hafa gefið nánari upplýsingar um líf Jeanne Barret, eins og til dæmis ný ævisaga eftir Danielle Clode, In Search of the Woman who Sailed the World, gefin út árið 2020. Þann 27. júlí 2020 fagnaði Google 280 ára afmæli hennar með Google Doodle-mynd sem var helguð Barret.[67]

Jeanne Barret er nefnd í skáldsögu Amitav Ghosh frá 2008 Sea of Poppies: Persóna í bókinni, Paulette Lambert, nefnir „Philippe og Jeanne Commerson“ sem frænda sinn og frænku.[68]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dunmore, John (2002), Monsieur Baret: First Woman Around the World, Heritage Press, ISBN 978-0-908708-54-3
  2. Ridley, Glynis (2010), The Discovery of Jeanne Baret, Crown Publisher New York, ISBN 978-0-307-46352-4
  3. Dunmore, p. 12
  4. Ridley, p. 13
  5. Clode, Danielle (2020) In Search of the Woman who Sailed the World, Pan Macmillan, Sydney pp. 21, 27
  6. 6,0 6,1 Dunmore, p. 15
  7. Ridley, p. 162
  8. Dunmore, pp. 11–14
  9. Ridley, pp. 14–16
  10. Ridley, pp. 36–38
  11. Clode p. 36
  12. Clode p. 38
  13. Dunmore, pp. 27–28
  14. Ridley, pp. 38–389
  15. Dunmore, p. 29
  16. Ridley, pp. 40–41
  17. Dunmore, pp. 29–30
  18. Ridley, p. 68
  19. Dunmore, pp. 31–32
  20. Ridley, pp. 51–56
  21. Dunmore, pp. 32, 36
  22. Ridley, p. 57
  23. Ridley, p. 59
  24. Dunmore, p. 43
  25. Ridley, pp. 66–67
  26. Ridley, p. 71
  27. Ridley, p. 4
  28. Dunmore, pp. 53, 56
  29. Ridley, p. 5
  30. Dunmore, pp. 55–67
  31. Dunmore, p. 72
  32. Dunmore, pp. 72–78
  33. Forster, Honore (janúar 2000), „Voyaging Through Strange Seas: Four Women Travellers in the Pacific“ (PDF), NLA News, sótt 21. ágúst 2007
  34. Dunmore, pp. 84–87
  35. Dunmore, pp. 100–101
  36. Salmond, Anne (2010). Aphrodite's Island. Berkeley: University of California Press. bls. 92, 103, 113, 116. ISBN 9780520261143.
  37. Dunmore, p. 59
  38. Ridley, pp. 82–84
  39. Dunmore, pp. 136–138
  40. Dunmore, pp. 96–100
  41. Ridley, pp. 165–169
  42. Anne Salmond, Aphrodite's Island, pp. 164, 255–256
  43. Dunmore, pp. 102, 158–164
  44. Ridley, pp. 205–210
  45. Clode, p. 257
  46. Clode p. 274
  47. Dunmore, pp. 180–182
  48. Ridley, pp. 231–232
  49. Clode, p. 289
  50. Dunmore, pp. 182–185
  51. Ridley, pp. 235–236
  52. Clode p. 376
  53. Dunmore, pp. 185–186
  54. Dunmore, p. 188
  55. Ridley, p. 241
  56. 56,0 56,1 Sandra Knapp, The plantswoman who dressed as a boy, Nature 470, 36–37 (3 February 2011).
  57. Dunmore, p. 168
  58. Ridley, pp. 219–220
  59. Tepe, Eric J.; Ridley, Glynis; Bohs, Lynn (2012). „A new species of Solanum named for Jeanne Baret, an overlooked contributor to the history of botany“. PhytoKeys (8): 37–47. doi:10.3897/phytokeys.8.2101. PMC 3254248. PMID 22287929.
  60. Kiernan, Elizabeth (12. mars 2014). „The Amazing Feat of Jeanne Baret“. Science Talk—NYBG blog. New York Botanical Garden. Sótt 2. september 2018.
  61. IAU. „Gazetteer of Planetary Nomenclature“. Sótt 26. mars 2021.
  62. Schiebinger, Londa (2003), „Jeanne Baret: the first woman to circumnavigate the globe“, Endeavour,. árgangur 27 no. 1, bls. 22–25, doi:10.1016/S0160-9327(03)00018-8, PMID 12642142.
  63. "A Female Explorer Discovered On The High Seas". NPR. 26. desember 2010. Sótt 12. september 2021.
  64. "Incredible Voyage", The Wall Street Journal, 24 January 2011
  65. Maguet, Nicolle, and Sophie Miquel. 2019. "De l'océan Indien aux rives de la Dordogne: le retour de Jeanne Barret après son tour du monde. Jeanne Barret et Jean Dubernat, propriétés et familles en Dordogne et en Gironde." Cahier des Amis de Sainte-Foy 114 (1):15–42.
  66. Miquel, Sophie. 2017. "Les testaments de Jeanne Barret, première femme à fair le tour de la terre, et de son époux périgordin Jean Dubernat." Bulletin de la Société Historique et Archéologique du Périgord 144:771-82
  67. „Jeanne Baret's 280th Birthday“. Google. 27. júlí 2020.
  68. Amitav Ghosh: Sea of Poppies. John Murray 2009 [2008], p. 262.