[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Charrúar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Charrúar voru innfæddir íbúar í Úrúgvæ, sem og landamærahéruðunum í Argentínu og Brasilíu. Þetta var sá þjóðflokkur sem mest kvað að þegar Evrópumenn hófu búsetu í Úrúgvæ samtímans árið 1527. Þjóðinni fækkaði mjög vegna sjúkdóma og hernaðar, en stærsti einstaki atburðurinn var slátrunin í Salsipuedes, 11. apríl 1831, þegar her Úrúgvæ framdi fjöldamorð á Charrúum. Sá atburður lá lengi í þagnargildi í landinu. Í dag er álitið að á bilinu 160 og 300 þúsund manns teljist afkomendur Charrúa, flestir í Úrúgvæ, allnokkur hópur í Argentínu en bara fáeinir Brasilíumenn.

Teikning nítjándu aldar listamanns af Charrúa-herforingja.

Lítið er vitað um sögu og lifnaðarhætti Charrúa fyrir komu Spánverja til landsins, en þeir munu þó hafa verið samfélag safnara og veiðimanna sem flutti sig úr stað eftir veðráttu og veiðivon. Jesúítinn Pedro Lozano sakaði Charrúa um að hafa drepið landkönnuðinn Juan Díaz de Solís á ferð sinni upp Río de la Plata árið 1516, en hann er fyrstur talinn hafa kannað það landsvæði sem er í dag Úrúgvæ. Deilt hefur verið um ásökun klerksins, sem staðhæfði að Charrúar hefðu lagt De Solís sér til munns, en mannát mun ekki hafa tíðkast meðal þjóðarinnar.

Eftir að evrópskir landnemar tóku að setjast að í Úrúgvæ gripu Charrúar til varna, einkum eftir að sívaxandi nautgriparækt fór að þrengja að hefðbundnum lífsháttum þeirra á 18. og 19. öld. Vegna þeirra breytinga neyddust Charrúar sjálfir til að treysta á ræktun búpenings, sem aftur leiddi til árekstra við aðkomuliðið með deilum um jarðnæði og beitarland. Landnemar hikuðu ekki við að drepa innfædda ef þeim sýndist svo og komust upp með það refsilaust.

Þjóðarmorðið

[breyta | breyta frumkóða]
Teikning af eftirlifandi Charrúunum sem sendir voru til Parísar 1833.

Í stjórnartíð Fructuoso Rivera, fyrsta forseta Úrúgvæ, fór verulega að halla undan fæti hjá Charrúum. Þótt forsetinn sjálfur óskaði eftir góðum samskiptum við frumbyggjana þá þrýsti hvíta valdastéttin í landinu á látið yrði sverfa til stáls gegn þeim. Árið 1831 blés forsetinn til La Campaña de Salsipuedes sem samanstóð af þremur herleiðöngrum samtímis. Segir sagan að fyrsta árásin hafi verið griðrof, þar sem forsetinn hafi kallað höfðingja Charrúa til sín í herbúðir sínar, undir því yfirskyni að hann vildi fá þá til liðs við sig. Eftir að hafa fyllt höfðingjana af áfengi, var hermönnum skipað að ráðast á þá. Í kjölfarið var ráðist í kerfisbundna slátrun á öllum Charrúum sem til náðist þann 11. apríl og var útrýmingu þjóðarinnar lýst yfir að því loknu.

Fjórir eftirlifandi Charrúar voru handsamaðir í Salsipuedes. Var hópurinn sendur til Frakklands þar sem talið var vísindamenn þar í landi kynnu að hafa áhuga á síðustu eftirlifandi einstaklingunum af nær horfinni þjóð. Efnt var til opinberra sýninga á fólkinu sem lést eftir skamma dvöl í París.

Látið var heita að Charrúar væru horfnir af yfirborði Jarðar og viðurkenndu stjórnvöld í Úrúgvæ ekki tilveru þeirra hátt á aðra öld. Eftir endalok herforingjastjórnarinnar í landinu árið 1985 hefur þó átt sér stað endurmat á sögunni og sífellt fleiri gangast við Charrúa-rótum sínum. Jafnframt hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að rifja upp og varðveita menningu Charrúa-fólksins. Þær heimildir eru þó afar brotakenndar og einkum fengnar úr skrifum spænskra landafundamanna og fornleifafræðinga.

Þrátt fyrir blóði drifna sögu sína í útrýmingu Charrúa vísa Úrúgvæjar oft til sjálfra sín með því nafni. Þannig er Los Charrúas eitt af gælunöfnum knattspyrnulandsliðsins. Vísar það til þess eiginleika hinnar fornu frumbyggjaþjóðar að gefast ekki upp andspænis ofureflinu.