Yvan Delporte
Yvan Delporte (24. júní 1928 – 5. mars 2007), var belgískur myndasöguhöfundur og -teiknari sem gegndi stöðu ritstjóra teiknimyndablaðsins Svals frá 1955 til 1968, sem var afar gróskumikill tími í sögu fransk-belgísku myndasögunnar Í stað þess að einbeita sér að gerð eigin höfundarverka, kom það yfirleitt í hlut Delporte að aðstoða aðra teiknara og höfunda, auk þess sem hann samdi handrit fyrir ýmsa af kunnari myndasöguflokkum síns tíma.
Ferill
breytaYvan Delporte var ráðinn til Myndasögublaðsins Svals aðeins sautján ára gamall sem teiknari og fékk í fyrstu það verkefni að hylja brjóstaskorur á bandarískum myndasögum, sem gengið hefðu fram af hinum siðprúðu Belgum. Fljótlega beindust kraftar hans þó að öðrum störfum, svo sem að þýða myndasögur úr ensku og að semja sögur fyrir aðra teiknara.
Frá 1953 til 1955 gegndi Delporte samfélagsþjónustu á sjúkrahúsi í stað herþjónustu sem hann neitaði að gegna af samviskuástæðum, en friðarstefnan var alla tíð áberandi í verkum hans. Að því loknu sneri hann aftur til starfa á Myndasögublaðinu Sval. Dupuis, eigandi útgáfunnar, vildi auka skemmtigildi blaðsins og gerði Delporte að ritstjóra, þótt í raun héldi eigandinn yfirritstjórnarvaldinu í sínum höndum. Um svipað leyti var félagi hans Maurice Rosy gerður að listrænum stjórnanda útgáfunnar. Hlutverk Delporte var því að leiðbeina höfundum varðandi söguþráð, persónusköpun og texta meðan Rosy leiðbeindi um sjálfa teikninguna.
Við tók mjög skapandi tímabil þar sem Delporte vann með fjölda listamanna. Frægasta afurð þess samstarfs var Viggó viðutan sem Delporte hjálpaði André Franquin að þróa. Tóku litlar skrítlur með Viggó að birtast á síðum Svals-tímaritsins snemma árs 1957. Tveimur árum síðar fékk Delporte þá hugmynd að láta smámyndasögu fylgja blaðinu, sem lesendur gætu klippt út og brotið saman í lítið kver. Hvatti ritstjórinn Peyo til að semja í þessu skyni sjálfstæða sögu um Strumpana, sem áður höfðu birst sem aukapersónur í sögunum um Hinrik og Hagbarð. Útkoman varð bókin um Svörtu strumpana og kjölfarið heill sagnaflokkur um skógarverurnar.
Árið 1968 var Delporte skyndilega sagt upp störfum hjá Dupuis-fyrirtækinu, en áður hafði komið til ýmissa smááresktra milli hinna borgaralega þenkjandi eigenda fyrirtækisins og hins róttæka og friðelskandi Delportes. Átylla uppsagnarinnar var kvörtun frá Peyo eftir að Delporte hafði í teiknimyndablaðinu gantast með hversu hægt gengi með útgáfu Strumpanna. Peyo varð miður sín yfir að hafa þannig óbeint kostað vin sinn og samstarfsmann vinnuna.
Við tók tímabil lausamennsku þar sem Delporte samdi handrit fyrir fjölda myndasagnateiknara, auk þess að vinna við gerð Strumpamynda fyrir sjónvarp. Árið 1977 grófu Delporte og Dupuis stríðsöxina, þegar honum og Franquin var falin ritstjórn blaðsins Le Trombone Illustré sem innihélt myndasögur sem beindust að eldri lesendum, þar með talið sagnaflokkur Franquins Idées Noirs.
Undir lok níunda áratugarins tók Delporte við ritstjórn nýs myndasgöublaðs, Strumpana, sem Peyo félagi hans stofnaði utan um verk sín. Hann lést árið 2007.