[go: up one dir, main page]

Rosalyn Sussman Yalow

(Endurbeint frá Rosalyn Yalow)

Rosalyn Sussman Yalow (fædd 19. júlí 1921, dáin 30. maí 2011) var bandarískur kjarneðlisfræðingur. Hún er þekktust fyrir að hafa þróað tækni til geislaónæmismælingar (e. radioimmunoassay) á peptíðhormónum, en fyrir það hlaut hún þriðjung af Nóbelsverðlaununum í lífeðlis- og læknisfræði árið 1977 (ásamt þeim Andrew Schally og Roger Guillemin).

Lífvísindi
20. öld
Nafn: Rosalyn Sussman Yalow
Fædd: 19. júlí 1921 í New York-borg í Bandaríkjunum
Látin 30. maí 2011 (89 ára) í New York-borg
Svið: Eðlisfræði, Ónæmisfræði
Markverðar
uppgötvanir:
Geislaónæmismæling (e. radioimmunoassay) á insúlíni og öðrum peptíðhormónum.
Helstu ritverk: Yalow og Berson 1960
Alma mater: Illinois-háskóli í Urbana-Champaign
Helstu
vinnustaðir:
Mount Sinai háskólasjúkrahúsið í New York
Verðlaun og
nafnbætur:
Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði 1977
Vísindaorða bandaríkjaforseta 1988

Geislaónæmismælingin sem Yalow og Solomon Berson þróuðu[1] er afar næm aðferð til magnmælingar á insúlíni eða öðrum mótefnavaka sem byggir á geislarakningu. Þekktu magni af insúlíni sem merkt hefur verið með geislavirkri samsætu af joði er blandað saman við þekkt magn af insúlínbindandi mótefni. Sýninu sem mæla á insúlínmagnið í er svo bætt út í. Ómerkta insúlínið í sýninu keppir nú við geislamerkta insúlínið um bindingu við mótefnið. Bundin mótefni eru þvínæst botnfelld og geislavirkni í flotinu sem eftir verður er mæld í geislamæli. Með samanburði við staðalkúrvu má sjá hversu mikið insúlín var í sýninu.

Aðferð þeirra Yalow og Berson olli byltingu í rannsóknum í innkirtlafræði og ónæmisfræði. Þeim gekk þó illa að fá uppgötvun sína á insúlínbindandi mótefni birtar í viðurkenndum tímaritum[2] því ónæmisfræðingar þess tíma töldu ósennilegt að mótefni gætu bundið svo smá peptíð sem insúlín[3]. Það kom þó fljótt í ljós hve öflug aðferð þeirra Yalow og Berson var, en fram til þess tíma höfðu magnmælingar á insúlíni eingöngu verið óbeinar og skorti mjög á næmni þeirra og áreiðanleik.

Heimildir

breyta
  1. R. S. Yalow og S. A. Berson (1960) „Immunoassay of endogenous plasma insulin in man“ J. Clin. Invest. 39, 1157-1175. pdf
  2. S. A. Berson, R. S. Yalow, A. Bauman, M. A. Rothschild og K. Newerly (1956) „Insulin-I131 metabolism in human subjects: Demonstration of insulin-binding globulin in the circulation of insulin treated subjects“. J. Clin. Invest. 35, 170-190. pdf
  3. D. Gellene (2011) Rosalyn S. Yalow, Nobel Medical Physicist, Dies at 89 The New York Times 1. júní 2011.

Tenglar

breyta