Klassísk heimspeki
Klassísk heimspeki er hugtak sem er stundum notað um það tímabil í fornaldarheimspeki sem nær frá miðri 5. öld f.Kr. til 322 f.Kr. eða frá því að tímabili forvera Sókratesar lýkur og þar til tími hellenískrar heimspeki hefst. Meginheimspekingar þessa tímabils voru Sókrates, Platon og Aristóteles.[1] Einnig mætti telja fræðarana til klassískrar heimspeki en oft eru þeir taldir til forvera Sókratesar. Þeir Sókrates, Platon og Aristóteles voru allir meðal áhrifamestu heimspekinga Grikklands hins forna og einnig meðal áhrifamestu heimspekinga fyrr og síðar í vestrænni heimspeki.[2] Jökull Þór “Vísindavefurinn” 4.1.2007 (skoðað 1.2.2008).</reff ...
Sókrates
breytaSókrates fæddist árið 469 f.Kr. í Aþenu meðan á gullöld Aþenu stóð.[3] Hann skildi ekki eftir sig nein rit en stundaði heimspeki í samtölum við menn á götum úti. Sókrates beindi sjónum sínum einkum að siðfræðilegum spurningum og raunar er oft sagt að hann hafi verið fyrstur til að stunda eiginlega siðfræði. Margir helstu hugsuða Aþenu urðu lærisveinar hans (þó svo að hann hafi sjálfur sagt að hann hefði enga lærisveina). Meðal þeirra voru Xenofon, Platon, Æskínes og Alkibíades. Sókrates var tekinn af lífið árið 399 f.Kr. eftir að hafa verið dæmdur sekur um guðlast og að spilla æskulýðnum.
Heimildir um Sókrates
breytaAf því að Sókrates skildi ekki eftir sig nein rit er nauðsynlegt að styðjast við endursögn annarra á heimspeki hans. Meginheimildirnar eru rit Platons og Xenofons en brot eru varðveitt úr ritum Æskínesar og ævisaga Sókratesar er varðveitt hjá Díogenesi Laertíosi, rituð á ofanverðri 2. öld e.Kr. Sókrates kemur einnig fyrir í leikritinu Skýjunum eftir Aristófanes.[4] Platon, sem er mikilvægasta heimildin, notar Sókrates sem persónu í samræðum sínum þar sem hann setur fram sínar eigin kenningar. Að greina á milli skoðana Sókratesar og Platons getur því verið vandasamt.[5] Þetta er stundum nefnd „sókratíski vandinn“. Almennt er þó talið að eldri samræður Platons endurspegli frekar heimspeki Sókratesar en yngri samræður. Sökum þessa er samanburður á ritum Platons og Xenofons mikilvægur en skilningur Xenofons virðist mun grynnri.
Aðferð og heimspeki Sókratesar
breytaAf elstu samræðum Platons að dæma virðist sem Sókrates hafi haft sérkennilega aðferð við að stunda heimspeki.[6] Hin sókratíska aðferð, sem svo hefur verið kölluð eftir aðferð Sókratesar í leit að svörum við spurningum sínum, felst í því að spyrja viðmælanda sinn spurninga og leiða í ljós mótsagnir í skoðunum hans. Með þessari aðferð fékk Sókrates fólk til að átta sig á hvað er rangt við sannfæringu þeirra (eða rétt) og hversu lítið (eða mikið) það raunverulega veit. Með þessu sagðist hann fæða visku hjá fólki og kallaði sig því „ljósmóður viskunar“. Sjálfur þóttist Sókrates ekkert vita um þau mál sem rædd voru, þótt óneitanlega virðist hann hafa mun betri skilning á umfjöllunarefninu en viðmælendur hans. Þessi ólíkindalæti eru nefnd „sókratísk írónía“. Vegna sókratíska vandans fara margir fræðimenn varlega í að eigna Sókratesi heimspekilegar kenningar. Flestum ber þó sama um að Sókrates hafi haldið tvennu fram: annars vegar að dygð væri þekking og hins vegar að enginn væri vísvitandi illur.
Það sem átt er við með að dygð sé þekking er einfaldlega að það að vera dygðugur sé fólgið í því að búa yfir ákveðinni þekkingu; sá sem býr yfir visku er, samkvæmt þessari kenningu, dygðugur. Hjá Platoni gengur þessi kenning aftur sem kenning um einingu dygðanna. Með því að segja að enginn sé vísvitandi illur hafnaði Sókrates hugmyndum um breyskleika, þ.e. hann hafnaði þeirri hugmynd að maður gæti vitað hvað er gott en samt valið það sem er illt; sá sem velur það sem er illt gerir það af því að hann veit ekki betur og telur sig vera að velja það sem er gott.
Platon
breytaPlaton fæddist í Aþenu árið 427 f.Kr.[7] Hann varð gríðarlega áhrifamikill heimspekingur þegar í lifanda lífi. Platon var nemandi Sókratesar. Hann var ungur maður þegar Pelópsskagastríðinu lauk og hann varð vitni að miklum sviptingum í aþenskum stjórnmálum. Hann sá harðstjórn komast til valda að stríðinu loknu og loks lýðræðislega stjórn taka við af harðstjórninni. Það var lýðræðisstjórnin sem lét taka Sókrates af lífi. Aftaka han fékk mjög á Platon. Hann yfirgaf Aþenu og ferðaðist um Grikkland og víðar. Þegar hann sneri aftur stofnaði hann skóla í útjaðri Aþenu, Akademíuna. Hann var mikilvirkur rithöfundur og um 30 rit hafa varðveist eftir hann. [8] Platon varð aldraður maður en hann lést árið 347 f.Kr. áttræður.
Heimspeki Platons
breytaPlaton var ekki einungis undir áhrifum frá Sókratesi, heldur einnig öðrum grískum heimspekingum, þar á meðal Herakleitosi, Parmenídesi og pýþagóringum.
Frægasta kenning Platons er frummyndakenningin. Platon taldi efnisheiminn vera lélega eftirlíkingu af óbreytanlegum óhlutbundnum frummyndum sem eru utan tíma og rúms og verða ekki skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu.[9] Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt verðandi og er aldrei neitt. Af því að þær eru í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er einungis viðfang brigðulla skoðana. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki í heimspeki Platons. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en meðal frummyndanna ríkir stigskipting og efst trónir frummynd hins góða. sem alllir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í. Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, meðal annars Fædoni, Ríkinu, Samdrykkjunni, Parmenídesi og Tímajosi
Platon taldi að sálin væri ódauðleg og endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu.[10] Líkamanum er lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann notaði m.a. til að útskýra breyskleika. Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, löngun og skap. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu en löngunin leitar eftir ánægju í formi matar, drykkjar og kynlífs.[11]
Platon setti fram eina fyrstu útgáfu af samfélagssáttmálakenningu í vestrænni heimspeki í ritinu Krítoni. Samfélagssáttmálakenningar um undirstöður ríkisvalds urðu áhrifamiklar í nýaldarheimspeki hjá höfundum eins og Thomasi Hobbes, John Locke og Jean-Jacques Rousseau. En þekktasta stjórnspekikenning Platons er hugsjón hans um fyrirmyndarríkið sem sett er fram í Ríkinu.[12] Platon hafði litla trú á lýðræði. Hann taldi að rétt eins sérfræðingar ættu að ráða í þeim málum sem þeir hafa sérfræðiþekkingu á rétt eins og skynsemin ætti að ríkja yfir skapi og löngunum ættu heimspekingar að ráða yfir ríkinu. Meðal heimspekinganna eru bæði konur og karlar sem eiga að baki langt nám í heimspeki og öðrum greinum, sem eru eignalaus og hafa enga eiginhagsmuni. Seinna snerist Platoni hugur og í Stjórnvitringnum og Lögunum kemur fram önnur sýn á stjórnmál. Þar virðist Platon hafa öðlast aðeins meiri trú á lýðræði og virðist telja hana illskásta kostinn, ekki síst vegna þess að þótt góður og upplýstur einvaldur væri betri stjórnandi væri allt of mikil hætta á að sitja uppi með slæman einvald.
Aristóteles
breytaAristóteles fæddist árið 384 f.Kr. í borginni Stageiru.[13] Hann fór sautján ára gamal til Aþenu og hóf nám í Akademíu Platons en varð seinna kennari þar. Eftir að Platon lést yfirgaf Aristóteles Aþenu. Hann var um tíma einkakennari Alexanders mikla. Síðar sneri hann aftur til Aþenu og stofnaði skólann Lýkeion. Eftir dauða Alexanders árið 323 f.Kr. taldi hans sér ekki lengur vært í Aþenu. Hann yfirgaf borgina öðru sinni en lést ári síðar úr veikindum.
Aristóteles er, ásamt Platoni, af mörgum talinn áhrifamesti hugsuður í vestrænni heimspeki. Hann var einnig mikilvirkur vísindamaður og fékkst við flestar greinar vísinda síns tíma. Hann skrifaði fjölmargar bækur meðal annarsum rökfræði (fræðigrein sem hann fann upp), verufræði og frumspeki, eðlisfræði, sálfræði, líffræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, dýrafræði, grasafræði, veðurfræði, mælskufræði, skáldskaparfræði, siðfræði, stjórnmálafræði, hagfræði og sögu heimspekinnar fram að sínum tíma.
Heimspeki Aristótelesar
breytaFræðimenn eru ekki allir á einu máli um hvernig heimspeki Aristótelesar þróaðist.[14] Sumir telja að hann hafði í upphafi verið undir meiri áhrifum frá Platoni en hafi síðar orðið ósammála læriföður sínum um flest. Aðrir telja að Aristóteles hafi í upphafi verið um flest á öndverðum meiði við Platon en hafi með tímanum orðið æ meira sammála honum.
Aristóteles aðhylltist ekki frummyndakenninguna en hann gagnrýnir hana harkalega víða í ritum sínum. Frumspeki hans byggðist hugmyndinni um verund og eiginleika.[15] Í Umsögnum segir Aristóteles að verund sé það sem er ekki sagt um neitt annað. Eiginleikar eru hins vegar umsagnir verunda. Auk greinarmunarins á verundum og eiginleikum liggur greinarmunurinn á formi og efni til grundvallar allri frumspeki Aristótelesar. Ítarlegasta rannsókn Aristótelesar á verundum er í 7. bók Frumspekinnar. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að verund sé eining forms og efnis. Efnið er megund verundarinnar en formið er raungerving hennar.
Siðfræði Aristótelesar var kerfisbundin dygðasiðfræði. Í mikilvægasta riti sínu um siðfræði Siðfræði Níkomakkosar gerir Aristóteles ítarlega grein fyrir eðli dygðarinnar og ræðir samband dygðar og hamingju eða farsældar. Aristóteles færði rök fyrir því að dygð væri meðalhóf tveggja lasta; til dæmis væri hugrekki meðalvegur hugleysis og fífldirfsku. Hann taldi að dygðin væri nauðsynleg forsenda farsældar en þó ekki nægjanleg. Í siðfræði Aristótelesar liggur áherslan ekki á athöfnum manna heldur skapgerð þeirra, ekki á því hvað þeir gera í tilteknum aðstæðum, heldur hvernig menn þeir eru. Dygðafræði Aristótelesar hvílir á sálarfræði hans og greiningu hans á sálarlífi manna, ttil dæmis löngunum og skapi, hvötum og breyskleika, skynjun, skynsemi og tilfinningum.
Aðrir heimspekingar í klassískri heimspeki
breytaSókrates, Platon og Aristóteles voru ekki einu heimspekingar þessa tíma. Auk þeirra voru að störfum aðrir heimspekingar innan Akademíunnar og annarra skóla, svo sem pýþagóringar, hundingjar, kýreningar og megaringar.
Pýþagóringar
breytaPýþagóringar voru fylgjendur heimspekingsins og stærðfræðingsins Pýþagórasar sem var uppi á 6. öld f.Kr. Skóli þeirra var hálfgerð leyniregla með trúarlegu ívafi. Á tíma klassískrar heimspeki var heimspekingurinn Fílolás meginheimspekingur skólans. Í samræðunni Fædoni eftir Platon er gefið í skyn að tveir viðmælendur Sókratesar, Simmías og Kebes, hafi verið nemendur hans. Meðal annarra pýþagóringa þessa tíma má nefna Arkýtas frá Tarentum, Híketas og ef til vill Tímajos frá Lókrí.
Hundingjar
breytaUpphafsmaður hundingjastefnunnar var heimspekingurinn Antisþenes (444 – 365 f.Kr.) sem verið hafði vinur og nemandi Sókratesar. Stefnan fól í sér meinlætalíf róttæka höfnun á félagslegum gildum. Hundingjar gerðu oft sitt ítrasta til að hneyksla fólk og stunduðu meðal annars sjálfsfróun á almannafæri. Þeir hvöttu fólk til að láta laust hið dýrslega í sér. Frægastur hundingjanna er sennilega Díogenes hundingi sem bjó í tunnu. Meðal annarra hundingja voru Krates, Demetríos og Demonax.
Hundingjar höfðu mikil áhrif á Zenon frá Kítíon, upphafsmanns stóuspekinnar og aðra stóumenn, svo sem Epiktetos.
Kýreningar
breytaKýreningar voru róttækir nautnahyggjumenn. Stefnan er nefnd eftir fæðingarstað Aristipposar (435 – 366 f.Kr.), upphafsmanns hennar, en hann fæddist í borginni Kýrenu í Norður-Afríku (þar sem Lýbía er nú). Aristippos hafði einnig verið fylgismaður Sókratesar en heimspeki hans var afar frábrugðin heimspeki Sókratesar og annarra nemenda hans. Kýreningar töldu að ánægja væri æðst gæða og lögðu áherslu á líkamlega ánægju umfram andlega ánægju sem hlýst til dæmis af ástundum lista eða ræktun vináttu. Þeir höfnuðu einnig að skynsamlegt væri að fresta eða takmarka eftirsókn eftir líkamlegri ánægju á líðandi stundu vegna langtímasjónarmiða.
Kýreningar töldu að mannlegri þekkingu væru þröngar skorður settar. Þeir töldu að einungis væri hægt að þekkja eigin upplifanir hverju sinni, til dæmis að á ákveðnu augnabliki fyndi maður sætt bragð, en að ekkert væri hægt að vita um orsakir þess sem maður skynjar, til dæmis að hunang sé sætt á bragðið.
Megaringar
breytaSkóli Megaringa var stofnaður af heimspekingnum Evklíð frá Megöru, sem var sagður hafa verið nemandi Sókratesar. Hann var einnig undir áhrifum frá Parmenídesi frá Eleu. Megaringar voru þekktir fyrir rökfræði sína en fengust lítið við siðfræði. Helsti heimspekingur megaringa eftir að Evkllíð féll frá var Evbúlídes frá Míletos sem tók þá við stjórn skólans. Hann mun fyrstur hafa sett fram þverstæðu lygarans
Akademískir heimspekingar
breytaMerkustu heimspekingar Akademíunnar, auk Platons og Aristótelesar, voru Spevsippos, Xenokrates, Evdoxos og Herakleides frá Pontos. Flestir heimspekingar Akademíunnar voru einhvers konar platonistar en einnig undir áhrifum frá pýþagórískri heimspeki og megaringum. Spevsippos var frændi Platons og eftirmaður hans sem stjórnandi Akademíunnar. Hann er sagður hafa hafnað frummyndakenningu Platons. Xenokrates tók við stjórn Akademíunnar eftir Spevsippos. Hann hafði áður verið nemandi Æskínesar. Xenokrates fylgdi kenningum Platons mun meira en Spevsippos. Sagt er að Xenokrates hafi fyrstur skipt heimspekinni í þrjú svið: rökfræði, frumspeki og siðfræði. Evdoxos tók við stjórn Akademíunnar eftir Xenokrates. Hann var framúrskarandi stærðfræðingur en fékkst einnig við heimspeki og stjörnufræði. Hann nam stærðfræði hjá Arkýtasi en lagði sjálfur grunninn að stærðfræði síðari tíma stærðfræðinga, til dæmis Þeódósíosar og Evklíðs. Herakleidesi frá Pontos gæti hafa verið fyrstur til að setja fram sólmiðjukenningu. Hann fékkst einnig við stærðfræði, heimspeki, mælskufræði, málfræði, sagnfræði og tónlist.
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ Inngang að klassískri heimspeki er að finna hjá Cristopher Shields, Classical Philosophy: A Contemporary Introduction (London: Routledge, 2003).
- ↑ Sjá t.d. Geir Þ. Þórarinsson, „Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum? Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 18.8.2005. (Skoðað 6.2.2007) og Geir Þ. Þórarinsson, „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?[óvirkur tengill]“ Vísindavefurinn 8.6.2006. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Greinargóða kynningu á Sókratesi er að finna hjá C.W.W. Taylor, Socrates: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2001).
- ↑ Leikritið var upphaflega sett á svið árið 423 f.Kr. en endurskoðuð útgáfa af því frá árinu 416 f.Kr. er varðveitt; Sókrates á að hafa andmælt að sýningu lokinni.
- ↑ Sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi? Geymt 17 desember 2005 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 14.9.2005. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Um Sókrates í ritum Platons, sjá Thomas C. Brickhouse og Nicholas D. Smith, Plato's Socrates (Oxford: Oxford University Press, 1995).
- ↑ Um ævi Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hver var Platon? Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 31.8.2005. (Skoðað 6.2.2007). Stutta en greinargóða almenna kynningu á Platoni er að finna hjá Juliu Annas, Plato: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2003). Sjá einnig „Plato“ í Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um rit Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hver eru helstu ritverk Platons? Geymt 30 desember 2005 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 26.9.2005. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Um frummyndakenninguna, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól? Geymt 3 febrúar 2006 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 19.9.2005. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Ódauðleiki sálarinnar er ræddur í ritinu Fædon. Um platonska sálarfræði, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?[óvirkur tengill]“ Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?[óvirkur tengill]“ Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007). Kenningin um þrískiptingu sálarinnar er sett fram í Ríkinu.
- ↑ Um stjórnspeki Platons, sjá Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?[óvirkur tengill]“ Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Um Aristóteles, sjá Ólaf Pál Jónsson, „Hver var Aristóteles? Geymt 21 apríl 2005 í Wayback Machine“ Vísindavefurinn 21.6.2004. (Skoðað 6.2.2007).
- ↑ Greinargott yfirlit yfir heimspeki Aristótelesar er að finna í J.L. Ackrill, Aristotle the Philosopher (Oxford: Clarendon Press, 1981) og J. Barnes, Aristotle: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2000). Ítarlegri umfjöllun er að finna hjá Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy, Vol 6: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981) og Jonathan Lear, Aristotle: The Desire to Understand (Cambridge: Cambridge University Press, 1988).
- ↑ Um frumspeki Aristótelesar, sjá „Aristotle's Metaphysics“ í Stanford Encyclopedia of Philosophy.
Tenglar
breytaAlmennt
breytaSókrates
breyta- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Socrates“
- „Hvenær var Sókrates uppi og hverjir voru foreldrar hans?“. Vísindavefurinn.
- „„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit." Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?“. Vísindavefurinn.
- „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?“. Vísindavefurinn. (fyrra svar)
- „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?“. Vísindavefurinn. (seinna svar)
Platon
breyta- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Plato“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Plato's Ethics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Friendship and Eros“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Middle Period Metaphysics and Epistemology“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Plato on Utopia“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Rhetoric and Poetry“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Plato“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Plato's Political Philosophy“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Plato's Theaetetus“
- „Hver var Platon?“. Vísindavefurinn.
- „Hver eru helstu ritverk Platons?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi?“. Vísindavefurinn.
- „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?“. Vísindavefurinn.
- „Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?“. Vísindavefurinn.
- „Hafa rit Platons og Aristótelesar verið útbreidd og þekkt frá því þau voru skrifuð?“. Vísindavefurinn.
- „Hvaða áhrif höfðu kenningar Platons á aðra heimspekinga, vísindamenn og fólk almennt?“. Vísindavefurinn.
Aristóteles
breyta- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Ethics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Logic“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Metaphysics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Political Theory“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Psychology“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle's Rhetoric“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle and Mathematics“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: General Introduction“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Biology“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Ethics“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Metaphysics“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Motion and Its Place in Nature“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Poetics“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Aristotle: Politics“
- Verk Aristótelesar í enskri þýðingu Geymt 10 febrúar 2007 í Wayback Machine
- „Hver var Aristóteles?“. Vísindavefurinn.
- „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum?“. Vísindavefurinn.