[go: up one dir, main page]

Heimspeki 17. aldar

[edit]
Saga vestrænnar heimspeki
Fornaldarheimspeki
Forverar Sókratesar
Klassísk heimspeki
Hellenísk heimspeki
Rómversk heimspeki
Heimspeki síðfornaldar
Miðaldaheimspeki
Skólaspeki
Heimspeki endurreisnartímans
Heimspeki 15. aldar
Heimspeki 16. aldar
Nýaldarheimspeki
Heimspeki 17. aldar
Heimspeki 18. aldar
Heimspeki 19. aldar
Heimspeki 20. aldar
Rökgreiningarheimspeki
Meginlandsheimspeki
Heimspeki samtímans

Heimspeki 17. aldar er almennt talin marka upphaf nútímaheimspeki og endalok miðaldaheimspekinnar og skólaspekinnar enda þótt stundum séu síðustu tvær aldir þess tíma taldar marka sérstakt tímabil í sögu heimspekinnar og nefndar heimspeki endurreisnartímans. Enn fremur eru 17. og 18. öldin stundum taldar til „upplýsingartímans“ og er þá talað um heimspeki upplýsingarinnar sem tók við af heimspeki endurreisnarinnar.

Yfirlit

breyta

Í sögu vestrænnar heimspeki er nútíminn oft talinn hefjast á 17. öld — nánar tiltekið með skrifum René Descartes, sem mótaði að verulegu leyti stefnu heimspekilegrar orðræðu og heimspekilega aðferðafræði. Ein meginbreytingin var fólgin í aukinni áherslu á þekkingarfræði á kostnað frumspekinnar. Tímabilið einkennist ekki síst af tilraunum til þess að setja fram heildstæð heimspekikerfi — heimspekingar reyndu að setja fram heimspekikerfi sem í senn næðu yfir þekkingarfræði, frumspeki, rökfræði og siðfræði og jafnvel stjórnspeki og náttúruvísindi einnig.

þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (17241804) greindi forvera sína í tvær meginfylkingar: rökhyggjumenn og raunhyggjumenn. Nútímaheimspeki, einkum á 17. og 18. öld, er oft lýst sem átökum milli þessara tveggja fylkinga. Greiningin er þó einföldun og tímaskekkja að því leyti að heimspekingarnir sem um ræðir litu ekki á sig sem annaðhvort raunhyggju- eða rökhyggjumenn.

Þrátt fyrir að vera ef til vill að einhverju leyti villandi hefur greiningin þótt þægileg til að lýsa áherslumun og meginviðhorfum heimspekinga á 17. og 18. öld og er enn víða notuð. Megin rökhyggjumennirnur eru venjulega taldir vera Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Wilhelm Leibniz. Megin raunhyggjumennirnir eru taldir vera John Locke, George Berkeley og David Hume en mikilvægir forverar þeirra voru Francis Bacon og Thomas Hobbes. Athygli vekur að megin rökhyggjumennirnir voru allir af meginlandi Evrópu en raunhyggjumennirnir frá enskumælandi löndum. Sumir hafa því viljað rekja rót skiptingar 20. aldar heimspeki í meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki til þessa tíma; slík söguskýring er umdeilanleg og líklega nokkur ofureinföldun, enda þótt bresk heimspekihefð hafi verið snar þáttur í rökgreiningarheimspekinni.

Stundum er sagt að deilan milli rökhyggju- og raunhyggjumanna hafi snúist um tilvist „áskapaðra hugmynda“. Rökhyggjumennirnir töldu að skynsemin ein nægði, að minnsta kosti kenningu samkvæmt ef ekki í reynd, til að afla allrar þekkingar. Raunhyggjumennirnir höfnuðu þessu og töldu að öll þekking yrði til með skynreynslu. Rökhyggjumenn litu til stærfræðinnar sem fyrirmyndar þekkingar en raunhyggjumennirnir litu frekar til náttúruvísindanna.

Til grundvallar greiningar Kants liggur áherslan á þekkingarfræði. Sé litið á hina ýmsu heimspekinga þessa tíma út frá frumspeki þeirra, siðfræði eða málspeki gæti skiptingin verið allt öðruvísi. Jafnvel þótt þekkingarfræðin sé lögðtil grundvallar má deila um skiptinguna: til dæmis féllust flestir rökhyggjumannanna á að í reynd yrðum við að reiða okkur á raunvísindin til að afla þekkingar á ytri heiminum; margir þeirra fengust við slíkar vísindarannsóknir. Raunhyggjumennirnir, á hinn bóginn, féllust almennt á að a priori þekking væri möguleg í stæðrfræði og rökfræði og af meginmálsvörum raunhyggjunnar hafði einungis Locke formlega þjálfun í raunvísindum.

Stjórnspekin blómstraði einnig á þessum tíma. Thomas Hobbes gaf út ritið Leviathan og Locke gaf út Tvær ritgerðir um ríkisvald (Two Treatises of Government).

Aðskilnaður heimspekinnar og guðfræðinnar varð endanlegur á 17. öld. Heimspekingar ræddu enn um guð — og rökstuddu jafnvel tilvist guðdómsins — en nú var rökræðan á heimspekilegum forsendum og ekki í þjónustu guðfræðinnar. Í kjölfarið minnkaði svo áhugi heimspekinga á trúarheimspeki verulega.

Meginheimspekingar 17. aldar

breyta