Kalda stríðið
Kalda stríðið er hugtak notað um tímabilið um það bil á milli áranna 1947-1991 sem einkenndist af efnahagslegri, vísindalegri, listrænni og hernaðarlegri samkeppni á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og bandamanna þeirra. Bæði stórveldin stóðu fyrir stofnun hernaðarbandalaga. Hugmyndafræði sitt hvors var stillt upp sem andstæðum. Bæði stórveldin stunduðu njósnir um hitt; hernaðaruppbyggingu, iðnaðar- og tækniþróun, þar á meðal geimkapphlaupið. Miklum fjármunum var varið til varnarmála, sem leiddi til vígbúnaðarkapphlaups og kjarnorkuvæðingar. Ekki kom til beinna hernaðarátaka milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, þó stundum skylli hurð nærri hælum, en bæði ríkin tóku beint og óbeint þátt í styrjöldum bandamanna sinna um allan heim sem urðu þá eins konar leppstríð milli þeirra.
Uppruni hugtaksins
breytaBreski rithöfundurinn George Orwell notaði hugtakið „Kalt stríð“ í ritgerð í breska dagblaðinu Tribune árið 1945. Í Bandaríkjunum var það fyrst notað árið 1947 af Bernard Baruch og Walter Lippmann til þess að lýsa aukinni spennu milli stórveldanna tveggja í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.[1] Hugmyndin var sú að „sigurvegarinn“ myndi sýna fram á yfirburði síns pólitísks kerfis, annars vegar kommúnisma Sovétríkjanna og hins vegar frjáls markaðsbúskaps Bandaríkjanna.
Kalda stríð 20. aldar
breytaEnda þótt Bandaríkin og Sovétríkin hafi verið bandamenn undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar voru uppi afar ólíkar hugmyndir um skipan mála eftir stríðið. Dagana 4.-11. febrúar 1945 hittust þjóðhöfðingjar Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Bretlands; Franklin D. Roosevelt, Jósef Stalín og Winston Churchill á Jaltaráðstefnunni og réðu ráðum sínum. Niðurstaðan varð sú að Þýskalandi yrði skipt á milli stórveldanna í þrjú svæði og Berlín, sem var staðsett á yfirráðasvæði Sovétríkjanna, var einnig skipt þannig (seinna urðu þau fjögur þegar Frakklandi var úthlutað landsvæði í Suðvestur-Frakklandi).
Austur-Evrópa var á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Í frægri ræðu í mars 1946 komst Winston Churchill þannig að orði að „Járntjald“ skipti Evrópu í tvennt. Vegna bágs efnahagsástands í Bretlandi sáu þarlend stjórnvöld ekki fram á að geta veitt Grikkjum og Tyrkjum áframhaldandi efnahagsaðstoð. Af þeim völdum setti þáverandi forseti Bandaríkjanna fram nýja utanríkisstefnu ári 1947 kennda við hann, Truman-kenninguna. Með henni skuldbatt hann Bandaríkin til þess að veita Tyrklandi og Grikklandi fjárhagsaðstoð til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnisma.
Á næstu áratugum breiddist spennan út frá Evrópu til allra heimshorna. Bandaríkin leituðust við að halda útbreiðslu kommúnisma í skefjum. Sú utanríkisstefna Bandaríkjanna var nefnd Truman-kenningin, kennd við Harry S. Truman, forseta Bandaríkjanna, og fólst hún í því að Bandaríkin stofnuðu til stjórnmálasambands og bandalaga í Vestur-Evrópu, Mið-Austurlöndum og Suðaustur-Asíu. Bandaríkjamenn áttu frumkvæðið að Marshallaðstoðinni, sem hófst árið 1948 og stóð í um fimm ár. Sú áætlun var í formi efnahagslegrar aðstoðar handa stríðshrjáðum löndum Vestur-Evrópu svo þau mættu skjótar vinna sig upp úr örbirgð og tryggja þannig stöðugleika í álfunni. Að sama skapi komu þau að stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO), hernaðarbandalags sem var stofnað 1949. Hinum megin Járntjaldsins var Varsjárbandalagið stofnað 1955.
Oft lá við styrjöld milli heimsveldanna tveggja, til dæmis í Kóreustríðinu (1950-1953), Kúbudeilunni (1962) og Víetnamstríðinu (1964-1975). Ógninni um gagnkvæma gereyðingu af völdum kjarnorkuvopna var beitt til að fæla andstæðinginn frá því að gera árás, samanber ógnarjafnvægi. Einnig komu tímabil þar sem spennan minnkaði og báðir aðilar leituðust við að draga frekar úr henni, til dæmis með SALT-samningum um fækkun kjarnaodda í vopnabúrum stórveldanna.
Kalda stríðið fjaraði út á níunda áratugnum í kjölfar baráttu fyrir auknum borgaralegum réttindum í Póllandi og umbótastefnu Mikhaíls Gorbatsjev, perestroika og glasnost. Sovétríkin slökuðu á haldi sínu á Austur-Evrópu og Sovétríkin sjálf liðuðust í sundur árið 1991.
Tilvísanir
breyta- ↑ Fred Halliday, „Cold War“, hjá Joel Krieger (ritstj.), The Oxford Companion to the Politics of the World 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 2001).