Friðarsúlan
64°9′47.66″N 21°51′34.08″V / 64.1632389°N 21.8594667°V
Friðarsúlan (enska: Imagine Peace Tower) er útilistaverk eftir Yoko Ono reist í Viðey í Kollafirði til að heiðra minningu látins eiginmanns listakonunnar, John Lennons. Listaverkið var vígt á afmæli Johns Lennons þann 9. október 2007. Friðarsúlan er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði, sem hófst á sjöunda áratug 20. aldar. Ono segist hafa fengið hugmyndina að „friðarsúlu“ árið 1967. Á stalli súlunnar eru grafin orðin „hugsa sér frið“ eða „imagine peace“ á 24 tungumálum, þar á meðal á íslensku, ensku, þýsku, japönsku og hebresku. Enska heitið er vísun í lagið „Imagine“ eftir John Lennon.
Umhverfislistaverkið Áfangar eftir Richard Serra er annað stórt útilistaverk eftir þekktan erlendan listamann í Viðey. Það var sett upp árið 1990.[1]
Uppbygging
breytaFriðarsúlan er ljóskastari, sem lýsir upp í himininn, listaverkið er þannig hannað að 6 ljósgangar liggja lárétt í jörðinni að ljósbrunninum þar sem þeir falla á spegla sem halla í 45° og varpa því ljósinu lóðrétt upp í loftið. Í botni ljósbrunnsins, sem er 4 metrar að þvermáli og 2 metra hár, eru einnig aflmiklar ljósaperur, fylltar Xenon-gasi, sem beinast upp á við. Samanlagt ljósafl er 70 kW.
Bygging friðarsúlunnar var fjármögnuð af Yoko Ono, Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur, sem einnig greiðir rekstrarkostnað.
Lýsing
breytaFriðarsúlan logar samfellt frá sólarlagi til miðnættis eftirtalin tímabil:
- 9. október (fæðingardagur Lennons) til 8. desember (dánardagur Lennons)
- gamlársdagur til þrettánda
- í eina viku kringum jafndægur á vori.
Eins er mögulegt, við sérstök tilefni, að fá leyfi hjá listakonunni til að kveikja á friðarsúlunni.
Ljóssúlan greinist í vel yfir 100 km hæð en ljósdreifing frá henni er mismunandi eftir hæð og eykst þegar ofar dregur.[2]
Gagnrýni
breytaÁrið 2024 var ráðist í endurbætur á verkinu með nýjum ljósabúnaði sem gerði að verkum að ljósgeislinn varð skærari og stöðugri en áður. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, gagnrýndi endurbæturnar fyrir að auka óþarfa ljósmengun. Skúli Helgason formaður íþrótta-, menningar- og tómstundaráðs borgarinnar svaraði með því að boðskapur verksins ætti sérstakt erindi við fólk í dag og að „við getum vel þolað það að friðarsúlan skíni bjartar“.[3]
Orðin á mismunandi tungumálum
breytaOrðin á súlunni eru rituð á 24 tungumálum. Að neðan er listi með þýðingum (listinn er ekki tæmandi):
Tilvísanir
breyta- ↑ „Richard Serra: Áfangar“. Listasafn Reykjavíkur. 21.05.2015.
- ↑ Ari Ólafsson (11.10.2021). „Hversu langt upp í himininn drífur ljósið frá friðarsúlunni í Viðey?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (31.8.2024). „Blæs á gagnrýni á bjartari Friðarsúlu“. Vísir.is.