[go: up one dir, main page]

Ejnar Munksgaard – (28. febrúar 18906. janúar 1948) – var danskur athafnamaður, bóksali og útgefandi. Hann var brautryðjandi í útgáfustarfsemi, ekki síst ljósprentun handrita.

Æviágrip

breyta

Foreldrar hans voru Ole Nielsen Munksgaard (1858–1935) og Ane Kristine Lucie Magdalene, fædd Lauritzen (1859–1918).

Ejnar Munksgaard fæddist og ólst upp í Vébjörgum (Viborg) á Jótlandi. Hugur hans beindist snemma að verslun með bækur, og til þess að undirbúa sig fór hann um tvítugt til Þýskalands, Frakklands og Sviss og vann þar í sjö ár í þekktum bókabúðum. Árið 1917 kom hann til Kaupmannahafnar, tók upp samstarf við fornbókasalann Otto Levin (1878–1933) og gerðist meðeigandi í verslun hans, sem hlaut nafnið Levin og Munksgaard. Þeir færðu fljótt út kvíarnar og fluttu verslunina árið 1925 á Nørregade, í grennd við háskólann. Þar var stór bókaverslun fyrir háskólasamfélagið, fornbókasala í kjallaranum og vísindalegt bókaforlag.

Otto Levin dó árið 1933, og keypti Munksgaard þá hlut hans í fyrirtækinu. Með tímanum varð það stórfyrirtæki á sviði bókaverslunar og fræðilegrar útgáfustarfsemi. Meðal Íslendinga varð Munksgaard þekktastur fyrir tvö metnaðarfull verkefni: Ljósprentun íslenskra skinnhandrita í ritröðinni Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi og ljósprentun gamalla prentaðra bóka, Monumenta Typographica Islandica. Þetta var þó aðeins lítill hluti af útgáfustarfsemi hans, því að hann gaf einnig út ritraðir með fornum sænskum (Corpus Codicum Svecicorum Medii Aevi) persneskum og býsönskum handritum, auk fjölda vísindalegra tímarita, svo sem Acta philologica, Acta archæologica, Acta ethnologica og Acta linguistica. Fornbókaverlsun Munksgaards var einnig umsvifamikil og seldi marga íslenska dýrgripi, t.d. Jónsbók, Hólum 1578, eintak prentað á pergament, sem Landsbókasafn keypti.

Í gegnum útgáfustarf sitt kynntist Ejnar Munksgaard mörgum íslenskum menntamönnum og var rausnarlegur í garð þeirra og íslenskra stofnana, eins og árituð eintök af mörgum útgáfuverkum hans bera vitni um. Hann átti einnig frumkvæði að ýmsu sem til heilla horfði hér á landi, t.d. því að Kristian Kirk verkfræðingur keypti Haukadal í Biskupstungum handa Skógrækt ríkisins, 1938.

Ejnar Munksgaard var kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands á 25 ára afmæli háskólans, 1936. Á sama ári var hann skipaður í stjórnarnefnd Árnasafns í Kaupmannahöfn. Hann varð riddari af Dannebrog 1931 og dannebrogsmaður 1936.

Kona Ejnars Munksgaards (1917) var Yelva Munksgaard, fædd Christensen (4. nóvember 1885 í Næstved21. september 1947), listmálari. Þau eignuðust tvær dætur.

Helstu rit

breyta

Þó að Ejnar Munksgaard væri fyrst og fremst útgefandi, samdi hann sjálfur eða þýddi nokkur rit.

  • Lúkíanos: Den dårlige bogsamler, Kbh. 1928, 16+35 s. — Poul V. Rubow þýddi, Ejnar Munksgaard ritaði formála.
  • Den første danske Bibel og dens historie, Kbh. 1928, 31 s.
  • Om Flatöbogen og dens historie, Kbh. 1930, 43 s.
  • Om de fornisländska handskrifterna, me särskild hänsyn til Flatöboken, Stockholm 1936, 34 s. — Einnig til í þýskri útgáfu, 1934, 1935 og 1937.
  • En digter ved arbejdet. Fra Björnstjerne Björnsons værksted. Tre digte udgivet i facsimile, Kbh. 1935, 29 s. — Með formála um handritasöfnun eftir Munksgaard.
  • H. C. Andersens manuskripter til „Jylland mellem tvende have“, Kbh. 1940, 35 s. — Ljósprentun, með formála Munksgaards.

Þýðingar

breyta
  • Charles Nodier: Den boggale, Kbh. 1921. — Dönsk þýðing, með formála og skýringum Munksgaards.
  • Sir Stanley Unwin: Om forlagsvirksomhed, Kbh. 1945, 312 s. — Dönsk þýðing.

Afmælisrit

breyta
  • De Libris, bibliofile breve til Ejnar Munksgaard paa 50-aarsdagen 28. februar 1940, Kbh. 1940. — Greinar 22 fræðimanna, þar af 5 islenskra.

Helstu útgáfur íslenskra rita

breyta

Heimildir

breyta
  • Wilhelm Munthe: Et verdensforlag bygges opp. Ejnar Munksgaard og hans livsverk, Oslo 1948, 90 s.
  • Per Saugman: I bogens verden. Ejnar Munksgaard 1890–1948, Kbh. 1992, 43 s.

Tenglar

breyta