[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Viðskiptavild

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Viðskiptavild er hugtak í viðskiptafræði sem vísar til huglægra eigna fyrirtækis, þ.e. það fjárhagslega verðmæti sem felst t.d. í því að eiga hóp fastra viðskiptavina.

Við mat á verðmæti fyrirtækja eru fjármunir ávallt metnir skv. kostnaðar- eða markaðsverði. Skýring á þessu umframverðmæti getur legið í góðu orðspori fyrirtækisins, þekktra vörumerkja þess, vel uppbyggðs innra skipulags, góðum samböndum við verkalýðsfélög eða félagasamtök, góðu lánstrausti og viðskiptasamböndum.

Viðskiptavild er hluti af óefnislegum eignum fyrirtækja. Hún verður til þegar fyrirtæki kaupir annað félag í rekstri og greiðir fyrir hærri upphæð en bókfærð eigið fé félagsins er. Bókfært eigið fé fyrirtækis er í raun eignir þess að frádregnum skuldum.

Í sem einfaldastri mynd má ímynda sér félag sem á húsnæði sem kostar tíu miljónir króna, en skuldar þrjár miljónir í húsnæðinu. Eigið fé þess er þá sjö miljónir króna. Ef fyrirtæki borgar hærra verð fyrir annað félag en eigið fé þess, þarf að gera grein fyrir mismuninum á verðinu sem greitt var og því sem kalla má raunverulegt verðmæti félagsins, eigin fé þess, í bókhaldinu. Það er gert með því að skrá mismuninn sem viðskiptavild í bókhaldi félagsins.

Eitt þekktasta dæmi þess að fyrirtæki hafi verið keypt dýrum dómi sökum viðskiptavildar var þegar bandaríski matariðnaðarrisinn Kraft var keyptur fyrir 11,8 milljarða Bandaríkjadala árið 1989 af tóbaksfyrirtækinu Philip Morris.[1] Tilboðið var margfalt hærra en markaðsverð fyrirtækisins og endurspeglaði huglægt mat á andvirði Kraft vörumerkisins sem kom fyrst á markað árið 1923.[2]

Í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans 30. mars 2007 varaði Davíð Oddsson seðlabankastjóri við því að bókfærð viðskiptavild fyrirtækja skráð í Kauphöll Íslands í lok árs 2006 hefði numið 500 milljörðum kr. og dæmi væru um að viðskiptavild væri meira en helmingur bókfærðra eigna.[3] Í mars 2014 tilkynnti Skipti, móðurfélag Símans tapi á árinu 2013, þar af 14 milljarða virðisrýrnun viðskiptavildar.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Philip Morris Offering $11.8 Billion for Kraft Bids $90 a Share for Major Food Company; Merger Would Be 2nd Largest in U.S. History“. 1988.
  2. Naomi Klein (2000). No Logo. Picador.
  3. „Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á ársfundi bankans 30. mars 2007“.
  4. „Tap Skipta hf. fimmfaldast milli ára“. 2014.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.