[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Tryggvi Þórhallsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tryggvi Þórhallsson

Tryggvi Þórhallsson (9. febrúar 188931. júlí 1935) var forsætisráðherra Íslands árin 1927 til 1932. Hann var sonur Þórhalls Bjarnarsonar biskups og Valgerðar Jónsdóttur. Hann lærði guðfræði, tók vígslu 1913 og var prestur á Hesti í Borgarfirði til 1916, en þá fluttist hann til Reykjavíkur og var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands en árið 1917 varð hann ritstjóri Tímans og gegndi því starfi í 10 ár. Hann var kjörinn þingmaður Strandamanna fyrir Framsóknarflokkinn 1923.

Hann var gerður að foringja flokksins og myndaði ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar sem sat frá 1927-1932. Í þeirri stjórn var hann atvinnumálaráðherra auk þess að fara með forsætisráðherraembættið. Hann var þekktastur fyrir að hafa rofið þing árið 1931, rétt áður en til stóð að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn hans. Í kosningunum sem fylgdu fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi, en eitt af hitamálunum sem leiddu til vantrauststillögunnar og þingrofsins voru fyrirhugaðar umbætur í kosningakerfinu, þar sem til stóð að fjölga þingmönnum Reykvíkinga á kostnað landsbyggðarinnar.

Stjórn Tryggva sat því áfram en fór frá vorið 1932. Árið 1933 sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn, sem fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá að mestu í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill og lést ári síðar.

Tryggvi var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 til æviloka.

Tryggvi bjó mestan hluta ævi sinnar í húsinu Laufási við Laufásveg, sem faðir hans lét reisa árið 1896. Eiginkona hans hét Anna Guðrún Klemensdóttir (1890-1987), dóttir Klemensar Jónssonar landritara og Þorbjargar Stefánsdóttur Bjarnarson húsmóður. Börn Tryggva og Önnu Guðrúnar voru: Klemens Tryggvason (1914-1997) hagstofustjóri, Valgerður Tryggvadóttir (1916-1995) skrifstofustjóri hjá Ríkisútvarpinu, Þórhallur Tryggvason (1918-2008) bankastjóri Búnaðarbankans, Agnar Tryggvason (1919-2012) framkvæmdastjóri, Þorbjörg Tryggvadóttir (1922-2007) framkvæmdastjóri, Björn Tryggvason (1924-2004) aðstoðarbankastjóri Seðlabankans og Anna Guðrún Tryggvadóttir (1927-2020) kennari.

Gröf Tryggva í Hólavallagarði.

Eitt og annað

[breyta | breyta frumkóða]
  • Skopblaðið, Spegilinn, kallaði Tryggva Þórhallson Stóra núllið þegar hann var forsætisráðherra en Jónas Jónsson frá Hriflu þótti ráða mestu í þeirri ríkisstjórn.


Fyrirrennari:
Jón Þorláksson
Forsætisráðherra
(28. ágúst 19273. júní 1932)
Eftirmaður:
Ásgeir Ásgeirsson
Fyrirrennari:
Þorleifur Jónsson
Formaður Framsóknarflokksins
(19281932)
Eftirmaður:
Ásgeir Ásgeirsson


  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.