[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Stríðið 1812

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stríðið 1812
Hluti af Napóleonsstyrjöldunum

Washington brennur í ágúst 1814.
Dagsetning18. júní 1812 – 17. febrúar 1815 (2 ár og 8 mánuðir)
Staðsetning
Austur- og miðhluti Norður-Ameríku; Kyrrahaf og Atlantshaf
Niðurstaða Jafntefli; hvorugum stríðsaðila tekst að leggja undir sig landsvæði hins
Stríðsaðilar
Fáni Bandaríkjana Bandaríkin Fáni Bretlands Breska heimsveldið
Leiðtogar
James Madison
William Henry Harrison
Andrew Jackson
Georg prins
Liverpool lávarður
Tecumseh
Fjöldi hermanna
Bandaríkjaher:
7.000 (við byrjun stríðsins)
35.800 (við lok stríðsins)
Breski herinn:
5.200 (við byrjun stríðsins)
48,160 (við lok stríðsins)
Mannfall og tjón
2.200–3.721 manns felldir á vígvellinum 1.160–1.960 manns felldir á vígvellinum

Stríðið 1812 var stríð á milli Bandaríkjanna og Bretlands. Breskir sagnfræðingar líta jafnan aðeins á stríðið sem eina af mörgum vígstöðvum Napóleonsstyrjaldanna en í Bandaríkjunum og Kanada er yfirleitt litið á átökin sem annað stríð.

Síðan Bretar hófu stríð við franska keisaraveldið höfðu þeir sett hafnarbann til að koma í veg fyrir að hlutlausar þjóðir versluðu við Frakkland. Bandaríkjamenn töldu hafnarbannið ekki standast alþjóðalög. Til þess að sjá til þess að hafnarbanninu væri fylgt höfðu Bretar lagt hald á bandarísk kaupskip og kvatt áhafnir þeirra í breska sjóherinn. Til átaka kom milli bandarískra og breskra skipa á Atlantshafi og óvild milli ríkjanna jókst ört.[1][2] Bretar sendu Indíánum birgðir svo þeir gætu gert árásir á bandaríska landnema.[3]

Sagnfræðingum kemur ekki saman um það hvort metnaður Bandaríkjamanna til að innlima bresku Norður-Ameríku eða hluta af henni hafi stuðlað að ákvörðun þeirra til að fara í stríð við Bretland. Þann 18. júní árið 1812 lýsti James Madison Bandaríkjaforseti yfir stríði gegn Bretlandi eftir mikinn þrýsting frá bandaríska þinginu.

Þar sem meirihluti breska hersins var í Evrópu í stríðinu við Napóleon tóku Bretar sér varnarstöðu frekar en að sækja fram. Herrekstur Bandaríkjamanna leið fyrir að stríðið var óvinsælt í Bandaríkjunum, sérstaklega í Nýja Englandi, þar sem menn uppnefndu það „stríð herra Madisons“.

Bandaríkjamenn báðu ósigur í umsátrinu um Detroit og orrustunni við Queenston Heights og tókst því ekki að hertaka Efri-Kanada. Tilraunir Bandaríkjamanna til að gera innrás í Neðri-Kanada og hertaka Montréal mistókust einnig. Árið 1813 unnu Bandaríkjamenn sigur í orrustunni við Erie-vatn og orrustunni við Thames og sigruðu þar með Indíanabandalag höfðingjans Tecumseh. Á hafinu setti breski flotinn bann á bandarískar hafnir og gerði árásir á strandir Bandaríkjanna. Árið 1814 gerðu Bretar árás á Washington og brenndu höfuðborgina. Bandaríkjamönnum tókst þó í kjölfarið að hrekja Bretana burt og koma í veg fyrir að þeir hertækju Baltimore.

Í Bretlandi jókst smám saman andstaða við skattana sem fjármögnuðu stríðsreksturinn. Þegar Napóleon sagði af sér árið 1814 lauk hafnarbanninu gegn Frakklandi og Bretar hættu að kveða bandaríska sjómenn í flotann. Þar með voru forsendur stríðsins í Bandaríkjunum úr sögunni. Bretar gátu nú einbeitt sér að hafnarbanni gegn Bandaríkjunum og tókst næstum að gera út af við sjávarverslun Bandaríkjamanna og gera bandarísku ríkisstjórnina gjaldþrota. Friðarviðræður hófust í ágúst árið 1814 og friðarsáttmáli var undirritaður í Gent þann 24. desember þar sem hvorugt ríkið vildi halda stríðinu áfram. Fréttir af friðarsáttmálanum bárust þó ekki til Ameríku fyrr en nokkru síðar.

Breskir hermenn sem enn ekki vissu af friðarsáttmálanum réðust í janúar 1815 inn í Louisiana og voru sigraðir í orrustunni um New Orleans. Með þessum sigrum í lok stríðsins fannst Bandaríkjamönnum þeir hafa bjargað heiðri landsins. Fregnir af friðarsamningnum bárust stuttu síðar og átökum var hætt. Bandaríkjamenn staðfestu friðarsáttmálann þann 17. febrúar 1815 og stríðinu lauk án nokkurra breytinga á landamærum ríkjanna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hooks, J. "Redeemed honor: the President-Little Belt Affair and the coming of the war of 1812" The Historian, (1), 1 (2012)
  2. Hickey, Donald (1989). The War of 1812: A Forgotten Conflict. Urbana; Chicago: University of Illinois Press.
  3. Stagg, John C.A. (1983). Mr. Madison's War: Politics, Diplomacy, and Warfare in the Early American republic, 1783–1830. Princeton, New Jersey: Princeton University Press