[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Sigurjón Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurjón Ólafsson (21. október 190820. desember 1982) var íslenskur myndhöggvari.

Sigurjón Ólafsson fæddist á Eyrarbakka árið 1908. Fyrstu tilsögn í myndlist hlaut hann hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara. Samhliða náminu lauk Sigurjón sveinsprófi í húsamálun frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 1927 og ári síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann hóf nám í Konunglegu Akademíunni hjá Utzon-Frank prófessor. Námið sóttist honum vel og haustið 1930 hlaut hann gullverðlaun Akademíunnar fyrir styttu af Verkamanni (LSÓ 1017) sem nú er í eigu Listasafns Íslands og fyrir portrettið Móðir mín (LSÓ 007, 1938) hlaut Sigurjón hin eftirsóttu Eckersberg-verðlaun.

Þegar Sigurjón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi. Stærst verka hans er án efa lágmyndirnar á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar sem hann vann á árunum 1966-1969 (LSÓ 1232), en þekktari eru ef til vill Öndvegissúlurnar við Höfða (LSÓ 1269), styttan af séra Friðrik við Lækjargötu (LSÓ 1120), og Íslandsmerki á Hagatorgi (LSÓ 1278).

Auk hinna hefðbundnu verkefna vann Sigurjón alltaf frjáls verk þar sem hugmyndaflug og tilraunir með efni og form fengu að ráða. Þannig eru allar steinmyndir hans frá 1946−1956 frjáls verk og ekki gerð eftir pöntunum. Mörg þeirra eru nú í eigu safna og opinberra aðila.

Sigurjón vann í afar fjölbreyttan efnivið; leir, gifs, tré, málma, stein og steinsteypu. Síðustu ár ævinnar notaði listamaðurinn oft tré eða rekavið í verk sín.

Sigurjón lést í Reykjavík í desember 1982.


Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hýsir höggmyndir og teikningar eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara ásamt heimildum um listamanninn og er miðstöð rannsókna á list hans. Safnið var stofnað af ekkju listamannsins, Birgittu Spur, í endurbyggðri vinnustofu listamannsins á Laugarnesi. Það var rekið sem sjálfseignarstofnun til 2012 að það var afhent Listasafni Íslands og er nú rekið sem sérstakt safn innan þess.

Árið 1949 hlaut Sigurjón önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni um hönnun minnisvarða í Viðarlundinum í Þórshöfn í Færeyjum.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Minnismerki í Þórshöfn um færeyska sjómenn, sem fórust á stríðsárunum“. www.timarit.is. Alþýðublaðið. 3. september 1949. Sótt 5. desember 2019.