[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Nicholas Murray Butler

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nicholas Murray Butler
Butler árið 1924.
Fæddur2. apríl 1862
Dáinn7. desember 1947 (85 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunColumbia-háskóli
StörfHeimspekingur, erindreki, kennari
FlokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiSusanna Edwards Schuyler
Kate La Montagne
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1931)
Undirskrift

Nicholas Murray Butler (2. apríl 1862 – 7. desember 1947) var bandarískur heimspekingur, erindreki og kennari. Butler var rektor Columbia-háskóla,[1] forseti friðarstofnunar Carnegies og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hann var svo þekktur og virtur í Bandaríkjunum að The New York Times birti jólakveðju hans til landsmanna á hverju ári.

Nicholas Murray Butler útskrifaðist úr Columbia-háskóla og stundaði frekara nám í París og Berlín. Hann varð dósent í heimspeki við háskólann árið 1899 og árið 1901 varð Butler rektor Columbia-háskóla. Butler var meðlimur í Repúblikanaflokknum og var fulltrúi í landsnefnd flokksins frá 1888 til 1936.

Árið 1912, eftir andlát varaforsetans James S. Sherman, var Butler valinn sem nýtt varaforsetaefni í kosningaherferð Williams H. Taft Bandaríkjaforseta til endurkjörs. Vegna klofnings innan Repúblikanaflokksins hlutu Taft og Butler aðeins 23% atkvæða og átta kjörmenn í kjörmannaráðinu og lentu í þriðja sæti á eftir klofningsframboði Theodore Roosevelt og Demókratanum Woodrow Wilson, sem vann kosningarnar.

Árið 1920 bauð Butler sig fram til forseta í forvali Repúblikanaflokksins en tapaði fyrir Warren G. Harding. Hann bauð sig aftur fram án árangurs árið 1928. Árið 1931 hlaut Butler, ásamt Jane Addams, friðarverðlaun Nóbels fyrir að hvetja til samþykktar á Kellogg-Briand-sáttmálanum, sem gerði stríð ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum. Frá 1928 til 1946 var Butler jafnframt forseti bresk-bandaríska Pílagrímafélagsins.

Butler heimsótti Berlín árið 1933 eftir valdatöku nasista í Þýskalandi og brá mjög í brún þegar hann sá stjórnarhætti Hitlers. Eftir heimkomuna til New York hélt Butler blaðamannafund og lýsti yfir þungum áhyggjum af ástandinu í Þýskalandi. Hann dró til baka fjárstyrk Friðarstofnunar Carnegies til þýskra prófessora og bauð í staðinn þýska sagnfræðingnum Hajo Holborn þriggja ára styrk til náms í bandarískum háskóla að eigin vali.[2]

Eftir að Þjóðverjar hertóku Noreg í seinni heimsstyrjöldinni sendi Butler Norðmönnum baráttukveðjur þann 27. apríl 1941:

Gæsalappir

Við Bandaríkjamenn upplifum okkur nátengda Noregi og norsku þjóðinni. Norðmenn eru löghlýðin og friðelsk þjóð sem hefur lagt gríðarmikið fram til menningar okkar og siðhátta, þjóð sem er laus við hernaðar- og stjórnvaldametnað, þjóð sem hefur unnið að alþjóðlegum skilningi milli ríkjanna, meðal annars með veitingu friðarverðlauna Nóbels. Það var áfall fyrir okkur Bandaríkjamenn þegar Noregur varð fyrir fyrirvaralausri árás sterkari óvinar. Árásin var liður í vandlega undirbúinni áætlun um að ráðast á hverja frjálsu Evrópuþjóðina á fætur annarri og kúga þær af villimannslegu ofbeldi.“

— Nicholas Murray Butler («Message to Norway», útvarpað 27. apríl 1941)[3].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Pringle, Henry F. (1928). "Publicist or Politician? A Portrait of Dr. Nicholas Murray Butler," The Outlook, Vol. CL, No. 7.
  2. Padilla, Arthur (2005). Portraits in Leadership: Six Extraordinary University Presidents. Westport, CT: American Council on Education/Praeger. ISBN 0-275-98490-7.
  3. Nicholas Murray Butler (president for Columbia University): Message to Norway. NRK. 27. apríl 1941.