[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Northrop N-3PB

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Northrop N-3PB

Northrop N-3PB („Patrol Bomber“) var sjóflugvél frá fyrirtækinu Northrop til notkunar í hernaði. Eini kaupandinn nokkurn tíma var Flugfélag Konunglega norska sjóhersins sem pantaði 24 slíkar vélar 12. mars 1940. Þær áttu að koma í stað úreltra Farman MF.11-tvívængja. Vélin var eins hreyfils lágvængja með 14,91m vænghaf, tvö stór flotholt og þriggja manna áhöfn. Hún var 2,8 tonn að þyngd. Hreyfillinn var 1200 hestafla loftkældur Wright Cyclone stjörnuhreyfill. Hún var búin sex vélbyssum og gat borið eitt 2000 punda tundurskeyti eða sömu þyngd af sprengjum.

Áður en sendingin var afhent gerðu Þjóðverjar innrás í Noreg. Vélarnar voru því þess í stað afhentar Flugfélagi sjóhersins sem starfaði sem útlagadeild innan Konunglega breska flughersins á Íslandi. Þaðan var vélunum flogið til fylgdar skipalestum og í kafbátaeftirlitsferðir allt stríðið.

Eftir stríð voru einungis tvær vélar heilar af hinum upprunalegu 24 og var þeim báðum flogið til Noregs en á 6. áratugnum voru þær settar í brotajárn. Ekkert eintak var því til fyrr en flak einnar slíkrar vélar fannst 11. ágúst 1979 í Þjórsá. Flakið var sent til Kaliforníu þar sem það var gert upp og síðan til Noregs þar sem hægt er að sjá vélina á Flugsafni norska hersins í Gardermoen. 27. ágúst 2002 fannst annað heillegt flak slíkrar vélar á 8m dýpi í Skerjafirði. Fornleifavernd ríkisins ákvað að friðlýsa flakið og gildir köfunarbann í 20 metra radíus út frá því.