[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Leturhumar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leturhumar

Vísindaleg flokkun
Ríki: Animalia
Fylking: Arthropoda
Undirfylking: Crustacea
Flokkur: Malacostraca
Ættbálkur: Decapoda
Undirættbálkur: Pleocyemata
Innættbálkur: Astacidea
Ætt: Nephropidae
Ættkvísl: Nephrops
Leach, 1814
Tegund:
N. norvegicus

Tvínefni
Nephrops norvegicus
(Linnaeus, 1758)

Leturhumar (fræðiheiti: Nephrops norvegicus) er sú humartegund sem veiðist við Ísland. Humarinn veiðist út af sunnanverðu landinu og þykir hinn mesti veislumatur. Hann lifir á um 100 – 250 metra dýpi getur orðið allt að 20 – 24 sentímetra langur.

Leturhumarinn er appelsínugulur að lit og getur karlhumarinn orðið allt að 24 sentímetrar, en hrygnan 20 sentímetrar. Lengd er mæld aftan frá halaenda að trjónuenda. Á enda halans er blaðka sem samsett er úr fimm skífum. Leturhumarinn notar blöðkuna til sunds, en það sem sérstakt er við sundlag humarsins er að hann syndir aftur á bak með því að kreppa halann. Framan við blöðkuna er halinn. Halinn er úr sex liðum, svo hann er sveigjanlegur. Meirihluti kjötsins er í halanum og er hann mest nýttur í mat. Skjöldurinn tekur við af halanum. Inni í honum eru líffæri humarsins. Undir honum eru fæturnir, átta talsins. Framan á fremstu fæturna koma klærnar. Þær notar humarinn til að klófesta bráð sína. Í klónum er kjöt sem mörgum þykir afar bragðgott, en það er þó ekki mikið magn. Fram úr skildinum er trjóna og sitthvoru megin við hana eru augun. Augun eru á stuttum legg og eru hreyfanleg. Humarinn er með marga fálmara og bitkróka.[1]

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]

Leturhumarinn lifir á um 100-250 metra dýpi á mjúkum sand- eða leirbotni í um 6 – 9°C heitum sjó. Hann býr sér göng sem geta verið ægiflókin líkt og völundarhús, með tveimur opum eða fleiri. Notast hann þó yfirleitt aðeins við eitt þeirra sem aðal inn- og útgang. Humarinn felur sig mis vel í holunum, en það er allt frá því að vera með allan líkamann í felum og í það að vera með jafnvel allan höfuðbolinn standandi upp úr opinu. Holurnar geta náð allt að 20 til 30 sentímetra undir yfirborðið. Talið er að humar sem er nýorðinn botnlægur fari í gamlar holur sem hafa verið yfirgefnar og dvelji þar í allt að ár. Þeir afla sér þá fæðu með því að grafa út frá göngunum og finna þar botndýr sem eru þar grafin. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig humarinn hagar sér gagnvart heimkynnum sínum, en talið er að hann haldi sig mikið til á sömu slóðum alla ævi. Kvenhumarinn leitar að öllum líkindum alltaf í sömu holuna, en karlhumarinn virðist fara meira á milli hola.[2]

Misjafnt er hversu mikið humarinn er á ferðinni fyrir utan holu sína. Hitastig getur haft áhrif á ferðir hans, en sé sjórinn kaldur heldur humarinn sig frekar niðri í holu sinni. Humarinn virðist einnig kjósa sér ákveðið birtustig. Er til að mynda algengt að humarinn sé frekar á ferðinni í ljósaskiptunum heldur en yfir hábjartan daginn þegar nokkuð bjart verður á sjávarbotninum eða í myrkrinu yfir nótt. Þetta helst í hendur með árstíðasveiflunum, en hann heldur sig frekar í holunum yfir dimma og kalda vetrarmánuðina á meðan hann nýtir sumartímann til frekari fæðuaflana. Kræklingar forðast humra. Birtustigið ræðst þó ekki aðeins af birtu ofansjávar, heldur einnig af gegnskini sjávar sem er einnig mismunandi eftir árstíðum, meðal annars vegna þörungasvifs eða hafíss (sem er þó orðinn fáséður á síðustu tímum).[3]

Humrarnir verða kynþroska um fjögurra ára gamlir, en þá er skjaldarlengd þeirra u.þ.b 2,5 til 3 sentímetrar. Þeir æxlast yfir sumartímann og fer sú athöfn þannig fram að kvendýrið liggur á bakinu og karlhumarinn leggst ofan á og sprautar sæði inn í kvenhumarinn. Vorið eftir þegar eggin eru orðin frjóvguð hrygnir kvendýrið og eggin límast föst undir halann, um 500 – 3000 talsins. Fjöldi eggjanna ræðst af stærð humarsins og aldri. Humarlirfurnar klekjast út á 12 til 13 mánuðum. Kvenhumarinn hrygnir því ekki nema annað hvert ár. Í heitari sjó gerist þetta hraðar og hrygnir humarinn þar yfirleitt á hverju ári.[4]

Skel humarsins vex ekki með honum heldur verður humarinn að endurnýja skel sína eftir því sem hann verður eldri og stækkar. Nýja skelin, sem er stærri en sú gamla, vex undir þeirri eldri og þegar hún fer að verða klár losar humarinn sig við skelina. Hin nýja er þó ekki fullþroskuð þegar humarinn hefur skelskipti og er hún því mjúk. Humarinn vex mishratt og er því misjafnt hversu oft hann þarf að hafa skelskipti, en ungur humar vex hraðar en gamall og þarf því að skipta oftar um skel. Á fyrsta ári sínu á botninum er talið að humarinn skipti allt að tíu sinnum um skel, en eftir það skiptir hann árlega um skel á meðan hann er enn að vaxa. Þegar hann er orðinn eldri vex hann hægar og skiptir um skel á tveggja til þriggja ára fresti. Þegar kvenhumarinn er orðinn kynþroska getur hann ekki haft skelskipti nema annað hvert ár, vegna þess að hann geymir eggin undir halanum.[5]

Afli leturhumars 1992-2013 (Heimild: Hagstofa Íslands, 2014)

Heimkynni leturhumarsins eru víða um höf, eða allt frá Norður-Afríku og Adríahafi í suðri og norður að suðurstrandar Íslands og ströndum Noregs.[6] Við Ísland lifir hann aðeins í hlýja sjónum sem er við sunnanvert landið, eða frá Lónsdýpi í austri að Jökuldýpi í vestri. Leyfileg veiðisvæði til humarveiða við Ísland eru átta talsins og er skipum leyfilegt að stunda veiðar á þeim á tímabilinu 16. mars til 30. nóvember samkvæmt reglugerð um humarveiðar. Veiðisvæðin eru ekki aðlæg, en búsvæði humarsins er takmarkað við dýpi og botngerð.

Humarafli hefur verið sveiflukenndur síðustu rúmlega tvo áratugi. Ástæða þess getur verið sú að þau ár sem lítið var veitt var óvenju lágur sjávarhiti. Árið 1995 var sjávarhiti frekar lár[7] og var lítill afli það ár, en aflinn hefur aukist jafnt og þétt síðan þá, allt til ársins 2010 að hann hefur minnkað aftur. Þekkt er að aflinn getur verið misjafn eftir svæðum á milli ára, þ.e. að eitt árið getur veiðst mun meira á austari miðum (meðallandsbugt og austar) þegar lítil veiði er vestar og svo öfugt hitt árið. Ekki er vitað hver ástæðan fyrir þessu sé.[8]

Tilvitnanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hrafnkell Eiríksson (1993). Humar (Leturhumar). Reykjavík. Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun.
  2. Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson 1998. Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík. Mál og Menning.
  3. Hrafnkell Eiríksson (1993). Humar (Leturhumar). Reykjavík. Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun.
  4. Hrafnkell Eiríksson (1993). Humar (Leturhumar). Reykjavík. Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun.
  5. Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson 1998. Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík. Mál og Menning.
  6. Hrafnkell Eiríksson (1993). Humar (Leturhumar). Reykjavík. Námsgagnastofnun og Hafrannsóknastofnun.
  7. Hafrannsóknarstofnun. (e.d.). Reykjavíkurhöfn 1995. Sótt 30. október 2014 af http://www.hafro.is/Sjora/
  8. Hagstofa Íslands. (2014). Afli eftir kvótaflokkum skipa og fisktegundum 1992-2013. Sótt 30. október 2014 af http://hagstofa.is/?PageID=2596&src=https://rannsokn.hagstofa.is/pxis/Dialog/varval.asp?ma=SJA09021%26ti=Afli+eftir+kv%F3taflokkum+skipa+og+fisktegundum+1992%2D2013+%26path=../Database/sjavarutvegur/af3Kvota/%26lang=3%26units=kg
  • „Hvað er dökka rákin í humri? Er nauðsynlegt að taka hana burt áður en humarinn er borðaður??“. Vísindavefurinn.
  • Reglugerð um humarveiðar
  • Humar; Brot úr Sjávarnytjum við Ísland í Sjómannablaðinu Víkingi