Jacques-Louis David
Jacques-Louis David (30. ágúst 1748 – 29. desember 1825) var franskur listmálari sem málaði í nýklassískum stíl. David hafði mikil áhrif á aðra listmálara og uppúr 1780 gerði hann nýklassíska stílinn vinsælan á kostnað rókókó stílsins sem hafði einkennt listmálun áratugina á undan.
David nam fyrst málaralist í konunglegu akademíunni í París en hélt til Rómar árið 1775 eftir hafa unnið Prix de Rome, sem var styrkur til að læra í frönsku akademíunni í Róm. Í Róm höfðu verk gömlu ítölsku meistaranna áhrif á hann, aðallega verk Rafaels. Hann sneri svo aftur til Parísar árið 1780 þar sem hann öðlaðist frægð á næstu árum og sýndi málverk í Salon listagalleríinu, sem þótti mikill heiður. David ferðaðist stuttu síðar aftur til Rómar þar sem hann málaði m.a. Eið Hóratíusarbræðra.
Þegar franska byltingin braust út varð David byltingasinni og hann var vinur Maximiliens Robespierres og Jean-Pauls Marats. Verk Davids, Lictorar færa Brutusi lík sona sinna, var fyrst sýnt stuttu eftir að byltingin hófst. Verkið sýnir Rómverjann Lucius Junius Brutus eftir að hann hafði skipað fyrir um aftöku sona sinna, en þeir höfðu þá reynt að endurreisa konungdæmið í Róm. Málverkið hafði því skírskotun í málefni líðandi stundar í Frakklandi og varð fljótlega mjög frægt.
Eitt frægasta málverk Davids er Dauði Marats, málað árið 1793, stuttu eftir morðið á Marat. Marat var myrtur þegar hann var í baði, af Charlotte Corday sem var síðar tekin af lífi fyrir vikið. Marat var rótækur blaðamaður og hann skrifaði oft greinar sínar þegar hann var í baði. Ástæðan var sú að hann þjáðist af húðsjúkdómi sem gaf honum mikinn kláða og eina leiðin fyrir hann að draga úr kláðanum var að liggja í baði. Málverkið sýnir Marat deyjandi í baðinu með skriffærin við hendina.
David var settur í fangelsi í kjölfar aftöku Robespierres. Þar ákvað hann að mála málverk sem sagði sögu Sabína-kvennanna. Samkvæmt goðsögn lét Rómúlus, stofnandi Rómaborgar, ræna konum úr Sabína þjóðflokknum og við það braust út stríð á milli Rómverja og Sabína en Sabína-konurnar stilltu til friðar. David ákvað að mála Rán Sabina-kvennanna eftir að eiginkona hans, Marguerite-Charlotte David, hafði heimsótt hann í fangelsið og því er verkið talið vera henni til heiðurs. Málverkið vakti athygli Napoleons Bonaparte og eftir að Napoleon náði völdum fékk hann David til að mála margar myndir fyrir sig. Þeirra á meðal eru Napoleon fer um St. Bernard skarð og Krýning Napoleons í Notre Dame.
Eftir fall Napoleons frá völdum, og endurreisn konungdæmisins, flúði David til Brussel, þar sem hann lifði það sem eftir var ævinnar. Síðasta stóra verkið sem David málaði var Mars afvopnaður af Venus. Verkið var fyrst sýnt í Brussel en var svo sent til Parísar þar sem yfir 10.000 manns skoðuðu það, en það var gríðarlegur fjöldi á þeim tíma. David lést svo árið 1825.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Eiður Hóratíusarbræðra (1784)
-
Dauði Sókratesar (1787)
-
Lavoisier og kona hans (1788)
-
Lictorar færa Brutusi lík sona sinna (1789)
-
Dauði Marats (1793)
-
Rán Sabina-Kvennanna (1799)
-
Napoleon fer um St. Bernard skarð (1801)
-
Krýning Napoleons í Notre Dame (1806)
-
Napoleon (1812)
-
Leonidas við Laugaskarð (1814)
-
Mars afvopnaður af Venus (1824)