[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Javier Milei

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Javier Milei
Javier Milei árið 2023.
Forseti Argentínu
Núverandi
Tók við embætti
10. desember 2023
VaraforsetiVictoria Villarruel
ForveriAlberto Fernández
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. október 1970 (1970-10-22) (54 ára)
Búenos Aíres, Argentínu
StjórnmálaflokkurFrjálshyggjuflokkurinn
MakiFátima Flórez (í sambúð frá 2023)
HáskóliHáskólinn í Belgrano
Instituto de Desarrollo Económico y Social
Torcuato di Tella-háskóli
StarfHagfræðingur, stjórnmálamaður
Undirskrift

Javier Gerardo Milei (f. 22. október 1970) er argentínskur hagfræðingur og stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Argentínu. Milei er frjálshyggjumaður og er talinn utangarðsmaður í argentínskum stjórnmálum. Hann náði kjöri í forsetakosningum Argentínu þann 19. nóvember 2023 með fyrirheitum um róttækar stefnubreytingar í anda frjálshyggju, meðal annars um að láta leggja niður seðlabanka landsins og taka upp Bandaríkjadal í stað argentínska pesans. Milei er gjarnan borinn saman við popúlíska hægrileiðtoga í öðrum löndum á borð við Donald Trump og Jair Bolsonaro.

Javier Milei er fæddur í Búenos Aíres og er af ungverskum ættum.[1] Milei segir æsku sína hafa litast af stirðu sambandi hans við föður sinn. Hann var á árum áður meðlimur í hljómsveit sem spilaði lög Rolling Stones og spilaði fótbolta sem markvörður. Hann hætti í fótbolta á níunda áratugnum og hóf nám í hagfræði. Milei vann lengi sem yfirhagfræðingur Corporación America, eins stærsta fyrirtækis Argentínu, en hætti störfum þar þegar hann var kjörinn á argentíska þingið árið 2021. Milei stofnaði stjórnmálabandalag undir nafninu Frelsið í forgrunni (sp. La Libertad Avanza).[2]

Milei vakti þjóðarathygli í argentínsku sjónvarpi með óvæginni gagnrýni sinni á stjórn perónistanna Alberto Fernández forseta og Cristinu Fernández de Kirchner varaforseta. Á kjörtímabili þeirra hafði verðbólga ágerst mjög í landinu og stór hluti landsmanna farið undir fátæktarmörk.[1]

Milei gaf kost á sér í forsetakosningum Argentínu árið 2023 og náði fljótt miklu fylgi. Í kosningabaráttunni lofaði Milei ýmsum róttækum stefnubreytingum, meðal annars þeirri að láta leggja niður argentínska seðlabankann, sem hann sagði bera mikla ábyrgð á verðbólgunni vegna peningaprentunar. Milei lofaði því jafnframt að stjórn hans myndi taka upp Bandaríkjadal sem gjaldmiðil í Argentínu og láta argentínska herinn taka yfir rekstur fangelsa.[3]

Milei lenti í öðru sæti í fyrri umferð forsetakosninganna þann 22. október 2023 með um 30% atkvæða.[4] Í seinni umferð kosninganna þann 19. nóvember vann Milei hins vegar afgerandi sigur og hlaut 56 prósent atkvæða en andstæðingur hans, sitjandi efnahagsmálaráðherrann Sergio Massa, 44 prósent.[5]

Milei tók við embætti forseta þann 10. desember 2023 og sagði Argentínumönnum að búa sig undir „lostmeðferð“ og aukið aðhald í ríkisútgjöldum.[6]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Milei lýsir sjálfum sér sem stjórnleysiskapítalista.[7] Hann er andvígur því að kynfræðsla sé kennd í skólum og segir hana vera lið í ráðabruggi marxista til að gera út af við hefðbundin fjölskyldumynstur. Hann er alfarið mótfallinn því að þungunarrof séu leyfð og hafnar þvíloftslagsbreytingar séu af manna völdum. Milei er þeirrar skoðunar að fólk ætti að mega selja líffæri sín ef það vill gera það.[2]

Milei býr í Búenos Aíres með fimm mastiff-hundum sem hann nefndi eftir hagfræðingum. Einn hundur hans heitir eftir frjálshyggjuhagfræðingnum Milton Friedman.[1] Milei hefur látið klóna annan hund sinn, sem lést árið 2017, fjórum sinum.[2]

Milei hefur tjáð sig frjálslega um kynlíf sitt á opinberum vettvangi. Meðal annars segist hann vera sérfræðingur í tantra-kynlífi og hafa oft tekið þátt í hópkynlífsathöfnum.[2] Mikið hefur verið gert úr piparsveinslíferni Milei í argentínskum fjölmiðlum, þar sem hann hefur mikið tjáð sig um frjálsar ástir.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Bjarni Pétur Jónsson (15. maí 2023). „Hárkollan sem ætlar í niðurskurð með keðjusög að vopni“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2023.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Samúel Karl Ólason (20. nóvember 2023). „„Hinn klikkaði" tantra-sérfræðingur nýr for­seti Argentínu“. Vísir. Sótt 21. nóvember 2023.
  3. „Boðar niðurskurð og afnám seðlabankans“. mbl.is. 20. nóvember 2023. Sótt 21. nóvember 2023.
  4. „Boðað til seinni umferðar kosninga“. mbl.is. 24. október 2023. Sótt 21. nóvember 2023.
  5. Markús Þ. Þórhallsson (20. nóvember 2023). „Milei sigraði með meiri mun en ætlað hafði verið“. RÚV. Sótt 21. nóvember 2023.
  6. Atli Ísleifsson (10. desember 2023). „Segir Argentínu­­mönnum að búa sig undir lost­­með­­ferð“. Vísir. Sótt 22. desember 2023.
  7. „Hluta­bréf argentínskra fyrir­tækja rjúka upp eftir kjör Mil­ei“. Viðskiptablaðið. 20. nóvember 2023. Sótt 21. nóvember 2023.


Fyrirrennari:
Alberto Fernández
Forseti Argentínu
(10. desember 2023 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti