Johan Bülow
Johan Bülow (29. júlí 1751 – 22. janúar 1828), oftast kenndur við herragarðinn Sanderumgaard á Fjóni, var hirðmarskálkur og aðstoðarmaður krónprinsins, Friðriks 6. Styrktarmaður vísinda og lista.
Johan Bülow fæddist í Nýborg á Fjóni. Foreldrar hans voru af aðalsættum, en frekar fátæk. Tveggja ára gamall stóð hann uppi foreldralaus og fór þá til skyldmenna. Hann hlaut menntun í Sórey á Sjálandi (Sorø ridderlige Akademi). Hann gekk snemma í herinn, náði þar skjótum frama og varð liðsforingi í konunglega lífverðinum 1772. Árið 1773 varð hann sérstakur tilsjónarmaður krónprinsins, Friðriks 6., sem þá var 5 ára, og hafði umsjón með menntun hans og uppeldi. Þegar prinsinn var 16 ára, 1784, tók hann í raun við stjórnartaumunum, vegna veikinda föður síns. Varð Johan Bülow þá mjög áhrifamikill vegna náinna tengsla sinna við krónprinsinn. Hann varð hirðmarskálkur árið 1784.
Johan Bülow féll í ónáð hjá krónprinsinum árið 1793 og var neyddur til að segja af sér og yfirgefa Kaupmannahöfn. Fluttist hann þá til Sanderumgaard, sem hann hafði keypt á æskuslóðum sínum á Fjóni, og bjó þar til æviloka. Krónprinsinn sakaði hann um að hafa haft tengsl við menn sem unnu gegn ríkisstjórninni, en raunveruleg ástæða mun hafa verið sú að prinsinum þótti hann afskiptasamur og vildi hafa frjálsari hendur í einkalífi og við stjórn ríkisins.
Bülow gerðist eftir þetta mikill stuðningsmaður vísinda og lista. Er talið að hann hafi varið a.m.k. 41.000 ríkisdölum af eigin fé til þeirra mála. Hefur hann í gamni stundum verið kallaður Carlsbergsjóður sinnar tíðar. Framlög hans skiptu því meira máli, af því að þau ár sem hann var hvað stórtækastur við styrkveitingar voru kreppuár í dönsku samfélagi.
Meðal vina Johans Bülows var Grímur Jónsson Thorkelín. Þegar Bülow var í valdaaðstöðu við hirðina hafði hann milligöngu um ýmsa fyrirgreiðslu við Grím, m.a. styrki til Englandsfarar 1786–1791. Vinátta þeirra hélst eftir að Bülow féll í ónáð, og studdi hann Grím við undirbúning og útgáfu Bjólfskviðu, 1815, alls um 1.800 ríkisdali. Einnig studdi hann N. F. S. Grundtvig til að þýða kviðuna á dönsku og gefa hana út, 1820. Bülow veitti Finni Magnússyni styrk til fornritarannsókna eftir að hann kom til Kaupmannahafnar 1812. Loks má nefna að hann veitti Rasmusi Kristjáni Rask 2.000 ríkisdala styrk 1816–1817, sem gerði honum kleift að leggja í austurlandaför sína.
Bülow varð heiðursfélagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi 1818, og hann var fyrsti heiðursfélagi Fornfræðafélagsins 1825.
Konungurinn tók Bülow smám saman í sátt á árunum 1808-1822. Hlaut hann eftir það ýmsa heiðurstitla og eftirlaun til æviloka.
Johan Bülow giftist 1885 auðugri konu, Else Marie Bülow, fædd Hoppe. Þau eignuðust eina dóttur sem dó ung.
Tilvitnun
[breyta | breyta frumkóða]Mér hefur aldrei líkað hirðlífið, því að allt sem er stórt, er þar lítils metið, og það sem er smátt, fær þar oft ótrúlegt vægi. — Johan Bülow |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jens Chrisoffersen: „Hvorledes Beowulf kom til Danmark: G.J. Thorkelin, Johan Bülow og N.F.S. Grundtvig“. Bogvennen, ny række, 2. bind, bls. 19-33, Kbh. 1947.
- H. P. Rohde: Johan Bülow paa Sanderumgaard. Odense 1961.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Johan Bülow“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. febrúar 2008.