[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Ingólfshöfði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ingólfshöfði.

Ingólfshöfði er klettahöfði við ströndina suður af Öræfajökli í Austur-Skaftafellssýslu. Hann er 76 metrar á hæð þar sem hann er hæstur og er hömrum girtur en að norðvestan er að honum sandalda, Kóngsalda, og þar er hægt að komast upp á hann. Höfðinn er friðlýstur en bændur í Öræfum mega nytja hann á hefðbundinn hátt.

Höfðinn var eitt sinn eyja en er nú tengdur við land með sandi sem Skeiðará hefur borið fram. Hann er um 1200 m á lengd og 750 m á breidd. Hluti hans er vel gróinn. Mikið fuglalíf er í höfðanum, einkum langvía, lundi, fýll og álka og var áður mikil eggja- og fuglatekja í höfðanum og tilheyrði veiðirétturinn Sandfelli í Öræfum. Útræði var frá höfðanum fram á 18. öld og má sjá þar rústir af verbúðum, en hlaup í Skeiðará eru sögð hafa spillt skipalæginu. Í höfðanum er skipsbrotsmannaskýli, viti og radíóviti. Fyrst var settur viti á Ingólfshöfða árið 1916. Núverandi viti var reistur árið 1948 og er ferstrendur 10 metra hár turn. Ljóseinkenni hans er Fl(2)W 10s (2 hvít blikkljós á 10 sekúndna fresti).

Höfðinn er nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, sem sagt er að hafi haft þar vetursetu fyrsta veturinn sem hann var hér, en Hjörleifur fóstbróðir hans á að hafa farið lengra og haft vetursetu við Hjörleifshöfða. Minnisvarði um dvöl Ingólfs og Hallveigar konu hans er í höfðanum.