[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Hjólaleið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Upphækkaðar hjólareinar í Kaupmannahöfn í Danmörku.
Blandaður hjóla- og göngustígur í Nordhorn í Þýskalandi.
Hjólarein með aðskildum umferðarljósum í London.

Hjólaleiðir eru innviðir sem nýtast til hjólreiða. Þetta á við um flesta almenna vegi, göngustíga þar sem blönduð umferð hjólandi og gangandi er leyfð og vegi sem eru sérhannaðir fyrir hjólandi umferð eins og hjólareinar, sérstaka hjólastíga, hjólagötur, blandaða stíga og blandaðar götur. Hjólaleiðum tilheyra líka hjólastæði, hjólaviðgerðaaðstaða, sérstök umferðarskilti og umferðarljós fyrir hjólandi, og þar fram eftir götunum.

Hönnun og skipulag gatnakerfisins hefur mikil áhrif á það hversu gagnlegt og öruggt er að hjóla. Samtengt net hentugra hjólaleiða gerir notendum kleift að ferðast beinustu leið á milli staða án óþarfa krókaleiða. Langar hjólaleiðir liggja um dreifbýli og landsnet hjólaleiða eru til í mörgum löndum með númeruðum langleiðum. Hjólahraðbrautir eru nýtilkomin tegund hjólaleiða sem ná yfir tugi kílómetra með fáum gatnamótum.

Tegundir hjólaleiða

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólandi umferð er heimil á flestum vegum nema þar sem umferð er bæði mikil og hröð, eins og á hraðbrautum og í veggöngum í Evrópu[1]. Hjólandi umferð lýtur þá sömu umferðarreglum og önnur ökutæki. Ökutækjahjólreiðar, þar sem hjólað er á vegum innan um vélknúin ökutæki, eru algengar þar sem ekki eru aðrir innviðir til hjólreiða. Kostir slíkra hjólreiða eru taldir aukið umferðaröryggi eftir því sem fleiri hjóla (ökumenn læra að gæta sín á hjólandi), greiðari hjólandi umferð og bætt nýting umferðarmannvirkja sem þegar eru fyrir hendi[2]. Á móti hefur verið bent á að margt hjólafólk upplifi sig ekki öruggt innan um vélknúna umferð og að hjólreiðar eru mun almennari í löndum þar sem hjólandi umferð er aðskilin frá vélknúinni[3].

Í sumum löndum er öllum heimilt að hjóla á gangstéttum og stígum sem ætlaðir eru gangandi fólki, stundum með þeim fyrirvara að gangandi umferð eigi réttinn. Annars staðar eru hjólreiðar á gangstéttum bannaðar en oft með undantekningu fyrir börn. Á Íslandi var öll umferð reiðhjóla á gangstéttum bönnuð til 1981. Fyrst eftir að hjólreiðar á gangstéttum voru leyfðar á Íslandi fækkaði slysum á hjólreiðafólki nokkuð[4].

Hjólavísir

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólavísir er merki sem er málað á akrein á akvegi til að sýna að um er að ræða akrein fyrir blandaða umferð hjólandi og akandi. Í löndum með hægri umferð er vísirinn málaður á hægri helming akreinarinnar til að sýna að hjólreiðamenn eigi að halda sig hægra megin. Hjólavísar eru aðallega notaðir í Bandaríkjunum og Kanada en þá er að finna víða um heim. Hjólavísar eru taldir auka öryggistilfinningu hjólandi vegfarenda.

Hjólagata í Linköping í Svíþjóð.

Hjólagata er gata í þéttbýli þar sem hjólandi umferð hefur forgang fram yfir vélknúin ökutæki. Oftast er um að ræða götur með lágum hámarkshraða (30 eða 20 km götur) og lítilli umferð þar sem gegnumakstur bifreiða er hindraður. Hjólagötur eru merktar með skiltum og stundum lituðu malbiki til að gefa skýr skilaboð um forgang. Slíkar merkingar hafa færst í vöxt í miðborgum á meginlandi Evrópu síðustu ár sem liður í viðleitni til að draga úr vélknúinni umferð, enda umferðarhraði þar oft takmarkaður.

Hjólarein er sérstök akrein sem er einungis ætluð hjólandi umferð. Hjólareinar eru aðgreindar frá öðrum akreinum með mismunandi hætti: stundum eru þær hafðar í sömu hæð og gangstéttar, stundum eru þær aðgreindar með lágum kantsteinum og stundum einfaldlega með samfelldri eða brotinni málaðri línu. Stundum er breið rönd tekin frá milli hjólareinarinnar og akvegarins til að gera enn meiri aðskilnað en annars staðar er aðskilnaðurinn bara mjó rönd við vegöxl með hjólamerkingum. Oftast er ætlast til þess að umferð á hjólarein sé í sömu átt og umferðin á veginum við hliðina, nema um sé að ræða gegnstreymisrein sem hleypir hjólandi umferð á móti umferð á einstefnugötu. Hver hjólarein er því aðeins fyrir hjólandi umferð í eina átt. Hjólareinar eru algengar í þéttbýli þar sem umferðarhraði er takmarkaður og í dreifbýli þar sem umferð er lítil.

Hjólastígur

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólastígur er sérstakur stígur sem er aðskilinn frá annarri umferð (gangandi og vélknúinni). Stundum er stígnum skipt í tvennt með miðlínu til að aðgreina umferð úr ólíkum áttum. Umfangsmikil net hjólastíga er að finna í löndum þar sem hjólreiðar eru mjög útbreiddar, eins og í Danmörku og Hollandi. Utan þéttbýlis eru hjólastígar stundum hluti af landsneti hjólastíga í viðkomandi landi. Sérstakir hjólastígar eru notaðir þar sem mikill aðskilnaður milli hjólandi og vélknúinnar umferðar er æskilegur vegna mikillar hraðaumferðar eins og á aðalleiðum í dreifbýli í námunda við borgir. Hjólastígar og blandaðir stígar eru stundum lagðir á eða við aflagða vegi eða brautarteina.

Hjólahraðbraut

[breyta | breyta frumkóða]
Hjólahraðbraut í Enschede.

Hugmyndin um hjólahraðbraut kom fyrst fram í Hollandi eftir aldamótin 2000 og á við samfellda langa hjólaleið sem tekur við mikilli umferð og þar sem veruleg fjárfesting er lögð í leiðina með merkingum, umferðarljósum og öðrum innviðum. Á hjólahraðbrautum er gert ráð fyrir hraðfara hjólandi umferð og að hjólandi umferð eigi að jafnaði réttinn. Reynt er að hafa sem fæst gatnamót, krappar beygjur og aðrar hindranir á leiðinni til að auka skilvirkni hennar. Í sumum tilvikum eru gerðar brýr og rampar til að tengja hraðbrautina við aðrar hjólaleiðir án gatnamóta. Hjólahraðbrautir geta annars verið blanda af hjólareinum, hjólastígum og götum með blandaðri umferð. Fyrsta hjólahraðbrautin var lögð milli Breda og Etten-Leur í Hollandi, 7 km leið, árið 2004.[5] Árið 2015 hóf þýska ríkið gerð 100 km hjólahraðbrautar milli Duisburg og Hamm í Mið-Þýskalandi.[6][7]

Merkingar og umferðarljós

[breyta | breyta frumkóða]

Merkingar hjólaleiða eru mjög misjafnar eftir löndum. Algengt er að nota litað malbik og mynd af hjóli til að gefa hjólaleið til kynna. Blá skilti með mynd af hjóli eru líka algeng þar sem ætlast er til að fólk hjóli. Hins vegar eru reglur sem gilda um hjólaleiðir og merkingar mjög ólíkar milli landa. Sum staðar gefur heil eða brotin lína til kynna hvort önnur umferð sé leyfð á leiðinni en annars staðar er öll önnur umferð bönnuð á aðskildum hjólaleiðum nema annað sé sérstaklega tekið fram með skiltum. Merkingar eru lykilþáttur í þróun langleiða sem oft liggja að stórum hluta um almenna vegi. Vegvísar með númeri leiðarinnar og fjarlægðum til næstu áfangastaða eru þá notaðir til leiðbeiningar.

Sérstök umferðarljós ætluð hjólandi umferð eru notuð við gatnamót þar sem hjólandi umferð er aðskilin frá bæði gangandi og vélknúinni umferð. Í Danmörku hefur græn bylgja verið notuð til að auka forskot hjólandi umferðar á gatnamótum.

Aðrir innviðir

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólastæði

[breyta | breyta frumkóða]
Hjólastæði á mörgum hæðum í Amsterdam.

Örugg geymsla fyrir reiðhjól á áfangastað er lykilatriði í þróun hjólaleiða. Hjólagrindur eru algengasta tegund hjólastæða. Sumar grindur hafa þann ókost að erfitt er að læsa stelli hjólsins við grindina og hætta er á að gjarðir bogni. Hjólabogar og aðrar hærri hjólagrindur hafa því rutt sér til rúms síðustu ár. Þar sem slíkir innviðir eru ekki til staðar er algengt að hjólum sé læst við þau götugögn sem fyrir hendi eru, eins og stöðumæla, ljósastaura, grindur og bekki. Sum staðar er slíkt athæfi bannað með lögum.

Hjólaskýli, sem verja hjól fyrir veðri og vindum, hjólaskápar, sjálfvirkar hjólageymslur og mönnuð hjólastæðahús eru umfangsmeiri innviðir sem krefjast meiri fjárfestingar og eru algengastir þar sem hjólreiðar eru mjög almennar.

Reiðhjólaþjófnaður er svo mikið vandamál í mörgum löndum að hann stendur þróun hjólreiða fyrir þrifum. Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar til að stemma stigu við þjófnaði, eins og til dæmis hjólaskráningarkerfi og staðsetningartæki.

Búningsaðstaða

[breyta | breyta frumkóða]
Vetrarhjólreiðar í Helsinki.

Vegalengdir og veðurfar gera það oft að verkum að erfitt er að klæðast vinnufötum þegar hjólað er til vinnu. Fyrir fólk sem hjólar langar leiðir til og frá vinnu og/eða fólk sem þarf að klæðast sérstökum vinnufatnaði eða einkennisbúningum er búningsaðstaða með sturtu á áfangastað oft nauðsynleg til að hægt sé að hjóla með góðu móti.

Hjólaleigur

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólaleigur eru oft hluti af starfsemi hjólaverkstæða. Sjálfvirkar hjólaleigur þar sem hægt er að leigja hjól í stuttan tíma og skila á öðrum stað hafa vaxið í borgum síðustu ár. Sumar slíkar leigur rukka mánaðargjald eða ársgjald fyrir fólk sem ferðast reglulega til vinnu.

Hjólaverkstæði og viðgerðaaðstaða

[breyta | breyta frumkóða]

Hjólaverkstæði eru verkstæði sem fæst við samsetningu, viðgerðir og viðhald reiðhjóla. Reiðhjólavirkjar starfa á hjólaverkstæðum. Sum hjólaverkstæði veita fólki aðstoð og aðstöðu til að gera við hjólin sín sjálft. Stundum eru slík verkstæði eða reiðhjólasamlög mönnuð með sjálfboðaliðum.

Aðstaða til smáviðgerða er stundum sett upp á völdum stöðum við hjólaleiðir. Oft eru þetta hjólaviðgerðastandar þar sem hægt er að festa hjólið upp til að gera við sprungna slöngu, pumpa með loftþrýstingsmæli og helstu lyklar.

Hönnun gatnakerfa

[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að hanna gatnakerfi þannig að þau verði hagstæðari hjólreiðafólki með ýmsum hætti. Aðgerðir til að draga úr og hægja á umferð, hindra gegnumakstur og auðvelda blandaða notkun gatna hafa þau áhrif að gera hjólreiðar öruggari og hentugri. Gatnamót sem eru hönnuð til að taka mið af hjólandi umferð auka öryggi umtalsvert því þar er mesta hættan á slysum. Hringtorg eru sérstaklega hættuleg hjólreiðafólki. Sérstök umferðarmerki og umferðarljós, breiðari ytri akrein, leyfi til að hjóla á forgangsakreinum og gegn umferð í einstefnugötum eru líka aðgerðir sem hefur verið gripið til til að bæta umhverfi hjólandi vegfarenda. Við hönnun yfirborðs vega þarf að taka sérstakt tillit til hjólreiðafólks sem er á mjórri dekkjum en bifreiðar.

Dregið úr umferð

[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að draga úr umferð á leiðum sem hjólandi vegfarendur nýta sér með ýmsum leiðum. Gatnakerfi eru hönnuð þannig að vélknúinni umferð er beint frá þessum leiðum, til dæmis með hjáleiðum og hringvegum umhverfis þéttbýlisstaði.

Eins er hægt að draga úr umferð með óbeinum hætti, með því að draga úr getu innviða til að rúma vélknúna umferð. Þetta getur falið í sér fækkun akreina, takmörkun á umferð við tilteknar tegundir bifreiða á vegbrúm og gerð gatna með takmarkaðri umferð. Nokkrar borgir hafa skipt miðborgarsvæðum í umferðardilka án möguleika á akstri úr einum dilk í annan til að koma í veg fyrir gegnumakstur og draga úr umferð. Þannig er þýsku borginni Göttingen til dæmis skipt í fjóra dilka sem ekki er hægt að aka á milli. Þar er helmingur allra ferða farinn á hjóli.

Önnur nálgun er að takmarka fjölda bílastæða. Bæði Amsterdam og Kaupmannahöfn hafa notað þessa aðferð í áratugi til að takmarka umferð. Í báðum borgum er hlutur reiðhjóla í heildarumferð milli 30 og 40%.

Beinar aðferðir til að draga úr umferð geta falið í sér akstursbönn, vegtolla og gatnamegrun. Umferðarteppuskattur London sem gildir í miðborg London á háannatíma dró töluvert úr umferð.

Hægt á umferð

[breyta | breyta frumkóða]
Samnýtt rými í Brighton á Englandi.

Venjan er að nota hámarkshraða til að draga úr umferðarhraða. Á síðustu árum hafa samnýtt rými, þar sem allir ferðamátar eiga sama rétt, rutt sér til rúms. Margt bendir til þess að ökumenn fari hægar og gæti sín betur þegar þeir aka um slík rými.

Gerð samfelldra og stórra svæða þar sem hámarkshraði er 30 km/klst hefur þau áhrif að draga úr slysum á gangandi og hjólandi vegfarendum. Minni hraði dregur líka úr aðskilnaði milli hverfishluta vegna umferðar og eykur þannig samheldni hverfanna. Í Bretlandi hafa samtökin Twenty is Plenty barist fyrir því að sjálfgefinn (ómerktur) hámarkshraði í þéttbýli verði 20 mi/klst (um 30 km/klst).[8] Margir þéttbýlisstaðir í Bretlandi hafa skilgreint sig sem 20 mi/klst svæði með merkingum.

Tvístefna í einstefnugötum

[breyta | breyta frumkóða]

Einstefnugötur geta lengt leið hjólandi vegfarenda og fjölgað gatnamótum sem þeir þurfa að fara um. Vegna þessa hafa sum lönd heimilað tvístefnuhjólreiðar í götum sem annars eru einstefnugötur, ýmist með almennri lagaheimild eða með gagnstreymisreinum, mjóum akreinum sem hleypa hjólandi umferð á móti umferðarstefnu. Þýsk rannsókn bendir til þess að slíkar ráðstafanir dragi úr árekstrum hjólandi við bifreiðar.[9]

Oft er takmarkað í hvaða einstefnugötum hægt er að hjóla gegn umferð. Í Belgíu er það aðeins heimilt þar sem umferðarhraði er 50 km/klst og gatan er að minnsta kosti 3 metrar á breidd. Sumir hafa hvatt til þess að leggja einstefnugötur niður sem aðferð til að draga úr umferð vegna þess hvað hún gerir hjólandi umferð erfitt fyrir.

Hönnun gatnamóta

[breyta | breyta frumkóða]
Varin gatnamót

Almennt eru gatnamót sem gera ráð fyrir frjálsu flæði bifreiða með aðreinum og afreinum hættulegar fyrir hjólandi. Hjólreiðasamtök hafa mælt með því að hafa beygjur hvassari, leggja niður aðreinar og breyta hringtorgum í ljósastýrð gatnamót til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Varin gatnamót eru tegund af gatnamótum þar sem aukarými er tekið milli hjólareinar og akreina við gatnamót til að minnka hættu á árekstri þar sem bílar beygja til hægri, sem er algengasta ástæða slysa við gatnamót.[10] Hjólabox (framsett stöðvunarlína) við gatnamót auka sýnileika hjólandi vegfarenda með því að færa þá fram fyrir blindsvæði fremsta bíls og gefa þeim forskot til að taka af stað á grænu ljósi.[11]: 39 

Ljósastýrð gatnamót notast oft við umferðarnema til að sjá hvort ástæða sé til að hleypa umferð úr tiltekinni átt. Vandinn er að sumir þessara nema nema hjólandi umferð illa. Græn bylgja þar sem mörg umferðarljós eru tengd saman til að tryggja gott flæði gegnum mörg gatnamót í röð hefur líka verið gagnrýnd fyrir að forgangsraða í þágu vélknúinnar umferðar. Í Danmörku hefur græna bylgjan verið notuð á helstu hjólaleiðum til að tryggja betra flæði hjólandi umferðar.[12]

Samþætting við almenningssamgöngur

[breyta | breyta frumkóða]
Hjól flutt með almenningsvagni í Palo Alto í Kaliforníu.

Samþætting hjólaleiða við almenningssamgöngur leikur stórt hlutverk í áætlunum til að auka hlut hjólreiða. Í löndum þar sem hjólreiðar eru almennar er algengt að fólk ferðist með hjóli á næstu lestar- eða strætóstöð og noti síðan almenningssamgöngur til að komast það sem eftir er leiðarinnar. Hjólið er þá ýmist sett í örugga geymslu á stöðinni eða tekið með um borð og notað á áfangastað. Í sumum tilvikum eru sjálfvirkar hjólaleigur staðsettar við lestarstöðvar fyrir fólk sem hjólar það sem eftir er leiðarinnar frá stöðinni til vinnu. Til að þetta sé mögulegt þurfa því að vera öruggar hjólageymslur á eða við stöðvar, heimild til að taka reiðhjól með í lestina eða vagninn og hjólaleigur.

Heimild til að taka reiðhjól með í almenningsvagna og lestar er algeng en oft háð skilyrðum. Stundum er aðeins heimilt að geyma reiðhjól í sérmerktum farþegavögnum í lestum. Í sumum tilvikum þarf að greiða fargjald fyrir hjólið. Stundum er heimildin bundin við tíma þegar lítið er að gera og stundum er það háð aðstæðum og ákvörðun vagnstjóra hverju sinni.

Lög og reglur

[breyta | breyta frumkóða]

Mjög misjafnt er milli landa hvort og þá hvernig hjólaleiðir eru skilgreindar í lögum og reglugerðum. Oft gilda ólíkar reglur innanlands milli fylkja og jafnvel sveitarfélaga. Í flestum tilvikum þar sem hjólastígar eða hjólareinar eru skilgreindar á annað borð er notkun vélknúinna ökutækja á þeim bönnuð með öllu. Í sumum tilvikum er gerð undanþága fyrir létt bifhjól. Í sumum löndum er hjólandi umferð með sama hætti bönnuð á gangstéttum og í göngugötum, þó með undanþágu fyrir börn í mörgum tilvikum. Hjólreiðar á gangbrautum eru stundum á gráu svæði þar sem vafi getur leikið á hvort hjólandi umferð falli undir umferð ökutækja eða gangandi umferð.

Í mörgum löndum eru hjólreiðar heimilar á almennum vegum og um þær gilda sömu lög og reglur og aðra umferð. Réttur hjólandi til að nota vegina er til dæmis skilgreindur í Vínarsamningnum um umferð á vegum frá 1968. Oft eru hjólreiðar þó bannaðar á hraðbrautum og í veggöngum. Stundum er ætlast til þess að hjólandi umferð haldi sig nær vegkantinum. Misjaft er eftir löndum hvort hjólreiðar eru bannaðar þar sem til staðar eru hjólareinar eða sérstakir hjólastígar. Í Danmörku, Belgíu og Hollandi er til dæmis skylda að nota hjólareinar við vegi ef þær eru til staðar. Í Frakklandi og Þýskalandi eru ólíkar merkingar notaðar eftir því hvort notkun hjólareina er skylda eða ekki.

Til er mikill fjöldi staðla og leiðbeininga um hönnun, merkingu og flokkun hjólaleiða. Slíkir staðlar eru unnir á ýmsum stigum stjórnsýslunnar og oft í samstarfi við samtök hjólreiðafólks. Dæmi um slíka staðla eru Urban Bikeway Design Guide[13] frá samgöngustofum borga í Bandaríkjunum, Sustrans Design Manual [14] frá bresku samtökunum Sustrans, stígaflokkunarkerfi dönsku vegagerðarinnar [15], gæðastaðall sænska hjólreiðasambandsins fyrir ferðaleiðir [16] og EuroVelo-vottunarstaðallinn.[17]

Árið 2019 komu út hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólaleiðir frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðinni.[11]

Deilur um aðgreiningu

[breyta | breyta frumkóða]
Ryk hefur safnast fyrir á hjólarein.

Skiptar skoðanir eru meðal hjólreiðafólks um það hvort aðgreining frá vélknúinni umferð sé æskileg í öllum eða flestum tilvikum[18]. Algeng skoðun er að fjárfesting í sérstökum innviðum fyrir hjólandi umferð sé besta leiðin til að auka hlut hjólreiða með vísun í borgir þar sem hjólreiðar eru mjög almennar og sérstakar hjólareinar algengar eins og í Kaupmannahöfn og Amsterdam. Bent er á að slíkir innviðir henti betur hægfara hjólandi vegfarendum, til dæmis börnum og eldra fólki, og að kannanir sýna að flestir upplifi meira öryggi í þannig aðstæðum en innan um vélknúin ökutæki.

Þetta viðhorf hefur oft verið gagnrýnt. Bent hefur verið á að ekki sé endilega víst að þótt auknir innviðir hafi aukið hlut hjólreiða í borgum eins og Amsterdam og Kaupmannahöfn þýði það að sama muni gerast annars staðar. Báðar þessar borgir eru tiltölulega flatlendar og vegalengdir stuttar vegna þess hvernig þær eru skipulagðar. Eins er ekki víst að sama hönnunin henti öllum. Hjólaleiðir sem eru hannaðar þannig að 12 ára börn geti farið þar örugg um, geta verið óhentugar fyrir fullorðið hjólafólk á hraðskreiðum hjólum sem þarf að komast hratt milli staða.[19] Þeim gæti hentað betur að vera úti á veginum innan um bílana, en í mörgum tilvikum (eins og í Hollandi og Danmörku) er slíkt bannað þar sem hjólareinar eru fyrir hendi á annað borð. Gerð aðgreindra hjólainnviða gæti þannig virkað öfugt og dregið úr áhuga margra á því að hjóla.

Í mörgum tilvikum hefur reynslan sýnt aukningu hjólreiða þar sem fjárfest hefur verið í aðskildum innviðum fyrir hjólandi umferð, en ekki öllum. Í sumum tilvikum hefur aukningin verið langt undir væntingum, sem bendir til þess að fleira þurfi til að fólk vilji hjóla í stað þess að ganga eða aka milli staða.

Hugmyndin um að aðgreining auki öryggi hjólandi vegfarenda hefur líka verið gagnrýnd á þeim forsendum að með því að „fela“ hjólreiðafólkið fyrir ökumönnum, gái þeir síður að sér sem leiðir til aukinnar áhættu þar sem þessir tveir hópar mætast, eins og á gatnamótum. Þar sem hjólreiðar innan um bílaumferð eru algengar læra ökumenn að gæta sín á hjólandi og hætta á slysum minnkar.

Eins hefur uppbygging aðgreindra innviða verið gagnrýnd vegna þess að reynslan sýni að þegar kemur að þjónustu eins og hreinsun og viðhaldi vega lenda slíkir innviðir neðarlega í forgangsröðinni.[20] Þannig eigi til að safnast rusl, aur og snjór á hjólareinar og hjólastíga, sem er seint og illa hreinsaður. Bent hefur verið á að stígarnir eru stundum þannig að snjóruðningstæki og götusóparar eiga erfitt með að athafna sig á þeim. Þá hefur verið bent á að algengt er að atvinnubílstjórar noti hjólareinar sem tímabundin stæði. Allt verður þetta til þess að hjólastígar og hjólareinar nýtast hjólandi vegfarendum illa til að komast leiðar sinnar.

Af þessu leiðir sú gagnrýni að uppsetning illa hannaðra stíga sem ekki er haldið við, og sem verða síðan átylla til að banna hjólreiðar á vegum, sé fyrst og fremst í þágu bifreiða og dragi í raun úr nytsemi hjólreiða þótt yfirlýst markmið sé að auka hana.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Sjá t.d. Vínarsamninginn um umferð á vegum og Uniform Vehicle Code í Bandaríkjunum.
  2. Forester (1993). Effective Cycling. MIT Press.
  3. Hunt, JD; Abraham, JE (2007). „Influences on Bicycle Use“. Transportation 34(4): 453–470. doi:10.1007/s11116-006-9109-1.
  4. Óskar Dýrmundur Ólafsson. „Reiðhjólið á Íslandi í 100 ár“. Fjallahjólaklúbburinn. Sótt 16. maí 2019.
  5. Mark W. (10.11.2011). „First cycle "superhighway" revisited“. A view from the cycle path. Sótt 30.8.2023.
  6. „Radschnellweg Ruhr RS1“. Regionalverband Ruhr. Sótt 30.8.2023.
  7. Irene Banos Ruiz (4.1.2016). „Germany's bicycle autobahn“. DW. Sótt 30.8.2023.
  8. „Welcome“. 20's Plenty for Us. Sótt 30.8.2023.
  9. Verkehrssicherheit in Einbahnstraßen mit gegengerichtetem Radverkehr Geymt 14 maí 2009 í Wayback Machine, Alrutz, D., Angenendt, W., Draeger, W., Gündel, D., Straßenverkehrstechnik, 6/2002
  10. Richard Butler, Jonathan Salter, Dave Stevens, Brian Deegan (July 2019). Greater Manchester’s cycling and walking network: CYCLOPS – Creating Protected Junctions. [1]
  11. 11,0 11,1 Hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar: Leiðbeiningar sveitarfélaga Höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar (PDF) (Report). EFLA Verkfræðistofa. 19.12.2019.
  12. „Green Waves for bicycles in Copenhagen“. Center for Public Impact. 8.4.2016. Sótt 30.8.2023.
  13. „Urban Bikeway Design Guide - National Association of City Transportation Officials“.
  14. „Sustrans Design Manual“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. september 2015. Sótt 8. júlí 2015.
  15. „Stiklassificering“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. september 2020. Sótt 24. október 2017.
  16. „Kvalitetsklassning – svenska cykelturistleder“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júlí 2017. Sótt 24. október 2017.
  17. „European Certification Standard“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17. maí 2017. Sótt 24. október 2017.
  18. Stromberg, Joseph (19. september 2014). „Should bikes and cars share the same road — and the same rules?“. Vox. Sótt 16. maí 2019.
  19. Book reviews, The National Cycle Network-guidelines and practical details, M.N. Fargher, Proceedings of the Institute of Civil Engineers, Transport, 117, p. 239, August 1996
  20. Two decades of the Redway cycle paths of Milton Keynes, J. Franklin. Traffic Engineering and Control, August 1999.