Klaus Iohannis
Klaus Iohannis | |
---|---|
Forseti Rúmeníu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 21. desember 2014 | |
Forsætisráðherra | Listi
|
Forveri | Traian Băsescu |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 13. júní 1959 Sibiu, Rúmeníu |
Þjóðerni | Rúmenskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn (2014–) Frjálslyndi þjóðarflokkurinn (2013–2014) Lýðræðisvettvangur Þjóðverja í Rúmeníu (1990–2013) |
Maki | Carmen Lăzurcă (g. 1989) |
Trúarbrögð | Lútherskur |
Börn | 2 |
Háskóli | Babeș-Bolyai-háskóli |
Verðlaun | Karlsverðlaunin (2020) |
Undirskrift |
Klaus Werner Iohannis (f. 13. júní 1959) er rúmenskur stjórnmálamaður sem hefur verið forseti Rúmeníu frá árinu 2014. Hann var áður leiðtogi hægrisinnaða Frjálslynda þjóðarflokksins (rúmenska: Partidul Național Liberal, PNL) og var borgarstjóri borgarinnar Sibiu frá 2000 til 2014. Iohannis er úr minnihlutahópi þýskumælandi Rúmena og er fyrsti forseti landsins úr þeim hópi.[1] Iohannis var kjörinn forseti árið 2014 og endurkjörinn 2019.[2]
Bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Iohannis útskrifaðist úr eðlisfræðinámi við Babeș-Bolyai-háskólann í Cluj-Napoca (Klausenburg) árið 1983 og hefur unnið sem menntaskólakennari við ýmsa skóla. Hann vann við Samuel von Brukenthal-menntaskólann, einn elsta þýska skóla í Rúmeníu, frá 1989 til 1997. Frá 1997 til 1999 var hann staðgengill aðalskólaeftirlitsmannsins í Sibiu-fylki og frá 1999 til 2000 var hann aðalskólaeftirlitsmaður og þar með æðsti stjórnandi skólakerfisins í fylkinu, sem telur til sín um það bil hálfa milljón íbúa.
Iohannis er af ætt Transylvaníusaxa[3] og tilheyrir því þjóðarbroti með þúsunda ára sögu í Transylvaníu, sem var lengi hluti af Ungverjalandi, Habsborgaraveldinu og um skeið furstadæmi innan Tyrkjaveldis áður en hún varð hluti Rúmeníu. Systir hans, Krista, og foreldrar þeirra, Susanne og Gustav Heinz Iohannis, fluttu til Würzburg í Þýskalandi árið 1992 og fengu þar þýskan ríkisborgararétt samkvæmt lögum sem heimila þýskættuðu fólki erlendis frá slíkan rétt. Margir Transylvaníusaxar hlutu þýskan ríkisborgararétt á þessum tíma. Klaus Iohannis hefur verið kvæntur Carmen Iohannis, sem vinnur sem enskukennari við skóla í Sibiu, frá árinu 1989.
Iohannis er meðlimur í þýskumælandi lútersku kirkjunni í Transylvaníu, Evangelische Kirche A.B. in Rumänien. Hann talar þýsku að móðurmáli en kann einng rúmensku og ensku.
Borgarstjóri Sibiu
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2000 ákvað stjórnmálaflokkur þýska minnihlutans, Lýðræðisvettvangur Þjóðverja í Rúmeníu (þ. Demokratisches Forum der Deutschen in Rumänien) að útnefna eigin frambjóðanda í borgarstjórakosningum Sibiu. Iohannis, sem hafði verið virkur innan flokksins frá stofnun hans árið 1990, varð fyrir valinu.
Þótt þýski minnihlutinn í Sibiu sé litinn hornauga og sé aðeins tæplega tvö prósent íbúafjöldans var Iohannis kjörinn borgarstjóri með 69,18 % atkvæðanna.[4] Hann varð þar með fyrsti þýskumælandi borgarstjóri í rúmenskri borg frá árinu 1945. Sibiu hefur í gegnum aldirnar verið ein helsta menningarmiðstöð Transylvaníusaxa.
Á fyrsta kjörtímabili sínu sem borgarstjóri vann Iohannis í samstarfi við Jafnaðarmannaflokkinn. Árið 2004 var hann endurkjörinn með 88,7 % atkvæða og þýski flokkurinn náði einnig hreinum meirihluta í borgarstjórninni. Iohannis átti í góðu sambandi við Evrópusambandið og erlenda fjárfesta og fjöldi fyrirtækja fluttu til borgarinnar á stjórnartíð hans. Iohannis hóf einnig endurbyggingu á eldri hverfum borgarinnar og á samfélagsinnviðum og Sibiu varð einn vinsælasti ferðamannastaður Rúmeníu á síðustu árum. Árið 2004 valdi Evrópusambandið Sibiu sem Menningarborg Evrópu fyrir árið 2007. Sibiu deildi þessum heiðri með Lúxemborg þar sem margir Transylvaníusaxar höfðu flutt til Transylvaníu frá Lúxemborg fyrir rúmum þúsund árum.
Iohannis var aftur endurkjörinn með 83,2 % atkvæða árið 2008 og flokkur hans viðhélt hreinum meirihluta í borgarstjórninni.[4] Iohannis vann fjórða kjörtímabil sitt sem borgarstjóri Sibiu með 77,9% atkvæða í júní 2012.[4]
Forsætisráðherraefni
[breyta | breyta frumkóða]Í október 2009 ákváðu fjórir af fimm stjórnmálaflokkum á þingi Rúmeníu að útnefna Iohannis forsætisráðherra nýrrar samsteypustjórnar eftir að forsætisráðherrann Emil Boc féll fyrir vantrauststillögu. Iohannis naut stuðnings Jafnaðarmannaflokksins (PSD, Frjálslynda þjóðarflokksins (PNL), Lýðræðisbandalags Ungverja í Rúmeníu og hagsmunaflokks minnihlutahópa. Iohannis var teflt fram sem óháðum stjórnmálamanni sem nyti þverpólitískrar virðingar og var álitinn skilvirkur og óspilltur stjórnandi. Rúmenía var á þessum tíma sárþjökuð vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og spillingar og litið var á trausta ríkisstjórn sem nauðsynlega forsendu þess að hægt væri að sækja um hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Samkvæmt stjórnarskrá Rúmeníu getur aðeins forseti landsins útnefnt forsætisráðherra, sem þingið verður síðan að staðfesta. Forsetinn Traian Băsescu, sem átti í deilum við alla stjórnmálaflokka á þingi nema sinn eigin (hann hafði verið tímabundið leystur úr forsetaembætti árið 2007) útnefndi tvo aðra frambjóðendur til forsætisráðherraembættisins en þingið hafnaði þeim. Þann 21. október samþykkti rúmenska þingið ályktun þar sem stuðningi var lýst við Iohannis sem forsætisráðherraefni og þess var krafist af forsetanum að hann útnefndi hann í embættið. Stjórnarandstaðan sakaði Băsescu um að koma í veg fyrir stofnun nýrrar stjórnar til þess að stjórn Boc yrði að sitja áfram sem utanþingsstjórn og gæti þannig haft áhrif á forsetakosningar sem halda átti undir lok ársins. Băsescu sagðist þó ekki hafa neitt á móti Iohannis, heldur væri hann á móti aðilunum sem hefðu útnefnt hann sem forsætisráðherra, og að hann útilokaði ekki í sjálfu sér að Iohannis gæti leitt nýja stjórn.
Eftir fyrri umferð forsetakosninganna þann 22. nóvember 2009, sem lauk með því að Băsescu og jafnaðarleiðtoginn Mircea Geoană komust í aðra umferð, gengu flokkarnir sem höfðu stutt Iohannis í kosningabandalag þar sem því var lofað að Geoană myndi útnefna Iohannis forsætisráðherra ef hann næði kjöri til forseta. Flestar skoðanakannanir spáðu Geoană sigri en eftir aðra kosningaumferð þann 7. desember 2009 var tilkynnt að Băsescu hefði unnið með 50,33 % atkvæðanna. Stjórnarandstaðan neitaði í fyrstu að viðurkenna niðurstöðuna, sakaði Băsescu um kosningasvindl og reyndi að fá stjórnlagadómstól Rúmeníu til að ógilda kosningarnar.[5]
Flokksleiðtogi
[breyta | breyta frumkóða]Iohannis gekk í Frjálslynda þjóðarflokkinn (rúmenska: Partidul Național Liberal) í febrúar 2013[4] og var leiðtogi flokksins frá júní 2014[6][7] til desember sama árs.
Forsetakosningar árin 2014 og 2019
[breyta | breyta frumkóða]Iohannis tilkynnti haustið 2009 að hann hefði mögulega áhuga á að gefa kost á sér í forsetakosningum en hann lét ekki verða af því í kosningum þetta ár. Fyrrum forsætisráðherrann Călin Popescu-Tăriceanu lýsti í kjölfarið yfir að hann gæti vel hugsað sér Iohannis sem forseta eða forsætisráðherra. Iohannis var bendlaður við forsetaframboð í júní 2014 í aðdraganda forsetakosninganna það ár.[6] Hann var valinn sem forsetaframbjóðandi bandalags kristilegra og frjálslyndra flokka og vann í annarri umferð gegn forsætisráðherranum Victor Ponta, sem var frambjóðandi kosningabandalags Jafnaðarmanna og íhaldsmanna. Iohannis var endurkjörinn í forsetakosningum ársins 2019.[8][9]
Gagnrýni
[breyta | breyta frumkóða]Í desember 2014 var Iohannis gagnrýndur þar sem hann hafði veitt Octav Bjoza, formanni samtaka fyrrum pólitískra fanga í Rúmeníu, rúmensku stjörnuorðuna. Bjoza hafði mörgum sinnum farið fögrum orðum um Járnvörðinn, samtök fasista sem voru virk í Rúmeníu á fjórða og fimmta áratugnum.[10] Octav Bjoza neitaði ásökunum um að hann styddi hreyfinguna.[11][12]
Í mars árið 2016 fór Iohannis eftir tilmælum heiðursnefndar rúmenskra orðuhafa og lét svipta László Tőkés, einn leiðtoga rúmensku byltingarinnar 1989, æðstu heiðursorðu Rúmeníu. Stjórnmálafræðingurinn Vladimir Tismăneanu við Háskólann í Maryland kallaði ákvörðun Iohannis „hefnd Securitate“ og „hápunkt svívirðilegrar aðfarar gegn Tőkés sem hefur staðið yfir í mörg ár.“[13]
Í kosningabaráttunni um forsetaembættið komst það í sviðsljósið að Iohannis ætti þrjú hús og þrjár íbúðir. Hann sagði að þetta væru fjárfestingar sem hann hefði gert ásamt konu sinni á efri árum og hefði aflað fjár til þeira með launum, húsaleigu, einkakennslu og peningum og lánum vinum og foreldrum þeirra beggja.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Stórsigur Iohannis“. mbl.is. 18. nóvember 2014. Sótt 19. nóvember 2021.
- ↑ Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (24. nóvember 2019). „Klaus Iohannis endurkjörinn forseti Rúmeníu“. RÚV. Sótt 19. nóvember 2021.
- ↑ Valentina Pop (17. nóvember 2014). „Romanians elect first ethnic German president“ (enska). euobserver. Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 „Cine este Klaus Iohannis. BIOGRAFIA preşedintelui ales al României“. Mediafax.ro. Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ „Social Democrats decided to contest elections / Mircea Geoana: we exclude any collaboration with the Democrat Liberals and maintain the majority with the Liberals and Hungarian Democrats“. HotNewsRo. Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ 6,0 6,1 Tiroler Tageszeitung 28. juni 2014, sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ Heimasíða Klaus Iohannis Geymt 2 júlí 2014 í Wayback Machine sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ Florian Hassel. „Präsident Johannis wiedergewählt“. Süddeutsche.de (þýska). Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ Róbert Jóhannsson (24. maí 2019). „Rúmenar kjósa um spillingu og Evrópuþingmenn“. RÚV. Sótt 19. nóvember 2021.
- ↑ Rumänien: Präsident Johannis wegen umstrittener Ehrung in der Kritik, derstandard.at, 27. desember 2014.
- ↑ Klaus Iohannis, criticat pentru decorarea lui Octav Bjoza. I: Cotidianul 26. desember 2014, á rúmensku.
- ↑ Klaus Iohannis, criticat pentru decorarea lui Octav Bjoza. MCA România: „A semnat un dezamăgitor act de populism“. I: Adevarul vom 26. desember 2014, á rúmensku.
- ↑ Keno Verseck: Rumäniens Staatschef Johannis. Der Dilettant. I: Der Spiegel, 12. mars 2016, á þýsku.
Fyrirrennari: Traian Băsescu |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |