[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Karl Dönitz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Dönitz
Forseti Þýskalands
Í embætti
30. apríl 1945 – 23. maí 1945
KanslariJoseph Goebbels
Lutz Schwerin von Krosigk
ForveriAdolf Hitler (sem Führer)
EftirmaðurHernám bandamanna
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. september 1891
Grünau, Berlín, Prússlandi, Þýska keisaraveldinu
Látinn24. desember 1980 (89 ára) Aumühle, Slésvík-Holtsetalandi, Vestur-Þýskalandi
MakiIngeborg Weber
Börn3
StarfFlotaforingi
Undirskrift

Karl Dönitz (16. september 1891 – 24. desember 1980) var þýskur flotaforingi sem stýrði þýska sjóhernum í seinni heimsstyrjöldinni. Dönitz tók í stuttan tíma við af Adolf Hitler sem þjóðhöfðingi Þýskalands eftir dauða Hitlers.

Dönitz hóf feril sinn í sjóher þýska keisaraveldisins fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Árið 1918 var hann settur við stjórn kafbátsins SM UB-68 en breski herinn sökkti kafbátnum stuttu síðar og tók Dönitz til fanga. Á meðan Dönitz var stríðsfangi þróaði hann hertækni sem hann átti síðar eftir að kalla Rudeltaktik.[1] Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar var Dönitz yfirmaður kafbáta í þýska sjóhernum (Kriegsmarine). Hann tók þátt í því að gera þýska kafbátaflotann þann stærsta í heimi í andstöðu við Versalasamninginn.[2] Í janúar 1943 var Dönitz gerður að stórflotaforingja og tók við af Erich Raeder sem yfirmaður þýska flotans.

Þann 30. apríl 1945, eftir dauða Adolfs Hitler, var Dönitz lýstur eftirmaður hans og forseti Þýskalands í samræmi við erfðaskrá Hitlers. Hann varð jafnframt yfirmaður þýska hersins. Til að byrja með skipaði Dönitz þýska hernum að berjast áfram til þess að flotinn hefði meiri tíma til að framkvæma Hannibalsaðgerðina svokölluðu til að bjarga þýskum hermönnum og borgurum sem rauði herinn var búinn að umkringja meðfram Eystrasalti. Dönitz neyddist til að ganga til samninga til að gefast upp fyrir bandamönnum eftir að stjórnin frétti að her Bernards Montgomery hefði komist til Jótlands á undan sovéska hernum og þar með lokað undankomuleiðinni sem Dönitz hafði hugsað sér að nota.[3]

Þann 7. maí 1945 skipaði Dönitz Alfred Jodl að undirrita uppgjöf Þjóðverja í Reims í Frakklandi. Dönitz varð áfram þjóðhöfðingi Flensborgarstjórnarinnar, eins og hún varð síðar kölluð, þar til bandamenn leystu hana upp þann 23. maí. Í Nürnberg-réttarhöldunum var Dönitz sakfelldur fyrir stríðsglæpi er snertu óhamdan kafbátahernað Þjóðverja. Hann var hins vegar náðaður af ákæru um glæpi gegn mannúð og því dæmdur til tíu ára fangelsisvistar fremur en til dauða eins og margir samstarfsmenn hans. Eftir að honum var sleppt settist hann að í þorpi nálægt Hamborg og lifði þar rólegu lífi þar til hann lést árið 1980.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dönitz, Karl. Memoirs.
  2. „Maðurinn sem stjórnar kafbátahernaði Þjóðverja“. Alþýðublaðið. 28. júlí 1942. bls. 5-6.
  3. „Arftakar Hitlers hyggjast bjarga Þýskalandi“. Lifandi vísindi. 24. nóvember 2021. Sótt 11. desember 2021.


Fyrirrennari:
Adolf Hitler
(sem Führer)
Forseti Þýskalands
(30. apríl 194523. maí 1945)
Eftirmaður:
Theodor Heuss
(1949, sem forseti Vestur-Þýskalands)
Wilhelm Pieck
(1949, sem forseti Austur-Þýskalands)


  Þetta æviágrip sem tengist Þýskalandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.