[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Konráð Gíslason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konráð Gíslason

Konráð Gíslason (3. júlí 18084. janúar 1891) var íslenskur málfræðingur og einn Fjölnismanna. Hann var fæddur á Löngumýri í Skagafirði og var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og konu hans, Efemíu Benediktsdóttur. Hann fékk einhverja tilsögn hjá séra Jóni Konráðssyni og dóttur hans en naut engrar annarrar skólagöngu, gætti sauða föður síns á vetrum og sat yfir fé á sumrum.

Þegar hann var á átjánda ári fór hann suður til sjóróðra og vann um sumarið við grjóthleðslu á Álftanesi fyrir Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, en Gísli faðir hans hafði látið hann prófa kunnáttu Konráðs tveimur árum áður. Brátt fór Hallgrímur að kalla vinnumanninn inn úr grjóthleðslunni og láta hann bera saman íslensk fornrit með sér og las síðan með honum latínu. Svo fór að Hallgrímur tók Konráð upp á sína arma, útvegaði honum ölmusu (skólastyrk) þegar hann hóf nám í Bessastaðaskóla, hafði hann í vinnu hjá sér á sumrin og með skólanum og styrkti hann á ýmsan hátt. Vorið 1831 lauk Konráð námi, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla um haustið og kom ekki aftur til Íslands.

Hann hóf nám í lögfræði en fljótlega náði áhugi hans á norrænum fræðum og íslenskri tungu yfirhöndinni. Þeir Jónas Hallgrímsson, Brynjólfur Pétursson og Tómas Sæmundsson voru skólabræður hans úr Bessastaðaskóla og í Höfn og 1834 stofnuðu þeir tímaritið Fjölni og gáfu fyrsta tölublað þess út ári síðar. Konráð vildi laga íslenska stafsetningu að framburði og innleiddi nýja stafsetningu í öðrum árgangi Fjölnis en hugmyndir hans á því sviði náðu aldrei fótfestu og hann hvarf frá henni síðar. Áhrif hans á íslenskt ritmál urðu þó mikil.

Konráð Gíslason

Konráð varð styrkþegi Árnasafns 1839 og vann næstu ár að orðabókargerð og rannsóknum á íslensku máli. Hann var brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð, samdi meðal annars Danska orðabók (1851) og átti mikinn þátt í íslensk-enskri orðabók sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon. Hann rannsakaði fornmálið og gerði fyrstur grein fyrir muninum á íslensku fornmáli og nútímamáli í ritinu „Um frumparta íslenzkrar túngu í fornöld“ (1846). Þá gaf Konráð út fornrit, meðal annars Njálu (1875-1889) þar sem hann valdi saman texta úr ólíkum handritum eftir því sem honum þótti fara best.

Árið 1846 var honum veitt kennarastaða við Lærða skólann sem hann hafnaði þó stuttu seinna, enda hafði hann þá fengið vilyrði um kennarastöðu í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Það embætti fékk hann 1848 og var gerður að prófessor 1853. Hann hélt þeirri stöðu til 1886.

Dönsk unnusta Konráðs dó 1846, skömmu fyrir fyrirhugað brúðkaup þeirra, og tók hann lát hennar mjög nærri sér. Níu árum síðar giftist hann systur hennar og bjuggu þau saman þar til hún lést árið 1877. Hann arfleiddi Árnasafn að eignum sínum og handritum eftir sinn dag.

  • Aðalgeir Kristjánsson (1984). Bréf Konráðs Gíslasonar. Stofnun Árna Magnússonar.
  • „Æfiágrip Gísla sagnfræðings Konráðssonar, ritað af honum sjálfum“.