[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Kolmunni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kolmunni
Kolmunni á færeysku frímerki.
Kolmunni á færeysku frímerki.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Þorskfiskar (Gadiformes)
Ætt: Þorskaætt (Gadidae)
Ættkvísl: Micromesistius
Tegund:
M. poutassou

Tvínefni
Micromesistius poutassou
Antoine Risso (1826)

Kolmunni (fræðiheiti: Micromesistius poutassou) er hvítur fiskur af þorskaætt. Hann finnst í Norður- og Norðaustur-Atlantshafi, allt frá Svalbarða að strönd Norður-Afríku. Hann verður um hálfur metri á lengd og getur náð tuttugu ára aldri. Kolmunni var lítið veiddur fyrir 1980 en er nú orðinn mikilvægur nytjafiskur.


Kolmunni er uppsjávarfiskur af þorskaætt. Hann er fremur smávaxinn, rennilegur, lang- og grannvaxinn. Gotraufin er mjög framarlega á stuttum bolnum, en stirtlan er löng og sterk. Hausinn er meðalstór, augu fremur stór og munnurinn í meðallagi. Fiskurinn er yfirmynntur og hefur engan hökuþráð. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir. Kviðuggar kynjanna eru ólíkir þar sem uggar hængsins hafa mun lengri ytri geisla. Eru þeir fremur smáir og staðsettir nokkuð framan við eyruggana sem eru í meðallagi stórir. Sporðurinn er sýldur og hvasshyrndur, hreistrið er frekar stórt og þunnt. Kolmunninn er silfurgrár á baki, hliðum og á kvið. Mógrá rákin er hátt uppi á bolnum og aðeins sveigð niður aftan til á móts við aftasta bakugga. Munnur hans er svartur að innan og dregur hann nafn sitt af því.[1]

Sú tegund kolmunna sem fjallað er um hér finnst aðallega í Norðaustur-Atlantshafi frá Svalbarða suður til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Hann finnst einnig við Grænland og undan ströndum Kanada og Bandaríkjanna.[2] Önnur tegund kolmunna er þekkt (Micromesistius australis) en hún finnst í Suðvestur-Atlantshafi og Suðvestur-Kyrrahafi. Hér við land finnst kolmunni einkum við suðaustur-, suður- og suðvesturströndina.[1]

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]

Hann er úthafs-, uppsjávar- og miðsjávarfiskur en ungur kolmunni getur verið botnlægur. Hann getur vart kallast torfufiskur en hefur tilhneigingu til að mynda þéttar ræmur. Kynþroska kolmunni er algengastur á 300-500 m dýpi en ókynþroska fiskur gengur grynnra. Hann finnst þó allt frá yfirborði niður á meira en 1000 m dýpi.[1]

Fæða og óvinir

[breyta | breyta frumkóða]

Fæða kolmunna er einkum ljósáta, krabbaflær og fiskseiði. Stærri kolmunnar éta einnig smáa smokkfiska, laxsíldir og annað sem hann hann ræður við. Ránfiskar sem éta kolmunna eru einkum ýmsir stærri fiskar, eins og þorskur, ufsi, lúða og lýsingur. Hvalir éta hann talsvert og finnst oft í honum hvalormur. Oft finnast gróhylki frumdýrs nokkurs í lifur fisksins, sem geta valdið honum miklum skaða.[1]

Kolmunninn verður kynþroska 2-7 ára gamall. Aðalhrygningarstöðvarnar eru með landgrunnsbrúninni og við úthafsbankana vestan og norðvestan Bretlandseyja, allt norður undir færeyska landgrunnið. Hrygningin fer fram á 250-450 m dýpi. Hrognasekkir 30 cm langrar hrygnu eru með um 48 þús. egg, sem klekjast út sem 2-3 mm langar lirfur að viku liðinni. Lirfurnar eru sviflægar fram eftir sumri en leita botns seinni part sumars.[1]

Aldur og vöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Vaxtarhraðinn er mikill, einkum fyrsta árið, og eins árs er hann orðinn 18-20 cm lengd og 50-70 g að þyngd. Um sjö ára aldur er fiskurinn orðinn um 32 cm langur og 200-250 g þungur, og dregur þá verulega úr vaxtarhraðanum. Hængurinn vex að jafnaði hægar og verður aldrei eins stór.[1] Kolmunni er talinn ná um 20 ára aldri.[2]

Kolmunni er ein af 10 mest veiddu fisktegundum í heimi. Stofninn er mjög stór og er í Norðaustur-Atlantshafi aðallega veiddur í flotvörpu. Eftir tveggja áratuga hlé hófu Íslendingar á ný miklar veiðar á kolmunna árið 1998 og fór aflinn mest í um 500 þús. tonn, en þá var heildarafli úr stofninum hátt í 2 millj. tonna. Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið gerðu með sér samkomulag í desember 2005 um veiðar úr kolmunnastofninum. Á aðalfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndar (NEAFC) í október 2007 var svo samþykkt, með hliðsjón af því samkomulagi, að veiðar úr þessum stofni yrðu ekki meiri en 1.250 þús. tonn árið 2008. Hlutur Íslendinga er tæp 203 þús. tonn.[3] Meira en 95% aflans fer í bræðslu en stækkandi hluti er sjófrystur og seldur til manneldis. Helmingur aflans er seldur til Noregs sem fiskifóður.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Sveinn Sveinbjörnsson (1998). Lífríki sjávar: Kolmunni. Reykjavík: Námsgagnastofnun og Hafrannsóknarstofnunin.
  2. 2,0 2,1 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson, & Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar. Reykjavík: Mál og menning.
  3. Þorsteinn Sigurðsson, & Guðmundur Þórðarson (2008). Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2007/2008 - aflahorfur fiskveiðiárið 2008/2009, fjölrit nr. 138. Reykjavík: Hafrannsóknarstofnunin.
  4. Hreiðar Þór Valtýsson (2008). Main species - Blue whiting. Sótt 15. apríl 2009 frá Icelandic Fisheries[óvirkur tengill]
  • „Hversu stór og af hvaða ætt er kolmunni?“. Vísindavefurinn.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.