[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Gæsluvarðhald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gæsluvarðhald er þvingunarúrræði er felur í sér frelsissviptingu einstaklings um lengri tíma. Gæsluvarðhaldsföngum er frjálst að vera í samskiptum við umheiminn að vild á meðan á gæsluvarðhaldi stendur, nema dómari hafi fallist sérstaklega á einangrun.

Almenn skilyrði

[breyta | breyta frumkóða]

Helstu almennu skilyrðin fyrir því að beita megi gæsluvarðhaldi er að fyrir liggi rökstuddur grunur um að hið meinta brot hafi verið framið og að viðkomandi einstaklingur hafi framið það. Þá þarf hið meinta brot að varða fangelsisrefsingu en þó ekki augljóst að viðkomandi muni einvörðungu vera sektaður eða hljóta skilorðsbundna refsingu ef sakfelldur. Að lokum þarf viðkomandi að vera 15 ára eða eldri.

Sérstök skilyrði

[breyta | breyta frumkóða]

Auk almennu skilyrðanna þarf eitthvert hinna sérstöku skilyrða að vera uppfyllt en þar er aðallega um að ræða rannsóknarhagsmuni, hættu á flótta og undankomu, hættu á endurteknum brotum, nauðsynjar til að varna gegn árás, eða almannahagsmunir.

Í stjórnarskrá Íslands eru sérstök skilyrði um hvenær megi setja alþingismann í gæsluvarðhald en helsta skilyrðið er að Alþingi megi ekki vera að störfum, en það skilyrði gildir þó ekki ef alþingismaðurinn er staðinn að glæp eða þingið heimili gæsluvarðhaldið sérstaklega. Forsendur fyrir þessum auknu skilyrðum í tilviki þingmanna eru sjónarmið um þrískiptingu ríkisvaldsins og koma í veg fyrir að aðrir armar framkvæmdavaldsins fari að hneppa þingmenn í gæsluvarðhald til þess að hafa óeðlileg áhrif á löggjafarstörf Alþingis.

Þá gilda einnig sérstök skilyrði að þjóðarétti um að sendierindreka annarra ríkja má ekki hneppa í gæsluvarðhald án sérstaks leyfis sendiríkisins. Ólíkt undantekningunum er gilda um þingmenn skiptir ekki máli þótt viðkomandi sé staðinn að glæp og ennfremur skiptir alvarleiki glæpsins engu máli í þessu samhengi.