[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Friður Níkíasar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Friður Níkíasar er heiti á friðarsamningum milli forngrísku borgríkjanna Aþenu og Spörtu frá mars 421 f.Kr. Með samningunum lauk fyrsta skeiði Pelópsskagastríðsins. Friðarsamningarnir eru nefndir eftir aþenska herforingjanum og stjórnmálamanninum Níkíasi.

Árið 425 f.Kr. höfðu Spartverjar tapað orrustunum við Pýlos og Sfakteríu með slæmum afleiðingum. Aþeningar héldu 120 spartverskum hoplítum föngnum. Spartverjar náðu sér eftir ósigrana ári síðar þegar spartverski herforinginn Brasídas náði borginni Amfípólis á sitt vald. Sama ár biðu Aþeningar mikinn ósigur í Böótíu í orrustunni við Delíon. Árið 422 f.Kr. biðu þeir ósigur aftur í orrustunni við Amfípólis þar sem þeir reyndu að ná borginni aftur. Bæði Brasídas, sem leiddi spartverska herinn, og Kleon, helsti stjórnmálamaður Aþeninga, létust í orrustunni. Aþena og Sparta voru báðar að þrotum komnar og vildu gjarnan frið.

Pleistoanax, konungur Spörtu, og aþenski herforinginn og stjórnmálamaðurinn Níkías hófu samningaviðræðurnar. Báðir féllust á að skila öllu því landsvæði sem þeir höfðu náð á sitt vald í stríðinu að Nísaju undanskildri en hún átti að vera áfram í höndum Aþeninga, og Plataju, sem átti að vera áfram undir yfirráðum Þebu. Aþeningar áttu að fá Amfípólis aftur en Aþeningar áttu í staðinn að skila herföngum þeim er þeir tóku eftir orrustuna við Sfakteríu. Úti um allt Grikkland áttu hof að vera opin hverjum þeim sem þar vildi tilbiðja guðina og véfréttin í Delfí átti að verða sjálfráð á ný. Aþena mátti innheimta skatt frá þeim ríkjum sem áður höfðu greitt skatt til hennar en mátti þó ekki neyða þau til þess að verða bandamenn hennar. Aþena féllst enn fremur á að koma til aðstoðar Spörtu ef helótarnir gerðu uppreisn. Allir bandamenn Spörtu féllust á að ganga að skilmálunum, nema Böótía, Kórinta, Elís og Megara.

Sautján fulltrúar beggja aðila sóru þess eið að virða samninginn sem átti að vara í fimmtíu ár. Hvorugur aðilinn var samt sáttur og friðurinn var síðar rofinn.