[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Fleirtala

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fleirtala (skammstafað sem ft.) er hugtak í málfræði og tala, sem gefur oftast til kynna fleiri en eitt fyrirbæri.

Dæmi:

et. fleirtala
maður menn
belja beljur
tuska tuskur

Mörg orð hafa tvær eða jafnvel fleiri mismunandi fleirtölur eins og orðið kleinuhringur sem getur bæði verið „kleinuhringir“ eða „kleinuhringar“ í fleirtölu. Til að sjá fleiri dæmi má skoða listann yfir mismunandi rithætti íslenskra orða.

Listi yfir fleirtöluorð í íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Sum orð í íslensku eru fleirtöluorð, en það eru orð sem ekki eru til í eintölu. Tvennt ber að varast við fleirtöluorð. Í fyrsta lagi þegar talað er um þau með tölulýsingarorðum upp að fimm (sbr.: einir, tvennir, þrennir, fernir og svo fimm), þá er ekki sagt tvær buxur, heldur tvennar buxur, þrennar buxur, fernar buxur en svo er auðvitað talað um fimm buxur, því tölulýsingarorð er ekki til um fimm og yfir. Í öðru lagi er orðið báðir ekki notað með fleirtöluorðum, heldur hvor(ir) tveggja.

Hér fyrir neðan er listi yfir helstu fleirtöluorðin í íslensku og með dæmum:

  • buxur - Hann er Sjálfstæðismaður og á fernar buxur en það vantar skálmar á þær allar.
  • börur - Við erum bara með einar hjólbörur, sagði Tómas og leit á Einar.
  • dyr - Hann keypti sér þrennra dyra bíl, en til að forðast að segja þrennra dyra sagði hann þriggja hurða.
  • feðgar - Fyrir ári síðan létust þrennir feðgar í hópfaðmlagi í fallhlífastökki.
  • harðindi - Slík voru harðindin að blindur maður sagðist aldrei hafa séð þau verri.
  • hjón - Í gær ætluðu þrenn nýbökuð hjón að keppa í uppvaski. Keppninni var aflýst vegna veikinda.
  • jól - Hann ákvað að næstu þrenn jólin ætlaði hann að dveljast í Jemen til að losna við útgjöld til jólagjafa.
  • líkur - Þeir hafa lagt fram sínar líkurnar hvor á tilveru Marsbúa en hvorar tveggja eru vægast sagt hlægilegar.
  • lög - Þrennra laga er saknað af nýafstöðnu þingi. Vestmannaeyingum er brugðið vegna þessa.
  • mistök - Hún gerði tvenn mistök þegar hún lét tengdamóður sína fá uppskriftina að jólakökunni. Í fyrsta lagi að taka það fram að það ætti að vera atrópín í henni, í öðru lagi að hafa með sér móteitrið eserín í jólaveisluna.
  • mæðgur - Við hittum hvorar tveggja mæðgurnar og drukkum kaffi þar til við vorum orðnir grænir.
  • páskar - Nú verða tvennir páskar í apríl í röð en árið 2016 verða þeir í mars. Þá verða öll páskaegg úr Mars-súkkulaði.
  • rök - Hvor tveggja rökin eru minna virði en skósnæri.
  • samtök - Á þinginu voru fulltrúar tvennra samtaka um betra þjóðlíf og áður en dagur var liðinn kom til handalögmála.
  • sifjar - Mjög óalgengt er að tala um „tvennar, þrennar eða fernar sifjar“ - og svo mjög að ætti helst aldrei að koma fyrir.
  • skyndikynni - Ein skyndikynni á ævinni eru lágmark, sagði Óli varta.
  • skæri - Sá sem kastar tvennum skærum upp í loftið hlýtur að leiðast.
  • svið [ft.-orð í matarmerkingu ] - Hvortveggja sviðin voru illeyg á diskinum fyrir framan bræðurna en brögðuðust betur en áhorfðist.
  • tíðindi - Engra tíðinda er að vænta frekar af Marty McFly. Hann stakk sig á tannstöngli og dó úr blóðeitrun.
  • tónleikar - Fresta varð tónleikum með Justin Bieber á risasamkomu heyrnalausra i Earlville, Illinois vegna þess að Kristur mætti og veitti öllum heyrn.
  • vanskil - Öll mín vanskil koma til vegna þess að ég eyði öllu mínum peningum í brúnkukrem til að líta út eins og mýrarlík.
  • verðlaun - Hann vann til þrennra verðlauna og öll vegna klíkuskapar.

Orð eins og sokkar og skór, ef átt er við par, eru einnig fleirtöluorð. Talað er um tvenna skó, ef átt er við tvö pör, og tvenna skokka ef átt er við fjóra sokka þar sem tveir og tveir eru samstæðir, þ.e. eiga saman.