[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Flugrekstrarleyfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af flugrekstrarleyfi rússneska flugfélagsins Aeroflot.
Flugrekstrarleyfi rússneska flugfélagsins Aeroflot.

Flugrekstrarleyfi er leyfisbréf flugmálayfirvalda viðkomandi lands, sem heimilar flugrekanda að nota loftför í atvinnuskyni.

Flugrekanda (sá er stundar flugrekstur) er þá heimilt að starfrækja tiltekna tegund flutningaflugs, það er rekstur loftfara sem felur í sér flutninga á farþegum, og vörum gegn endurgjaldi. Þeir einir geta sinnt slíku flugi sem hafa til þess gilt flugrekendaskírteini og þá um leið flugrekstrarleyfi (á ensku AOC: Air operator's certificate)

Þess er krafist að rekstraraðilinn hafi starfsmenn, eignir og kerfi til staðar til að tryggja öryggi starfsmanna sinna og almennings. Í vottorðinu verða skráðar loftfarstegundir og skráningar sem nota á, í hvaða tilgangi og á hvaða svæði, á tilteknir flugvöllum eða landsvæði.

Á Íslandi er Samgöngustofa stjórnsýslustofnun allra samgöngumála og þar með flugmála. Stofnunin fer með stjórnsýslu og eftirlit flugmála, öryggiseftirlit samgöngumannvirkja og leiðsögu. Hún heldur loftfaraskrá sem er hin lögformlega skráning á eignarhaldi loftfara, og birtir yfirlit yfir þá sem hafa fengið tilskilin leyfi og skírteini. Til þess að fá flugrekendaskírteini og flugrekstrarleyfi til flutningaflugs á Íslandi þarf að sýna fram á að skilyrðum flugöryggisstofnunar Evrópu EASA (European Aviation Agency) um stjórnun á flugrekstri og lofthæfi séu uppfyllt.