[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Dúna (skáldsaga)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dune (skáldsaga))
Dúna
HöfundurFrank Herbert
Upprunalegur titillDune
ÞýðendurKári Emil Helgason og Dýrleif Bjarnadóttir (2022)
LandFáni Bandaríkjana Bandaríkin
TungumálEnska
StefnaVísindaskáldskapur
ÚtgefandiChilton Books
Partus (á Íslandi)
Útgáfudagur
1963–65 (sem framhaldssaga); ágúst 1965 (sem bók)
Síður896
VerðlaunHugo-verðlaunin
Nebula-verðlaunin
ISBNISBN 9789935485403
FramhaldDune Messiah 

Dúna (enska: Dune) er vísindaskáldsaga eftir bandaríska rithöfundinn Frank Herbert. Hún kom upphaflega út sem framhaldssaga í tveimur hlutum (sem 'Dune World' árin 1963-64 og 'Prophet of Dune' árið 1965 ) í tímaritinu Analog.

Bókin deildi Hugo-verðlaununum fyrir bestu skáldsöguna með bókinni This Immortal eftir Roger Zelazny og vann til Nebula-verðlaunanna sem besta skáldsagan við fyrstu veitingu þeirra árið 1966. Dúna er ein söluhæsta vísindaskáldsaga bókmenntasögunnar.[1]

Sögusvið Dúnu er í fjarlægðri framtíð í lénssamfélagi þar sem voldugar aðalsættir stjórna heilum plánetum sem lénum. Aðalpersóna bókarinnar er hertogasonurinn Páll af Atreifsætt (e. Paul Atreides), sem flytur til plánetunnar Arrakis eftir að fjölskylda hans hlýtur umboð til að ráða yfir henni sem léni. Plánetan er hrjóstrug og strjálbýl eyðimörk en hún er jafnframt eina uppspretta svokallaðs melans, eða „krydds“, sem er lyf sem lengir lífið og styrkir hugarafl fólks. Melans er jafnframt nauðsynlegt við geimferðir, sem útheimta fjölvíddarvitund og fyrirhyggju sem er aðeins möguleg með lyfinu. Þar sem aðeins er hægt að vinna melans á Arrakis er stjórn plánetunnar bæði eftirsóknarverð og víðsjárverð. Í sögunni er fjallað um flókið samspil stjórnmála, trúarbragða, vistfræði, tækni og mannlegra tilfinninga á meðan fylkingar innan keisaradæmisins heyja valdabaráttu um stjórn yfir Arrakis og kryddinu.

Íslensk þýðing

[breyta | breyta frumkóða]

Dúna kom út í íslenskri þýðingu Kára Emils Helgasonar og Dýrleifar Bjarnadóttur árið 2022 hjá bókaútgáfunni Partusi. Þótt orðið dune útleggist venjulega á íslensku sem „sandalda“ eða „sandskafl“ ákváðu þýðendurnir að þýða titil bókarinnar sem Dúnu. Ástæðan fyrir valinu var sú að titillinn vísar meðal annars til viðurnefnis á plánetunni Arrakis, þar sem ekkert vatn er að finna. Þýðendum þótti órökrétt að láta íbúa plánetunnar nota orð sem vísa í vatn eða snjó til að lýsa grundvallarþáttum í eyðimerkurlandslaginu. Var því ákveðið að nota orðið dúnu sem tökuorð.[2]

Dúna hefur nokkrum sinnum verið kvikmynduð. Fyrsta myndin sem byggð var á bókinni kom út árið 1984. David Lynch leikstýrði henni og Kyle MacLachlan fór með aðalhlutverkið sem Páll Atreifur. Ný kvikmyndaútfærsla sögunnar kom út í tveimur hlutum á þriðja áratugi 21. aldar í leikstjórn Denis Villeneuve þar sem Timothée Chalamet fór með aðalhlutverkið. Fyrri hlutinn kom út árið 2021 og sá seinni árið 2024.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „SCI FI Channel Auction to Benefit Reading Is Fundamental“. PNNonline.org (Internet Archive). 18. mars 2003. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. september 2007. Sótt 28. september 2007. „Since its debut in 1965, Frank Herbert's Dune has sold over 12 million copies worldwide, making it the best-selling science fiction novel of all time ... Frank Herbert's Dune saga is one of the greatest 20th Century contributions to literature.“
  2. „Heillaður af bókinni allt frá tólf ára aldri“. Fréttablaðið. 6. janúar 2023. bls. 14.
  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.