[go: up one dir, main page]

Fara í innihald

Gazprom

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gazprom
Rekstrarform hlutafélag / ríkisfyrirtæki
Stofnað 1989
Staðsetning Moskva, Rússlandi
Lykilpersónur Alexei Miller forstjóri
Starfsemi leit, vinnsla og dreifing á jarðgasi
Vefsíða http://www.gazprom.com/

Gazprom (kýrillískt letur: Газпром, einnig umritað Gasprom) er stærsta fyrirtæki Rússlands og stærsti vinnandi jarðgass í heiminum. Gazprom leggur til nánast allt það gas sem notað er í Mið-Evrópu, Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkjunum. Hjá fyrirtækinu starfa 330.000 manns.

Tekjur fyrirtækisins árið 2004 námu 31 milljarði bandaríkjadala. Það stendur fyrir tæpum 90% af þeirri gasvinnslu sem fram fer í Rússlandi og um 20% af þeirri vinnslu sem fer fram í heiminum öllum. Fyrirtækið ræður yfir gaslindum uppá 28.006 km3 sem er 15,5% af þekktum gaslindum heimsins.

Gazprom rekur sögu sína aftur til 1989 þegar það var stofnað í Sovétríkjunum sem ríkisstofnun sem átti að hafa umsjón með gasleit, vinnslu og dreifingu. Gazprom var gert að hlutafélagi 1992 og hafist var handa við einkavæðingu þess. Öllum rússneskum borgurum var þá gefið tækifæri til að eignast hlut í félaginu og einnig var erlendum fjárfestum boðinn lítill hluti á vestrænum verðbréfamörkuðum. Pólitísk afskipti og hneykslismál varðandi stjórnendur fyrirtækisins háðu því mikið næstu árin en eftir valdatöku Vladímírs Pútín sem forseti Rússlands hefur hann lagt töluverða áherslu á umbætur í stjórnun fyrirtækisins.

Gazprom er nú að meirihluta í eigu Rússneska ríkisins en það jók á árinu 2005 hlut sinn í því úr 38% í 51% en það er skilyrði fyrir því að hægt sé að lyfta hömlum sem hafa verið á fjárfestingum útlendinga í félaginu. Mikilvægi félagsins fyrir rússneskt efnahagslíf er gríðarlegt, árið 2004 var áætlað að það stæði að baki 7% vergrar þjóðarframleiðslu Rússlands og að 8-10% af öllum skatttekjum ríkisins væru þaðan komnar. Almennt er svo litið á að Gazprom sé leynt og ljóst beitt sem pólitísku verkfæri Moskvustjórnarinnar til þess að hafa áhrif í utanríkismálum, sem dæmi má nefna deilu Rússa og Úkraínumanna sem upp kom þegar Gazprom hugðist fjórfalda verðið á gasinu til Úkraínumanna um áramótin 2005/2006 en það er talið vera refsing fyrir appelsínugulu byltinguna svokölluðu sem gerð var í Úkraínu 2004 og varð til þess að til valda komust aðilar sem hliðhollari voru vesturlöndum en Rússlandi. Hvíta-Rússland, náið bandalagsríki Rússlands, fær enn gas á því lága verði sem Úkraína borgaði áður.

  • „Gazprom in Figures 2000 - 2004“ (PDF). Sótt 2. janúar 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Gasprom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. janúar 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Gazprom“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. janúar 2006.
  • „Energy and the new world power play - BBC News“. Sótt 2. janúar 2006.