Brian Greene
Brian Greene (fæddur 3. febrúar 1963) er bandarískur eðlisfræðingur, rithöfundur og einn þekktasti strengjafræðingur heims. Hann hefur verið prófessor við Columbia-háskóla síðan árið 1996. Greene, sem fæddur er í New York var undrabarn í stærðfræði. Hæfileikar hans voru slíkir, að 12 ára gamall hlaut hann einkakennslu hjá stærðfræðiprófessor við Columbia-háskóla þar sem hann hafði þegar farið langt fram úr allri framhaldsskólastærðfræði. Árið 1980 innritaðist Greene í Harvard-háskóla til að leggja stund á eðlisfræði og síðar nam hann við háskólann í Oxford á Englandi.
Bók hans The Elegant Universe: Superstrings, Hidden Dimensions, and the Quest for the Ultimate Theory var til þess fallinn að vekja áhuga á strengjakenningunni og M-kenningunni. Hún var útnefnd til Pulitzer verðlauna í flokki bóka sem ekki teljast til skáldsagna. Bókin varð síðar viðfangsefni sjónvarpsþátta á PBS sjónvarpstöðinni þar sem Greene var sögumaður. Seinni bók hans The Fabric of the Cosmos fjallar um tímarúm og eðli alheimsins.
Brian Greene hefur einnig komið að leiklist, t.a.m. var hann leikaranum John Lithgow til aðstoðar vísindalegan texta í sjónvarpsþáttaröðinni 3rd Rock from the Sun og kom einnig fram sem aukaleikari í myndinni Frequency. Nýverið var hann einnig til ráðgjafar við kvikmyndina Deja Vu sem fjallar um tímaflakk og inniheldur hugtök úr fræðilegri eðlisfræði.