Bonaparte-ætt
Bonaparte-ættin eða franska keisaraættin (la famille Bonaparte eða maison impériale de France) er konungsætt sem stofnuð var af Napóleon Bónaparte Frakkakeisara árið 1804. Fjölskyldan kom frá Korsíku og var hluti af lágaðalsstéttinni í stjórnskipan franska konungdæmisins fyrir frönsku byltinguna. Fjölskyldan var gerð að valdaætt frönsku keisaratignarinnar eftir krýningu Napóleons þann 18. maí 1804.
Þrír meðlimir ættarinnar hafa ríkt yfir Frakklandi sem keisarar:
- Stofnandi ættarinnar, Napóleon 1., frá 1804 til 1814 og árið 1815.
- Að nafninu til ríkti sonur hans, Napóleon 2., í nokkra daga árið 1815.
- Bróðursonur hans, Napóleon 3., ríkti frá 1852 til 1870 (eftir að hafa þar áður verið fyrsti forseti Frakklands frá 1848 til 1852).
Bonaparte-ættin ríkti einnig yfir ýmsum öðrum Evrópuríkjum eftir hina ýmsu hernaðarsigra Napóleons á tíma fyrra franska keisaraveldisins. Aðrir einvaldar ættarinnar voru:
- Joseph Bonaparte, konungur Napólí frá 1806 til 1808 og Spánar frá 1808 til 1813.
- Louis Bonaparte, konungur Hollands frá 1806 til 1810.
- Élisa Bonaparte, prinsessa af Lucca og Piombino frá 1805 til 1814 og af Toskana frá 1809 til 1814.
- Jérôme Bonaparte, konungur Vestfalíu frá 1807 til 1813.
Núverandi meðlimir Bonaparte-ættar sem gera tilkall til frönsku keisarakrúnunnar rekja ættir til Jérôme Bonaparte, yngri bróður Napóleons, þar sem hvorki Napóleon né síðari Bonaparte-keisarinn, Napóleon III, eiga skilgetna afkomendur á lífi.[1] Stuðningsmenn ættarinnar eru kallaðir bonapartistar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Généalogie de la famille Bonaparte“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. mars 2019. Sótt 30. desember 2020.